Ársskýrsla 2020

Ávarp stjórnarformanns

Fyrirhyggja og græn framtíð

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður

Í orkugeiranum gildir að hugsa fram í tímann. Virkjanir sem reistar eru í dag vinna rafmagn á morgun. Framkvæmdir taka oftast mörg ár og er ætlað að sinna orkuþörf framtíðar. Við Íslendingar eigum frumkvöðlum sem byggðu upp orkuvinnslu og orkukerfi á síðustu öld mikið að þakka. Sú starfsemi er í dag mikilvæg undirstaða lífsgæða þjóðarinnar.

Hyggilegt er að nota góðæri til þess að leggja til hliðar til mögru áranna. Í tilfelli Landsvirkjunar hefur síðasti rúmi áratugur verið nýttur til þess að greiða niður skuldir, en þó um leið til að reisa nýjar aflstöðvar sem hafa að mestu leyti verið fjármagnaðar með sjóðstreymi fyrirtækisins. Nú er svo komið að eiginfjárhlutfall fyrirtækisins hefur aldrei verið hærra og fjárhagsstaðan er að nálgast það sem hún er hjá viðmiðunarfyrirtækjum á Norðurlöndunum.

Bætt fjárhagsstaða hefur gert Landsvirkjun kleift að styðja við íslenskt samfélag, nú þegar gefið hefur á bátinn á árinu 2020 með veirufaraldrinum sem riðið hefur yfir heimsbyggðina. Fyrirtækið hefur staðið þétt við bakið á viðskiptavinum sínum með tímabundnum afslætti af raforkuverði og tekið þátt í öflugri viðspyrnu fyrir efnahagslífið með því að ráðast í ýmsar framkvæmdir, endurbætur og rannsóknar- og þróunarverkefni víðs vegar um landið.

Landsvirkjun hefur haft svigrúm til þess að snúa vörn í sókn. Sú sókn er hvergi nærri hætt. Eins og ráða má af yfirskrift þessarar ársskýrslu er stefna fyrirtækisins að halda áfram að grænka heiminn með því að stuðla að sjálfbærni í hvívetna; að vinna grænt rafmagn og leggja áherslu á bætta nýtingu orkuauðlindarinnar fyrir ýmiskonar starfsemi sem nýtir auðlindir jarðar með sífellt sjálfbærari hætti. - „Gerum heiminn grænan saman“!