Upprunaábyrgðir

Upprunaábyrgðir

Upprunaábyrgðakerfið gerir kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku. Kerfinu er ætlað að vera fjárhagslegur hvati fyrir orkufyrirtæki til endurnýjanlegrar orkuvinnslu með það að markmiði að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu og þar með hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.

Með því að kaupa upprunaábyrgðir geta raforkunotendur á Íslandi og í Evrópu, jafnt heimili sem fyrirtæki, fengið raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega samkvæmt alþjóðlegum staðli. Upprunaábyrgðir eru notaðar til að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfismerkja og getur slík vottun opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu.

Eina viðurkennda vottunin fyrir endurnýjanlega raforku

Aðgengi raforkunotenda í Evrópu að endurnýjanlegri orku er mjög mismunandi. Margir íbúar og fyrirtæki eru nálægt kolaorkuverum þar sem hvorki er vatnsafl né vindasamt eða sólríkt. Einnig getur verið að erfitt sé að reisa endurnýjanleg orkuver vegna bágborins raforkuflutningskerfis. Þetta gerir raforkukaupendum erfitt fyrir sem vilja styðja endurnýjanlega orkuvinnslu en hafa ekki tækifæri til þess í eigin nágrenni.

Af þessum ástæðum var upprunaábyrgðakerfið hannað þannig að allir raforkunotendur hafa kost á að styðja endurnýjanlega orkuvinnslu hvar sem er í Evrópu, óháð staðsetningu notanda og fá þannig raforkukaup sín vottuð sem endurnýjanleg.  Upprunaábyrgðir eru sjálfstæð söluvara, óháð afhendingu á raforkunni sjálfri. Myndin hér að neðan sýnir flæði raforku um flutningkerfi annars vegar og upprunaábyrgða um skráningarkerfi hins vegar.

Spurningar og svör

 • Upprunaábyrgð, stundum kölluð grænt skírteini, er staðfesting á því að tiltekið magn raforku hafi verið framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum, samanber skilgreiningu í 2. gr laga nr. 30/2008 um upprunaábyrgðir á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. Uppruni vísar hér til tegundar orkugjafans sem í þessu samhengi er af endurnýjanlegum uppruna.
 • Upprunaábyrgðakerfið gerir öllum kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við vinnslu á endurnýjanlegri orku. Kerfinu er ætlað að vera fjárhagslegur hvati fyrir orkufyrirtæki til endurnýjanlegrar orkuvinnslu með það að markmiði að auka framleiðslu endurnýjanlegrar orku í Evrópu og þar með hafa jákvæð áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda.
 • Með því að kaupa upprunaábyrgðir geta raforkunotendur á Íslandi og í Evrópu, jafnt heimili sem fyrirtæki, fengið raforkunotkun sína vottaða sem endurnýjanlega. Þessum raforkukaupendum er þá heimilt að vísa til þess í upplýsingagjöf til viðskiptavina sinna í tengslum við framleiðslu sína eða þjónustu. Upprunaábyrgðir eru notaðar til að uppfylla skilyrði fjölda alþjóðlegra umhverfisvottana og geta þær opnað markaðstækifæri fyrir fyrirtæki í alþjóðlegri markaðssetningu á vörum og þjónustu.
 • Tilgangur kerfis með upprunaábyrgðir er að stuðla enn frekar að nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og þar með að reyna sporna gegn loftlagsbreytingum í samræmi við alþjóðlega sáttmála.
 • Kerfið með upprunaábyrgðir felur í sér fjárhagslegan hvata til framleiðslu endurnýjanlegar orku, með því að gera öllum kaupendum raforku í Evrópu kleift að styðja við slíka orkuvinnslu. Með kaupum á upprunaábyrgðum fær kaupandinn alþjóðlega vottun á rafmagnið sem hann kaupir og fyrir þá vottun þarf að greiða eins og aðrar alþjóðlegar vottanir.
 • Kerfið með upprunaábyrgðir bætir framleiðendum endurnýjanlegrar orku upp erfiða samkeppnisstöðu á raforkumarkaði með því að gera endurnýjanlega upprunann að sérstakri tekjulind. Aðalatriðið er að með kerfinu er hraðað á uppbyggingu endurnýjanlegrar raforkuvinnslu sem dregur úr vægi jarðefnaeldsneytis á raforkumarkaði
 • Landsvirkjun fer eftir öllum þeim lögum og reglum sem gilda um viðskipti með upprunaábyrgðir og er ríkt eftirlit á markaðnum frá hinum ýmsu aðilum. Með innleiðingu kerfis um sölu upprunaábyrgða á Íslandi í lok árs 2011 varð landið aðili að viðskiptakerfi Evrópu með upprunaábyrgðir. Hlutverk aðila í viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir er skilgreint með skýrum hætti í lögum um upprunaábyrgð á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum o.fl. nr. 30/2008 og með reglugerð nr. 757/2012, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB.
 • Meginskylda ríkja samkvæmt 15. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um upprunaábyrgðir raforku 2009/28/EB er að tryggja að raforkuframleiðendum innan þeirra lögsögu standi til boða að fá útgefnar upprunaábyrgðir vegna eigin framleiðslu raforku af endurnýjanlegum uppruna. Í því skyni skulu ríkin tilnefna tiltekið stjórnvald eða stofnun til að fara með útgáfu upprunaábyrgða, auk þess sem komið skal á fót skráningarkerfi fyrir útgáfu, millifærslu og afskráningu upprunaábyrgða, sbr. 4.-5. mgr. 15. gr. tilskipunarinnar. Landsnet hf. hefur það hlutverk að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum á Íslandi og hefur eftirlit með því að fjöldi upprunaábyrgða sem gefinn er út komi heim og saman við magn orku sem framleitt hefur verið sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 3/2008. Upprunaábyrgðir sem gefnar eru út af Landsneti hf. skulu viðurkenndar á Evrópska efnahagssvæðinu sbr. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 30/2008 og 9. mgr. 15. gr tilskipunar 2009/28/EB. Orkustofnun hefur hlutverk að staðfesta að upprunaábyrgðir sem gefnar eru út fyrir raforkuvinnslu á Íslandi séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á Íslandi. Orkustofnun hefur eftirlitshlutverk með viðskiptakerfinu á Íslandi hvert ár, þ.e. samsetningu vottaðrar og óvottaðrar raforkunotkunar á Íslandi með tilliti til samsetningar á raforkuframleiðslu í Evrópu. Stofnunin birtir niðurstöður árlega á heimasíðu sinni.

