Spurt og svarað um upprunaábyrgðir

Tilgangur upprunaábyrgðakerfisins er að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkukosta og þar með orkuskipti til að berjast gegn loftslagsvánni. Fyrirtæki sem vinna raforku úr endurnýjanlegum auðlindum, á borð við vatnsafl, jarðvarma eða vind, njóta þess með hærra verði.

Hér fyrir neðan má nálgast spurningar og svör um þátttöku Íslands í kerfinu, hvernig það virkar og hvaða verðmæti það skapar, auk almennra svara við ýmsum álitamálum varðandi upprunaábyrgðir.

Af hverju upprunaábyrgðir?

 • Tilgangur upprunaábyrgðakerfisins er að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegra orkukosta og þar með orkuskipti til að berjast gegn loftslagsvánni. Fyrirtæki sem vinna raforku úr endurnýjanlegum auðlindum, á borð við vatnsafl, jarðvarma eða vind, njóta þess með hærra verði.

 • Upprunaábyrgðakerfið er valkvætt kerfi og því skapar val raforkunotenda verðmæti upprunaábyrgða. Tökum dæmi:

  Bakarí með loftslagsvitund

  Bakarí í Evrópu er með starfsemi á svæði þar sem einungis er framleidd óendurnýjanleg orka. Eigandi bakarísins er meðvitaður um loftslagsvána og vill nota endurnýjanlega orku. Á sama tíma er pappírsverksmiðja á svæði innan Evrópu þar sem einungis er framleidd endurnýjanleg orka.

  Pappírsverksmiðjan og viðskiptavinir hennar hafa hins vegar lítinn áhuga á loftslagsmálum. Eigandi bakarísins væri tilbúinn að greiða aukalega til þess að nota endurnýjanlega orku en hann getur ekki fengið hana í innstungurnar til sín nema með því að flytja bakaríið.

  Hvað er til ráða?

  Hérna kemur upprunaábyrgðakerfið inn. Upprunaábyrgðakerfið skiptir endurnýjanlegri orku í raun í tvennt, annars vegar raforku og hins vegar upprunaábyrgð. Í stað þess að pappírsverksmiðjan fái að njóta grænleika orkunnar sjálfkrafa út frá staðsetningu er sá grænleiki nú sérstök söluvara óháð staðsetningu. Bakaríið getur því keppt við pappírsverksmiðjuna um grænleika orkunnar án þess að flytja. Þetta leiðir til þess að þeir sem vilja borga fyrir endurnýjanlega orku fá hana. Ekki í innstunguna, í tilfelli bakarísins, heldur í bókhaldi kerfisins.

  Flýtt fyrir orkuskiptum

  Með aukinni umhverfisvitund samfélagsins hefur skapast umframeftirspurn eftir upprunaábyrgðum og verð þeirra er margfalt hærra í dag en á síðasta áratug.

  Upprunaábyrgðakerfið leiðir til þess að framleiðendur endurnýjanlegrar orku fá meira greitt fyrir sína raforku, svokallaða græna premíu, í krafti markaðslögmála. Það leiðir til þess að arðsemi endurnýjanlegrar orku eykst og þar með samkeppnishæfni hennar gagnvart jarðefnaeldsneyti.

  Þannig er tilgangi kerfisins náð sem er að flýta fyrir orkuskiptum í Evrópu.

 • Ísland á aðild að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem felur í sér ákveðnar skuldbindingar, m.a. innleiðingu á regluverki frá Evrópu.

  Tilskipun 2009/28/EB og raforkutilskipunin 2009/72/EB eru hluti EES samningsins. Íslenska ríkinu er skylt samkvæmt þessum tilskipunum að gefa raforkusölum hérlendis kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir og taka þátt í viðskiptum með þær. Þátttaka orkufyrirtækja og orkunotenda í kerfi með upprunaábyrgðir er þó valfrjáls. Evrópskt viðskiptakerfi upprunaábyrgða var innleitt hér á landi með lögum árið 2008, en Landsvirkjun hóf sölu þeirra árið 2011.

  Neytendur gera sífellt auknar kröfur um umhverfisvænni framleiðslu. Þátttaka í kerfinu tryggir íslenskum raforkukaupendum aðgang að markaði með græna vöru og þjónustu. Kerfið gerir einnig íslenska raforkuvinnslu samkeppnishæfari með því að auka virði endurnýjanlegrar orku. Þar með fær íslenska þjóðin græna premíu, eins konar bónusgreiðslu, af orkuauðlindinni.

 • Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim auðlindum sem þjóðin hefur trúað henni fyrir. Með sölu upprunaábyrgða fæst aukinn arður af auðlindunum sem nýtist til að efla frekari græna orkuvinnslu.

