Margt í gangi á Þjórsársvæði

03.06.2024Fréttabréf starfssvæða

Fréttamolar Landsvirkjunar á Þjórsársvæði | Júní 2024

Viðhald í Búðarhálsi

Búðarhálsstöð fagnaði tíu ára afmæli 7. mars síðastliðinn. Stöðin er sú eina á Þjórsársvæði sem er búin Kaplan vélum, en þær eru frábrugðnar flestum öðrum að því leyti að í stað vatnshjóls er skrúfa sem svipar mikið til skipsskrúfu.

Viðhald í Búðarhálsi.
Viðhald í Búðarhálsi.

Allar vélar fara í árlega skoðun þar sem farið er yfir helstu kerfi, en að auki eru framkvæmdar skoðanir á þriggja, sex og tólf ára fresti og eru þær hver annarri ítarlegri. Þessar skoðanir eru hluti af því viðamikla viðhaldi sem fer stöðugt fram í öllum stöðvum okkar og tryggir mjög mikinn nýtingartíma vélanna. Hér má sjá skemmtilegar myndir innan úr hverfli vélar í Búðarhálsi, en þar sést stærð vélarinnar nokkuð vel.

Jarðtæknirannsóknir fyrir Búrfellslund

Í sumar fara fram jarðtæknirannsóknir fyrir fyrirhugað vindorkuver við Vaðöldu sem kallað hefur verið Búrfellslundur. Stefnt er að því að rannsaka jarðlög undir fyrirhuguðum vindmyllum, byggingum og vegi. Rannsóknarsvæðið er allt umhverfis Vaðöldu, neðan Sultartangastíflu og norðan vegar F26, innan Rangárþings ytra. Rannsóknirnar fela í sér um 30 m kjarnaboranir, en einnig eru grafnar gryfjur í laus jarðlög við hvert vindmyllustæði. Þá fara fram 12-15 m loftboranir í vegstæði að fyrirhuguðum vindmyllum og í næsta nágrenni fyrirhugaðra mannvirkja, auk þess sem boraðar verða tvær vatnstökuholur innan svæðisins. Niðurstöður rannsóknanna veita mikilvægar upplýsingar sem nýtast munu í hönnun mannvirkja. Áætluð verklok eru í september.

Flugöryggisljós vindmylla á hafinu

Slökkt var á hindranaljósum rannsóknavindmyllanna á Hafinu um miðjan maí, eftir að heimild Samgöngustofu lá fyrir. Með því að slökkva á ljósunum er dregið úr sjónrænum áhrifum mannvirkjanna eins og auðið er, án þess þó að skerða flugöryggi. Isavia og Landhelgisgæslan voru upplýst um ákvörðunina og eru vindmyllurnar nú merktar sem hindranir án ljóss á útgefnu sjónflugskorti.

Vindmylla á Hafinu.
Vindmylla á Hafinu.

Samstarf við Fjölbrautaskóla Suðurlands

Landsvirkjun og Fjölbrautaskóli Suðurlands hafa samið um samstarf sem felur í sér að efla iðnkennslu og -nám í skólanum, sérstaklega rafvirkja- og vélvirkjanám. Samningurinn felur í sér fjárhagslegan stuðning frá Landsvirkjun til kaupa á tækjum fyrir raf- og vélvirkjabrautir skólans. Þessi stuðningur kemur að góðum notum enda er mikilvægt fyrir nemendur að hafa aðgang að nýjustu tækjum sem í boði eru hverju sinni.

Auk fjárhagslegs stuðnings mun Landsvirkjun bjóða nemendum í rafvirkja- og vélvirkjanámi í heimsókn í starfsstöðvar sínar og veita þeim tækifæri til að kynnast starfsemi fyrirtækisins. Þetta gefur nemendum tækifæri til að tengja nám sitt við raunverulegar aðstæður.

Þá mun Landsvirkjun einnig bjóða upp á starfsnám fyrir nemendur í sumar, en starfsnám er mikilvægur hluti þessara námsbrauta. Nemendur fá þar tækifæri til að beita þekkingu sinni og færni í raunverulegum verkefnum.

Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri  Samfélags og umhverfis skrifaði undir  samstarfssamninginn ásamt Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara  Fjölbrautaskóla Suðurlands.
Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Samfélags og umhverfis skrifaði undir samstarfssamninginn ásamt Olgu Lísu Garðarsdóttur, skólameistara Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Samstarf Landsvirkjunar og Fjölbrautaskóla Suðurlands er spennandi skref í átt að eflingu iðnnáms og Landsvirkjun styður stolt við frekari uppbyggingu þess náms.

Leyfismál vegna Hvammsvirkjunar

Umhverfisstofnun veitti Landsvirkjun heimild til að breyta vatnshloti í Þjórsár í byrjun aprílmánaðar, en það er forsenda þess að hægt sé að endurnýja virkjunarleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Við erum vongóð um að Orkustofnun endurnýi það leyfi í sumar og að í framhaldinu verði gefin út framkvæmdaleyfi frá sveitarfélögunum sem eiga í hlut. Komi þau leyfi í hús í sumar gæti Hvammsvirkjun byrjað að vinna orku inn á kerfið fyrir lok árs 2028.

Vegagerðin hefst handa við endurbætur á núverandi Hvammsvegi í sumar og við vinnum að undirbúningi á jörðinni Hvammi 3, þar sem vinnubúðir verða staðsettar.

Þrír styrkir úr samfélagssjóði til Suðurlands

Nánar um samfélagssjóð Landsvirkjunar

Fyrsta úthlutun ársins úr samfélagssjóði fór fram á dögunum og runnu þrír styrkir til aðila á Suðurlandi, alls upp á eina milljón króna. Þá hlutu: Listasafn Árnesinga, Góðir dagar ehf. (vegna endurvinnslu á rúlluneti) og Þingborg (vegna Ullarviku). Í desembermánuði runnu styrkir til nemendafélagsins Mímis í Menntaskólanum á Laugarvatni og hjálparsveitarinnar Tintron. Umsóknarfrestur vegna næstu úthlutunar er til 31. júlí.

Skráning á póstlista

Skráningarform má nálgast hér

Landsvirkjun gefur reglulega út fréttabréf í tölvupósti. Áhugasamir geta skráð sig á póstlista og fengið þau send þegar þau koma út.

Verkefnisstjóri nærsamfélags á Þjórsársvæði