Ávarp stjórnarformanns

Uppskera eins og sáð var til

Jónas Þór Guðmundsson, stjórnarformaður Landsvirkjunar
Lesa ársskýrslu 2022

Í orkumálum dugir skammt að huga eingöngu að líðandi stundu. Hugsa þarf langt fram í tímann og gera ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til framtíðar. Fullyrða má að hagsmunir sérhverrar þjóðar krefjist slíkrar forsjálni. Í rekstri Landsvirkjunar hefur frá upphafi verið leitast við að sýna fyrirhyggju og hámarka um leið verðmæti endurnýjanlegu orkunnar okkar eftir því sem unnt hefur verið. Starfsfólk Landsvirkjunar allt frá stofnun fyrirtækisins á heiður skilinn fyrir framsýni í þeim efnum.

Óhætt er að segja að nú beri starfið ávöxt. Afkoma Landsvirkjunar hefur aldrei verið betri, til heilla fyrir eigandann, íslensku þjóðina. Fjárhagsleg staða fyrirtækisins er sterkari en nokkru sinni fyrr. Þessa niðurstöðu má þakka virkjunarfjárfestingum fortíðar – þegar nútíðin var framtíð – og ábyrgri fjármálastjórn, sem meðal annars hefur falist í fordæmalausri niðurgreiðslu skulda á síðastliðnum áratug eða þar um bil. Síðustu árin hefur auk þess verið endursamið við flesta stærstu viðskiptavinina, eftir því sem samningsstaðan hefur styrkst, og þannig tryggt að þeir borgi verð sem er sambærilegt því sem borgað er í löndum sem við berum okkur helst saman við.

Tímamót urðu í árslok 2022 þegar 64,73% eignarhlutur Landsvirkjunar í dótturfélaginu Landsneti hf., sem annast flutning raforku samkvæmt lögum, var seldur. Á grundvelli kaupsamnings greiddi ríkið sem kaupandi 305 milljónir bandaríkjadala fyrir hlutinn. Alþingi hafði áður mælt svo fyrir með lagabreytingu að flutningsfyrirtækið skyldi vera í beinni eigu íslenska ríkisins og/eða sveitarfélaga. Frá og með 30. desember 2022 er Landsnet hf. því ekki lengur hluti af samstæðu Landsvirkjunar.

Fagna ber þeim árangri sem náðst hefur í rekstri Landsvirkjunar, en minnt skal á að verkefninu er ekki lokið - og lýkur kannski aldrei!