  Landsvirkjun áformar að auka endurnýjanlega orkuvinnslu sína og næstu verkefni verða að líkindum vindlundur við Búrfell og Hvammsvirkjun í Þjórsá. Auknar tekjur af upprunaábyrgðum skjóta því enn styrkari stoðum undir framtíð orkufyrirtækis þjóðarinnar, sem hefur greitt síhækkandi arð til ríkissjóðs á undanförnum árum.

  Verðmæti upprunaábyrgða hefur fimmtugfaldast frá því að kerfinu var komið á. Neytendur gera sífellt auknar kröfur um græna orku. Sá þrýstingur eykur kaup á upprunaábyrgðum og kaupverðið rennur beint til orkufyrirtækja sem framleiða orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

  Auknar tekjur hvetja þau fyrirtæki til dáða, um leið og þær hvetja önnur fyrirtæki til að taka upp grænni hætti. Þess vegna seljum við upprunaábyrgðir, líkt og önnur evrópsk fyrirtæki sem vinna græna orku. Niðurstaðan er grænni heimur fyrir okkur öll.

Hver eru verðmætin?

 • Kerfi upprunaábyrgða er loks farið að virka eins og til var ætlast, tryggja þeim sem vinna endurnýjanlega orku hærra verð en ella og styðja þannig við orkuskipti hér og á meginlandi Evrópu.

  Verð upprunaábyrgða hefur hækkað mikið. Haldist það í þeim hæðum gæti árlegt verðmæti ábyrgða fyrir öll orkufyrirtæki landsins orðið um 15 milljarðar kr. á ári.

 • Kerfi upprunaábyrgða er loks farið að virka eins og til var ætlast, tryggja þeim sem vinna endurnýjanlega orku hærra verð en ella og styðja þannig við orkuskipti hér og á meginlandi Evrópu.

  Verð upprunaábyrgða hefur hækkað mikið. Haldist það í þeim hæðum gæti árlegt verðmæti ábyrgða fyrir Landsvirkjun orðið um 11 milljarðar kr. á ári.

 • Tekjur Landsvirkjunar af sölu upprunaábyrgða fara í uppbyggingu á endurnýjanlegri orku og styðja þannig með beinum hætti við orkuskipti á Íslandi.

Hvernig virkar kerfið?

 • Kaupendur upprunaábyrgða eru raforkukaupendur á Íslandi og annars staðar í Evrópu, fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar. Þeir kaupa upprunaábyrgðir til að skapa viðbótartekjur fyrir framleiðendur endurnýjanlegrar orku og ýta þannig undir orkuskipti. Með þessu móti geta fyrirtæki jafnframt sýnt fram á umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð í verki.

  Það færist í aukana að fyrirtæki setji sér það markmið að kaupa eingöngu vottaða græna raforku. Í þessu samhengi má helst nefna samtökin RE100, sem eru samtök stórra, áhrifamikilla, alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig til að nota eingöngu 100% endurnýjanlega raforku innan ákveðinna tímamarka. Eina leiðin fyrir mjög mörg þessara fyrirtækja til að ná því markmiði er að kaupa upprunaábyrgðir.

  Umhverfisvitund neytenda hefur vaxið mikið undanfarin ár og margir velja frekar að kaupa vörur sem unnar eru með sjálfbærum hætti. Uppruni raforku sem notuð er við framleiðslu spilar þar stórt hlutverk en aðgengi raforkunotenda í Evrópu að endurnýjanlegri orku er mjög mismunandi. Þar sem aðgengi að endurnýjanlegri orku er lítið standa raforkukaupendur sem vilja nota endurnýjanlega raforku frammi fyrir erfiðu vali, annað hvort að flytja starfsemina eða halda áfram að nota jarðefnaeldsneyti.

  Framboð upprunaábyrgða er takmarkað af vinnslu á endurnýjanlegri orku og með aukinni umhverfisvitund samfélagsins hefur skapast umframeftirspurn eftir upprunaábyrgðum. Þetta hefur leitt til mikilla verðhækkana á upprunaábyrgðum sem eykur arðsemi endurnýjanlegrar orkuframleiðslu og flýtir þannig fyrir orkuskiptum í krafti markaðslögmála.

 • RE100 fyrirtækin

  RE100 er alþjóðlegt framtak fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig til að nota 100% endurnýjanlega orku í sinni starfsemi og hvetja þar með til hraðari orkuskipta í heiminum. Í samtökunum eru nú næstum 400 fyrirtæki um allan heim og hefur fjölgað hratt undanfarið.

