Ársskýrsla 2020

Ávarp forstjóra

Sjálfbærni á erfiðu ári

Rekstur og afkoma Landsvirkjunar árið 2020 lituðust óhjákvæmilega af áhrifum heimsfaraldursins, sem hafði mikil áhrif á efnahagslífið á Íslandi og í heiminum öllum. Viðskiptavinir okkar drógu margir úr framleiðslu vegna minnkandi eftirspurnar og lækkandi afurðaverðs, auk þess sem orkuverð lækkaði mjög á mörkuðum, þótt sú þróun hafi að nokkru gengið til baka síðla árs. Hluti raforkusamninga Landsvirkjunar er tengdur álverði og verði á raforku á Nord Pool-markaði.

Sem betur fer hefur bætt fjárhagsstaða gert okkur kleift að styðja vel við viðskiptavini okkar, með því til dæmis að veita þeim tímabundinn afslátt af rafmagnsverði og taka þátt í öflugu átaki fyrir efnahagslífið með því að ráðast í ýmsar framkvæmdir og verkefni víðs vegar um landið.

En starfsemi okkar snýst ekki bara um krónur og dollara. Markmið okkar er að gera sjálfbæra þróun að óaðskiljanlegum þætti í kjarnastarfsemi fyrirtækisins, það er að hún verði frá a til ö sjálfbær í umhverfis-, efnahags- og samfélagslegum efnum. Á árinu náðist til að mynda góður áfangi, þegar alþjóðlegu samtökin CDP staðfestu að Landsvirkjun væri leiðandi í loftslagsmálum, þegar fyrirtækið fékk einkunnina A- fyrir stýringu eigin loftslagsáhrifa og afleiðinga loftslagsbreytinga á starfsemi fyrirtækisins. Aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum gerir ráð fyrir því að við verðum kolefnishlutlaus árið 2025 og er hún rakin ítarlega í loftslagsbókhaldi ársins, sem er hluti af ársskýrslunni 2020.

Landsvirkjun er þátttakandi í UN Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna, sem lýtur að hnattrænum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð, og er gerð grein fyrir framvindu í þeim málaflokkum í ársskýrslunni. Í ár er í annað sinn gerð grein fyrir sjálfbærni í rekstri fyrirtækisins út frá Global Reporting Initiative (GRI) staðlinum, í GRI-sjálfbærniskýrslunni, sem er hluti af ársskýrslunni í ár.