Vetni

Í sterkri stöðu fyrir orkuskipti

Til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda þarf að leita fleiri grænna orkugjafa til að knýja stærri farartæki svo sem flutningabíla, vinnuvélar, skip og flugvélar á umhverfisvænan hátt, enda er rafvæðing slíkra tækja ekki fýsileg í öllum tilvikum. Framleiðsla græns eldsneytis, svo sem vetnis eða annars rafeldsneytis í formi ammóníaks, metanóls eða metans, er dæmi um fleiri græn tækifæri sem bíða þess að vera sótt.

Vetnis- og rafeldsneytisframleiðsla krefst mikillar orku og eftirspurn eftir grænu vetni, sem framleitt hefur verið með rafgreiningu vatns og endurnýjanlegri orku, er talin munu fara vaxandi á komandi árum, samhliða markmiðum í loftslagsmálum. Samkvæmt orkustefnu Íslands ætlum við að vera laus við jarðefnaeldsneyti svo sem olíur og bensín sem helstu orkugjafa í samgöngum fyrir árið 2050.

Við erum enn komin stutt á veg í framleiðslu á grænu eldsneyti, en tækifærin eru til staðar.

Vinnsla græns eldsneytis hefur margvíslegan ávinning í för með sér: Samdráttur í innflutningi á bensíni og olíu þýðir minni losun gróðurhúsalofttegunda og gjaldeyrissparnað fyrir þjóðarbúið. Við gætum með tímanum orðið algjörlega orkusjálfstæð.

Við hjá Landsvirkjun höfum lokið við forskoðun ásamt hafnaryfirvöldum í Rotterdam á möguleikanum á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam. Niðurstöðurnar sýna að tæknin er til staðar, jafnframt því að verkefnið er fjárhagslega ábatavænt og yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun.

Þá höfum við skrifað undir samning um samstarf um skoðun á framleiðslu á grænu metanóli á Grundartanga með Carbon Recycling International, Elkem á Íslandi og Þróunarfélagi Grundartanga.

Í sterkri stöðu fyrir orkuskipti

Nýsköpunarstjóri