  Sum af stærstu fyrirtækjum í heimi eru í samtökunum m.a. Microsoft, Google, Apple, General Motors, Goldman Sachs og Airbnb svo eitthvað sé nefnt. Lista yfir öll fyrirtækin má nálgast hér.

 • Samkvæmt lögum er það hlutverk Landsnets að gefa út upprunaábyrgðir á Íslandi.

  Orkustofnun er falið að reikna út uppruna raforku á Íslandi eftir orkugjöfum ásamt öðru tengdu útgáfu á upprunaábyrgðunum. Til þess að koma í veg fyrir tvítalningu/tvísölu þegar upprunaábyrgðir eru seldar til Evrópu þarf að bókfæra hér samsvarandi magn raforku í sömu hlutföllum og samsetning raforkuframleiðslu er í Evrópu. Það er skýringin á því að raforkureikningar hér á landi hafa sýnt uppruna orkunnar í t.d. kolum eða kjarnorku. Auðvitað notuð við hvorki kolaorku né kjarnorku hér á landi en við þurfum að stemma af bókhaldið vegna sölu á upprunaábyrgðum til meginlandsins.

  Evrópsk samtök útgefenda upprunaábyrgða, AIB - Association of Issuing Bodies, sjá um að þróa og staðla upprunaábyrgðakerfið innan aðildarríkja.

 • Frá árinu 2013 hefur þýska vottunarfyrirtækið TŰV SUD gert úttekt á sölu upprunaábyrgða hjá Landsvirkjun. Fyrirtækið tekur út framleiðslumæla og ber saman við fjölda útgefinna skírteina. Þannig er tryggt af óháðum aðila að útgefnar upprunaábyrgðir séu jafn margar og framleiddar MWst af endurnýjanlegri orku. Hluti af þessari úttekt er að meta alla samninga um upprunaábyrgðir og gagnagæði.

  TŰV SUD var stofnað árið 1866 og er eitt af meginmarkmiðum þess að stuðla að trausti og skapa sjálfbæra framtíð. Landsvirkjun er stolt af þeim áfanga að hafa staðist kröfur TŰV SUD í árlegri úttekt og haldið þessari vottun óslitið frá 2013.

 • Upprunaábyrgðakerfið er bókhaldslegt kerfi. Haldin er nákvæm skráning á magni endurnýjanlegrar orku í Evrópu og græni þátturinn gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð afhendingu raforkunnar. Kerfið byggir á samstarfi þjóða í Evrópu og var komið á fót til að styðja við orkuskipti, til að berjast gegn loftslagsvánni.

  Til þess að koma í veg fyrir tvítalningu þegar upprunaábyrgðir eru seldar til Evrópu þarf að bókfæra hér ígildi samsvarandi magns raforku í sömu hlutföllum og samsetning raforkuframleiðslu er í Evrópu. Upplýsingar um uppruna raforku eiga að birtast íslenskum raforkukaupendum á eða með raforkureikningi sínum einu sinni á ári, sbr. reglugerð nr. 757/2012 um birtingu upplýsinga sem eru tengdar upprunaábyrgðum raforku.

  Samt sem áður breyta upprunaábyrgðir ekki því að Ísland er land endurnýjanlegrar orku. Hér um bil allt rafmagn sem unnið er á Íslandi er af endurnýjanlegum uppruna („grænt“). Engu að síður er orkukaupendum óheimilt að staðhæfa að þeir nýti græna orku, nema þeir geti framvísað upprunaábyrgð sem staðfestir endurnýjanlegan uppruna raforkunnar.

 • Með því að kaupa upprunaábyrgð eða með því að vera í viðskiptum við sölufyrirtæki sem selur vottað endurnýjanlegt rafmagn með upprunaábyrgðum.

  Þú getur beðið um staðfestingu á kaupum á endurnýjanlegri orku frá raforkusalanum þínum eða skoðað orkureikninginn þinn.

Almennt um upprunaábyrgðir

 • Nei. Upprunaábyrgðir fela í sér tækifæri til að ýta undir orkuskipti í Evrópu. Kaup á upprunaábyrgðum gera það að verkum að fyrirtæki sem vinna endurnýjanlegra orku fá viðbótartekjur sem gera endurnýjanlega orkukosti arðbærari. Þannig spila upprunaábyrgðir mikilvægt hlutverk í útreikningi á arðsemi vinnslu grænnar orku og stuðla að því að meira verði unnið af henni á kostnað óumhverfisvænnar orku.

