Raunhæft að senda grænt vetni til Rotterdam fyrir árið 2030

15.06.2021Orka

Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam (Port of Rotterdam Authority) hafa lokið við forskoðun varðandi möguleika á að flytja grænt vetni frá Íslandi til Rotterdam. Niðurstöðurnar sýna að tæknin er til staðar jafnframt því sem verkefnið er fjárhagslega ábatavænt og yrði mikilvægt framlag í baráttunni gegn loftslagshlýnun, þegar hagkerfi heimsins skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku á komandi áratugum.

Fyrirtækin hafa unnið saman að því að tilgreina helstu þætti virðiskeðjunnar, frá framleiðslu á endurnýjanlegri orku og vetnisframleiðslu á Íslandi til flutninga til Rotterdamhafnar. Samanburður var gerður á mismunandi tegundum flutningaskipa sem gætu mögulega flutt vetnið með tilliti til orkuþéttleika, kostnaðar, eftirspurnar og annarra þátta.

Forskoðunin sýnir að verkefnið getur hafist á síðari hluta þessa áratugar og yrði af stærðargráðunni 2 til 4 TWh (eða 200 til 500 MW). Þessi fyrstu skref geta dregið úr kolefnislosun sem nemur einni milljón tonna á ári, en þegar til lengri tíma er litið er möguleiki á að minnkunin geti hlaupið á milljónum tonna. Orkan sem notuð væri gæti verið blanda af endurnýjanlegri orku, þ.á.m. vatnsorka, jarðhiti og vindorka. Aðgengi að fjölbreytilegum endurnýjanlegum orkulindum á Íslandi er mikill kostur og veitir íslenska vetninu samkeppnisforskot í verði á evrópska vetnismarkaðinum. Vetnið yrði framleitt með rafgreiningu og síðan annað hvort breytt í vökva eða annað form og sent með vöruflutningaskipum til Rotterdam, þar sem því yrði umbreytt á ný og tekið til notkunar við höfnina eða sent á markaði á meginlandinu.

Framtíðarsýn Landsvirkjunar er að heimurinn verði sjálfbær, knúinn af endurnýjanlegri orku. Fyrirtækið hefur nú þegar mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að því að draga úr kolefnislosun og ætlar sér að gegna mikilvægu hlutverki í orkubyltingunni sem verður að raungerast á næstu árum og áratugum.

Rotterdamhöfn er stærsta umskipunar- og orkuhöfn Evrópu og eru hafnaryfirvöld með metnaðarfull áform í vetnismálum sem miða að því að höfnin verði aðalinnflutningshöfn fyrir vetni og mæti þannig breyttu landslagi í orkunotkun í Evrópu. Að beiðni hollenskra yfirvalda tilgreindu hafnaryfirvöld Rotterdamhafnar þau lönd og fyrirtæki sem hefðu möguleika á að flytja út grænt vetni sem mætt gæti framtíðareftirspurn í Evrópu og Ísland kom út sem einn af sterkustu aðilunum.

Landsvirkjun og Rotterdamhöfn munu áfram vinna náið saman að rannsóknum og þróun á þessu einstaka tækifæri. Búast er við ítarlegri útlistun á áætlunum á seinni hluta ársins 2022.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

„Niðurstöður forskoðunarinnar eru mjög uppörvandi. Við hjá Landsvirkjun erum staðráðin í að vísa áfram leiðina á sviði endurnýjanlegra orkugjafa. Það er leiðin til betri framtíðar fyrir okkur öll. Við höfum trú á samstarfi okkar við Rotterdamhöfn og hlökkum til að finna bestu leiðina til þess að koma okkar hreinu orku á erlenda markaði.“

Allard Castelein, forstjóri Rotterdamhafnar:

„Við erum mjög ánægð með niðurstöður forskoðunarinnar og því góða samstarfi sem náðst hefur milli fyrirtækjanna, sem er höfuðatriði þegar kemur að því að þróa aðfangakeðju sem þessa. Ísland hefur ávallt verið leiðandi í framleiðslu endurnýjanlegrar orku. Þessi nýja græna orka sem ætluð er á markaði í Evrópu og dreift verður í gegnum Rotterdam gæti hjálpað okkur hér í iðngarðinum við Rotterdamhöfn enn frekar við að minnka kolefnislosun, sem og viðskiptavinum okkar í Evrópu.“