Samfélagslosun

Skuldbindingar okkar í loftslagsmálum

Orkumál gegna lykilhlutverki í baráttunni við neyðarástand í loftslagsmálum.

Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að starfsemin verði kolefnishlutlaus árið 2025.

Framlag fyrirtækisins hefur áhrif á skuldbindingar Íslands í málaflokknum um 29% samdrátt árið 2030 miðað við árið 2005.

Skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum eru samofnar skuldbindingum Evrópusambandsins. Hér skipta endurnýjanleg orka, orkusparnaður og breytt framleiðslu- og neyslumynstur höfuðmáli.

Samdráttur í losun verður sífellt mikilvægari og hafa verður í huga að mótvægisaðgerðir á borð við skógrækt og endurheimt votlendis koma ekki í stað samdráttar.

Ríki sambandsins hafa sett sameiginlegt markmið með Íslandi og Noregi um að draga úr losun um 55% árið 2030 miðað við 1990.

Þessi samdráttur fer fram í þremur flokkum:

1. Viðskiptakerfi með losunarheimildir

Losun frá iðnaðarferlum í stóriðju og millilandaflugi.

2. Samfélagslosun

Losun vegna notkunar á hinum ýmsu vörum og þjónustu hér á landi og frá framleiðslu, annarri en stóriðju. Má þar nefna ferðaþjónustu, sjávarútveg, landbúnað, byggingariðnað, raforkuvinnslu með jarðvarma, sorp og endurvinnslu.

3. Landnotkun og skógrækt

Losun frá landnotkun og kolefnisbinding, t.d. með landgræðslu eða skógrækt.

Loftslagsmarkmið Evrópusambandsins

Samfélagslosun er á beina ábyrgð einstakra ríkja. Hún er sú losun sem ríki geta haft hvað mest áhrif á og jafnframt sú losun sem ríki þurfa að greiða fyrir ef þau uppfylla ekki skuldbindingar sínar.

Ríki þurfa því að leggja áherslu á samdrátt í samfélagslosun til að markmið Evrópusambandsins fyrir 2030 náist.

Viðskiptakerfi með losunarheimildir

Draga þarf úr losun innan viðskiptakerfa um 1.000 milljón tonn

Samfélagslosun

Draga þarf úr samfélagslosun um 1.550 milljón tonn

Landnotkun og skógrækt

Nettó binding ekki minni en 310 milljón tonn

Skuldbindingar Íslands

Loftslagsáætlun Landsvirkjunar

Samkvæmt Parísarsamkomulaginu hefur Ísland skuldbundið sig til að draga úr samfélagslosun um 29% árið 2030, ef miðað er við losun ársins 2005.

Íslensk stjórnvöld ætla hins vegar að ganga lengra og hafa sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í samfélagslosun á sama tímabili. Þá hefur markmið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2040 verið lögfest og jafnframt hefur Ísland sett markmið um að verða óháð jarðefnaeldsneyti sama ár.

Töluverður samdráttur þarf að eiga sér stað í flokknum samfélagslosun, en losun þarf að verða 1,3 milljón tonna minni árið 2030 en hún er nú. Markmið fyrir viðskiptakerfi með losunarheimildir er ekki brotið niður á einstaka ríki. Losun í flokknum landnotkun og skógrækt fellur ekki undir skuldbindingar þjóða, en má ekki aukast.

Viðskiptakerfi með losunarheimildir

Markmið ekki brotin niður á einstaka ríki

Samfélagslosun

Draga þarf úr losun um 1,3 milljón tonn

Landnotkun og skógrækt

Nettólosun aukist ekki

Samdráttur í samfélagslosun skiptir sköpum

Losunarheimildir fyrir samfélagslosun minnka ár frá ári og ef farið er fram úr þeim þarf að greiða fyrir það. Því er afar brýnt að grípa til aðgerða sem telja inn í skuldbindingar Íslands í málaflokknum.

Allar aðgerðir skipta máli en aðeins hluti þeirra dregur úr samfélagslosun.

Landsvirkjun styður við skuldbindingar Íslands

Í loftslags- og umhverfisstefnunni okkar kemur fram að Landsvirkjun stefnir að kolefnishlutleysi og tekur virkan þátt í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsvánni.

Markvisst er unnið að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfseminnar, styðja við skuldbindingar Íslands um samdrátt í samfélagslosun og bregðast við þeim áskorunum og tækifærum sem loftslagsbreytingum fylgja.

Markmið okkar um 60% samdrátt í losun frá jarðvarmavinnslu jafngildir um 1,9% af landsmarkmiði um 55% samdrátt samfélagslosunar árið 2030 miðað við árið 2005.

Forstöðumaður - Loftslag og grænar lausnir