  Með þátttöku í kerfinu erum við að auka verðmæti endurnýjanlegrar orku Íslands. Aukinn arður af auðlindinni nýtist til að efla frekari græna orkuvinnslu. Landsvirkjun áformar að auka endurnýjanlega orkuvinnslu sína og næstu verkefni verða að líkindum vindlundur við Búrfell og gerð Hvammsvirkjunar í Þjórsá.

  Auknar tekjur af upprunaábyrgðum skjóta því enn styrkari stoðum undir framtíð orkufyrirtækis þjóðarinnar, sem hefur greitt háan arð til ríkissjóðs á undanförnum árum.

 • Líklegt er að kerfi uppunaábyrgða hafi jákvæð áhrif á ímynd Íslands og íslenskra fyrirtækja til lengri tíma litið, þar sem það kemur í veg fyrir að íslensk fyrirtæki verði staðin að því að fullyrða að orkan sem þau nýta sé endurnýjanleg, án þess að geta fært sönnur fyrir því þegar erlendir kaupendur fara fram á slíkt. Með notkun upprunaábyrgða er hægt að sýna fram á að íslensk vara sé framleidd með vottaðri grænni orku skv. alþjóðlega viðurkenndu kerfi.

  Sjái raforkunotandi sér hag í því að geta sýnt fram á notkun á endurnýjanlegri orku með alþjóðlega viðurkenndri aðferð kaupir raforkunotandinn upprunaábyrgðir. Ákvörðunin um að borga aukalega til að nota vottaða endurnýjanlega orku í sinni starfsemi getur bæði verið tekin út frá sjónarmiðum um samfélagslega ábyrgð en einnig vegna ákalls frá viðskiptavinum raforkunotandans.

  Íslenskur almenningur býr eftir sem áður í landi endurnýjanlegrar orku. Skiljanlegt er að fólk finnist kerfið ruglandi, en e.t.v. er auðveldara að skilja kerfið ef maður hugsar sér að á Íslandi væri einn raforkuframleiðandi með t.d. 5% markaðshlutdeild, sem ynni alla sína raforku með dísilrafstöðvum. Þá þarf eitthvert kerfi til að koma í veg fyrir að allir raforkukaupendur í landinu staðhæfi að þeir nýti endurnýjanlega orku.

  Það einfaldar líka málið að hugsa um þetta kerfi sem bókhaldslegt kerfi, eins og það er í raun og veru. Ef einhver greiðir fyrir vottorð um endurnýjanlega orku, til dæmis af því að hann er á svæði í Evrópu þar sem græn orka er ekki í boði, þá þarf að færa gráu orkuna hans til bókar á móti. Þannig komum við í veg fyrir að sömu upprunaábyrgðirnar séu seldar tvisvar.

  Þetta er bókhald, hvað sem líður rafmagninu í innstungunum. Bókhald sem orkufyrirtæki þjóðarinnar og þar með þjóðin öll hagnast á.

 • Ef keyptar eru upprunaábyrgðir þá kemur fram að orkan sé frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Ef ekki eru keyptar upprunaábyrgðir þá stendur að samsetning orkunnar sé eins og meðaltalið á því svæði sem kerfið nær til, þ.e. í öllum þeim löndum sem standa að kerfi upprunaábyrgða.

  Það er bókhaldsleg ástæða fyrir þessu, en við notum auðvitað ekki kol eða kjarnorku hér á landi þótt slíkt sé fært til bókar.

  Upprunaábyrgðir breyta engu um þá staðreynd að Ísland er land endurnýjanlegrar orku. Hins vegar geta einungis þau sem kaupa upprunaábyrgðir sagst nota vottaða endurnýjanlega orku samkvæmt alþjóðlegu kerfi.

  Hér um bil allt rafmagn sem unnið er á Íslandi er af endurnýjanlegum uppruna („grænt“). Engu að síður er orkukaupendum óheimilt að staðhæfa að þeir nýti græna orku, nema þeir geti framvísað upprunaábyrgð sem staðfestir endurnýjanlegan uppruna raforkunnar.

  Landsvirkjun hefur alltaf byggt raforkuvinnslu sína á endurnýjanlegum orkugjöfum og hyggst gera það áfram. Þess vegna er ljóst að auknar tekjur, hvaðan sem þær koma, styðja annað hvort við uppbyggingu endurnýjanlegrar orku eða leiða til hækkunar arðgreiðslna til ríkisins.

 • Markmið stjórnvalda miða við raunvinnslu orku innan landsteinanna. Það miðast ekki við orku innan markaðskerfis líkt og upprunaábyrgðakerfið er í raun. Sala upprunaábyrgða hefur því engin áhrif á hátt hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa hérlendis, markmið um kolefnishlutleysi né önnur loftslags- eða umhverfismarkmið.

