Vetni og rafeldsneyti

Við leggjum metnað okkar í að vera leiðandi á sviði umhverfismála. Einn liður í því er að skoða framleiðslu vetnis fyrir innanlandsmarkað og tækifæri varðandi útflutning á vetni. Vetni er talinn álitlegur orkukostur sem gæti komið í stað jarðefnaeldsneytis, sér í lagi hvað varðar stærri farartæki, s.s. vöruflutningabíla, vinnuvélar, skip og flugvélar. Vetnisframleiðsla krefst mikillar orku og eftirspurn eftir grænu vetni er talin munu fara vaxandi á komandi árum samhliða markmiðum í loftslagsmálum. Við viljum taka þátt í að móta græna framtíð Íslands og stuðla að því að verða laus við olíur og bensín sem helstu orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2050.

Við erum enn komin stutt á veg í vetnismálum hér á landi, en tækifærin eru mörg. Þess vegna höfum við lagt í töluverða vinnu við greiningu á vetni og rafeldsneyti sem orkugjafa. Í því sambandi höfum við rætt við hugsanlega kaupendur vetnis hér á landi og skoðað hvernig dreifingu þess yrði best fyrir komið. Við erum einnig að skoða útflutning vetnis og rafeldsneytis og hvort verð á afurðinni verður samkeppnishæft, til dæmis til endanotenda á meginlandi Evrópu.

Enn eru fá farartæki knúin vetni á Íslandi. Hins vegar hefur mikil vitundarvakning átt sér stað á undanförnum misserum um kosti vetnis og rafeldsneytis og hvaða þátt þessir orkugjafar geta átt í því að minnka losun kolefnis út í andrúmsloftið.

Vinnsla vetnis hér á landi hefur margvíslegan ávinning í för með sér:

  • Hreinn, innlendur orkugjafi dregur úr innflutningi á olíum og bensíni. Það þýðir minni losun gróðurhúsalofttegunda og gjaldeyrissparnað.
  • Framleiðslukostnaður græns vetnis á Íslandi er einn sá lægsti í heimi. Það byggir á stöðugu framboði 100% endurnýjanlegrar raforku á hagstæðu verði.
  • Tækifæri fyrir orkufyrirtæki þjóðarinnar að vera leiðandi í sjálfbærri þróun samfélagsins með bættri nýtingu auðlinda og vinnslukerfis og aukinni arðsemi.

Ný og græn orkutækifæri

Ekkert bensín, engin olía

Upptaka frá fundi Landsvirkjunar um þær breytingar sem blasa við í orku- og loftslagsmálum

Viðskiptaþróunarstjóri