Reksturinn í vetur
Rekstur Blöndustöðvar gekk áfallalaust fyrir sig í vetur og snerist að miklu leyti um hefðbundið viðhald. Innrennsli í Blöndulón var hins vegar fremur lítið, því kalt var á hálendinu norðvestanlands; oft snjókoma en sjaldan rigning. Um leið kallaði mikil eftirspurn á mikla orkuvinnslu. Fyrir vikið fór vatnshæð Blöndulóns undir söguleg viðmiðunarmörk í byrjun apríl. Svipaðar aðstæður voru við Fljótsdalsstöð og urðum við því að hægja á orkuvinnslu og skerða afhendingu til stórnotenda. Staða Blöndulóns tók að batna síðasta vetrardag og var vinnsla stöðvarinnar í framhaldinu aukin um þriðjung. Skerðingum var svo aflétt í byrjun maí.


Í lok síðasta árs var Jónas Þ. Sigurgeirsson ráðinn stöðvarstjóri Blöndusvæðis, en starfinu hafði hann gegnt í afleysingum frá vorinu áður, samhliða starfi sínu sem viðhaldsstjóri. Kristófer Kristjánsson, sem áður starfaði í rekstri og viðhaldi Blöndustöðvar, tók við sem viðhaldsstjóri stöðvarinnar um síðustu mánaðamót, en fyrr í vetur fluttist Valdimar Jón Björnsson úr viðhaldi og rekstri Blöndustöðvar í nýtt starf tæknimanns sem sinnir bæði Blöndustöð og Laxárstöðvum. Við þessar breytingar losnuðu tvær stöður í rekstri og viðhaldi Blöndustöðvar og voru ráðnir í þær þeir Axel Eyjólfsson vélfræðingur og Björn Hallbjörnsson rafvirki.
Enn er unnið að deiliskipulagi Blöndustöðvar og standa vonir til þess að það verði kynnt í haust, seinna en upphaflega var áætlað.