Umhverfislega sjálfbær

Það er stefna Landsvirkjunar að stuðla að sjálfbærri framtíð með umhverfislega sjálfbærri raforkuvinnslu sem samræmist markmiðum heims um að halda hlýnun jarðar innan við 1,5°C

Stuðlum að sjálfbærri framtíð

Hér er fjallað um það hvernig endurnýjanleg raforkuvinnsla úr vatnsorku, jarðvarmaorku og vindorku – kjarnastarfsemi Landsvirkjunar - flokkast sem atvinnustarfsemi sem raunverulega stuðlar að sjálfbærni og telst verulegt framlag til mótvægis við loftslagsbreytingar.

Reglugerð um sjálfbærar fjárfestingar

Árið 2020 samþykkti Evrópusambandið flokkunarreglugerð fyrir sjálfbærar fjárfestingar (e. EU Taxonomy) og tók hún gildi hér á landi 1. júní 2023. Í henni hafa verið skilgreind viðmið sem ákvarða hvort atvinnustarfsemi uppfylli skilyrði þess að teljast umhverfislega sjálfbær.

Tilgangur þessa flokkunarkerfis er að styðja við fjárfestingar sem raunverulega stuðla að sjálfbærum heimi. Þar eru sett fram umhverfismarkmið og tæknileg matsskilyrði sem byggja á vísindalegum mælikvörðum og þurfa fyrirtæki að birta upplýsingar samkvæmt þeim – líkt og við þekkjum úr fjárhagsskýrslugerð.

Þetta aukna gagnsæi og samanburðarhæfni geta stutt við sjálfbærnivegferð fyrirtækja, upplýstar ákvarðanir og komið í veg fyrir grænþvott.

Umhverfismarkmið flokkunarkerfisins

Til að flokkast sem umhverfislega sjálfbær þarf að sýna fram á að atvinnustarfsemin stuðli verulega að einu eða fleiri af eftirfarandi sex umhverfismarkmiðum flokkunarkerfisins:

  • Mótvægi við loftslagsbreytingar (draga úr losun gróðurhúsalofttegunda)
  • Aðlögun að loftslagsbreytingum (t.d. varnir gegn öfgaveðurfari og náttúruvá)
  • Sjálfbær notkun og verndun vatns- og sjávarauðlinda
  • Umbreyting yfir í hringrásarhagkerfi (endurnotkun, endurnýting og endurvinnsla)
  • Fullnægjandi mengunarvarnir og -eftirlit
  • Vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa

Jafnframt má atvinnustarfsemin ekki valda verulegum skaða á neinum af ofangreindum markmiðum og þarf auk þess að uppfylla lágmarksskilyrði um mannréttindi, vinnuvernd og góða stjórnarhætti.

Umhverfislega sjálfbær orkuvinnsla

Öll raforkuvinnsla Landsvirkjunar flokkast sem umhverfislega sjálfbær þar sem hún telst verulegt framlag til mótvægis við loftslagsbreytingar. Á sama tíma telst starfsemin ekki valda umtalsverðu tjóni á öðrum umhverfismarkmiðum, þ.e. aðlögun að loftslagsbreytingum, líffræðilegri fjölbreytni, hringrás auðlinda, sjálfbærni vatnsauðlindarinnar, sem og mengunarvörnum og -eftirliti. Þá uppfyllir starfsemin þau skilyrði sem sett eru fram um mannréttindi, vinnuvernd og góða stjórnarhætti. Þessu til staðfestingar þarf starfsemin að uppfylla sértæk tæknileg matsviðmið sem skilgreind hafa verið fyrir hvert markmið.

Landsvirkjun birtir hlutfall af tekjum, fjárfestingum og rekstrarkostnaði í starfseminni sem uppfylla skilyrði um umhverfislega sjálfbærni í ársskýrslu sinni.