  Aftur á móti gæti aukinn arður af endurnýjanlegum auðlindum Íslands vegna sölu upprunaábyrgða nýst til að efla frekari orkuvinnslu hérlendis og styðja við frekari orkuskipti.

  Þetta hefur ekki áhrif á markmið um kolefnishlutleysi, þar sem losun Íslands vegna raforkuvinnslu er reiknuð út frá framleiðsluaðferðum án tillits til upprunaábyrgða.

 • Aðeins þau sem kaupa upprunaábyrgðir geta sagst kaupa endurnýjanlega orku.

  Upprunaábyrgðir eru aðeins gefnar út fyrir það magn endurnýjanlegrar orku sem er framleitt, þannig að ábyrgðirnar seljast upp um leið og endurnýjanlega orkan.

 • Kerfi upprunaábyrgða felur í sér kröfu um að þau sem vilja nota staðhæfingar um græna orku í sölu- eða markaðsstarfi geti sýnt með óyggjandi hætti að orkan sem þau kaupa sé endurnýjanleg. Þar af leiðir að slíkar staðhæfingar geta ekki náð til fleiri megawattstunda en sem nemur vinnslu endurnýjanlegrar orku í kerfinu. Um leið kemur kerfið í veg fyrir að aðilar sem ekki nýta græna orku geti grænþvegið starfsemi sína með fullyrðingum um grænan uppruna orkunnar.

  Kaup á upprunaábyrgðum gera það að verkum að þau fyrirtæki sem vinna endurnýjanlega orku fá viðbótartekjur sem gera endurnýjanlega orkukosti arðbærari. Þannig spila upprunaábyrgðir mikilvægt hlutverk í útreikningi á arðsemi framleiðslu grænnar orku og gerir það að verkum að meira verður framleitt af henni á kostnað óumhverfisvænnar orku.

 • Raforkan sjálf er aðeins um 1/4 af raforkureikningi hvers heimilis en velji heimili að kaupa upprunaábyrgðir mun það hækka raforkureikninginn um u.þ.b. 2%.

  Tekjur af upprunaábyrgðum munu hins vegar gera Landsvirkjun kleift að bæta við nýjum virkjunum án þess að hár kostnaður við þær virkjanir fari að fullu inn í verðlagið. Það er mikið hagsmunamál fyrir ísensku þjóðina og íslenskt efnahagslíf í þeim orkuskorti sem er fyrirséður næstu árin.

 • Landsvirkjun fer eftir öllum þeim lögum og reglum sem gilda um viðskipti með upprunaábyrgðir og er ríkt eftirlit á markaðnum frá hinum ýmsu aðilum. Með innleiðingu kerfis um sölu upprunaábyrgða á Íslandi í lok árs 2011 varð landið aðili að viðskiptakerfi Evrópu með upprunaábyrgðir. Hlutverk aðila í viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir er skilgreint með skýrum hætti í lögum um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. nr. 30/2008 og með reglugerð nr. 757/2012, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB.

  Meginskylda ríkja samkvæmt 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um upprunaábyrgðir raforku 2009/28/EB er að tryggja að raforkuframleiðendum innan þeirra lögsögu standi til boða að fá útgefnar upprunaábyrgðir vegna eigin framleiðslu raforku af endurnýjanlegum uppruna. Í því skyni skulu ríkin tilnefna tiltekið stjórnvald eða stofnun til að fara með útgáfu upprunaábyrgða, auk þess sem komið skal á fót skráningarkerfi fyrir útgáfu, millifærslu og afskráningu upprunaábyrgða, sbr. 4.-5. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Landsnet hf. hefur það hlutverk að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem unnin er með endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi og hefur eftirlit með því að fjöldi upprunaábyrgða sem gefinn er út komi heim og saman við magn orku sem unnin hefur verið sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2008.

  Upprunaábyrgðir sem gefnar eru út af Landsneti hf. skulu viðurkenndar á Evrópska efnahagssvæðinu sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2008 og 9. mgr. 15. gr tilskipunar 2009/28/EB. Orkustofnun hefur það hlutverk að staðfesta að upprunaábyrgðir sem gefnar eru út fyrir raforkuvinnslu á Íslandi séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á Íslandi. Orkustofnun hefur eftirlitshlutverk með viðskiptakerfinu á Íslandi hvert ár, þ.e. samsetningu vottaðrar og óvottaðrar raforkunotkunar á Íslandi með tilliti til samsetningar á raforkuframleiðslu í Evrópu. Stofnunin birtir niðurstöður árlega á vef sínum.