Kerfið með upprunaábyrgðir byggir á samstarfi þjóða í Evrópu og er komið á fót til að berjast gegn loftlagsbreytingum. Baráttan við loftslagsbreytingar er óháð landamærum ríkja. Kerfið er liður í þeirra baráttu og hefur það markmið að styðja við endurnýjanlega raforku framleiðslu og auka vægi hennar alls staðar í Evrópu. Haldin er nákvæm skráning á magni endurnýjanlegrar orku í Evrópu og græni þátturinn gerður að sjálfstæðri söluvöru óháð afhendingu raforkunnar. Með þessu móti gefst öllum raforkukaupendum kostur á að styðja við græna raforkuframleiðslu óháð staðsetningu.

Upprunaábyrgir gera raforkukaupendum kleift að lýsa því yfir að þeir hafi stutt við græna raforkuframleiðslu og noti eingöngu vottaða endurnýjanlega raforku. Geri raforkukaupandi tilkall til græna þáttarins án upprunaábyrgða er um tvítalningu að ræða. Slík tvítalning er í andstöðu við markmið og ákvæði löggjafar ESB um upprunaábyrgðir. Það er því mikilvægt til að kerfið nái tilgangi sínum að enginn annar en handhafi upprunaábyrgða hafi heimild til að vísa til endurnýjanlega upprunans, sbr. 2. mgr. 15. gr. tilskipunar 2009/28/EB. Til að koma í veg fyrir tvítalningu endurnýjanlegs uppruna er seljendum upprunaábyrgða því skylt að breyta upplýsingum um raforkusölu sína þannig að þær endurspegli sölu á græna þættinum. Þeir raforkukaupendur sem ekki kaupa upprunaábyrgðir hafa ekki heimild til að vísa til endurnýjanlega upprunans og verða í staðinn að vísa til meðalsamsetningar orkugjafa í Evrópu í sinni upplýsingagjöf. Með þessu er verið að skapa hvata til að kaupa skírteinin þar sem upplýsingagjöf til viðskiptavina verður að byggja á grænu skírteinunum.

Kaupendur skírteina eru raforkukaupendur í Evrópu, fyrirtæki og einstaklingar. Fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar sem er umhugað um umhverfið kaupa upprunaábyrgðir til að sýna í verki stuðning sinn við endurnýjanlega orkuframleiðslu. Með þessu móti geta fyrirtæki sýnt fram á umhverfisvitund og samfélagslega ábyrgð og þar með bætt ímynd sína. Það færist í aukana að fyrirtæki setji sér það markmið að kaupa eingöngu vottaða græna raforku. Í þessu samhengi má helst nefna samtökin RE100, sem eru samtök áhrifamikilla alþjóðlegra fyrirtækja sem hafa skuldbundið sig til að nota eingöngu 100% endurnýjanlega raforku innan ákveðinna tímamarka. Eina leiðin til að flest þessara fyrirtækja nái sínu markmiði er að kaupa græn skírteini.

Skírteini Landsvirkjunar eru seld til raforkukaupenda í Evrópu og á Íslandi. Eftirspurn eftir upprunaábyrgðum frá Landsvirkjun hefur verið mest frá Þýskalandi, Ítalíu, Frakklandi og Norðurlöndunum.

 • Tekjur af sölu upprunaábyrgða fara í rekstur stærsta raforkuframleiðanda Íslands, Landsvirkjunar, sem vinnur eingöngu raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun rekur 18 aflstöðvar um allt land og hefur tekið í notkun þrjár nýjar stöðvar undanfarin ár ásamt því að viðhalda núverandi stöðvum og bæta nýtingu þeirra. Margar aflstöðvar Landsvirkjunar hafa unnið til alþjóðlegra verðlauna og fyrirtækið hefur einnig lagt mikið upp úr því að byggja aflstöðvarnar í sátt og samlyndi við umhverfið.
 • Eins og staðan er í dag er ekki hægt að rekja sérstaklega hvert tekjurnar af upprunaábyrgðum fara, en sem fyrr segir fara þær allar í rekstur Landsvirkjunar sem vinnur eingöngu raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Það er mikilvægt fyrir okkur sem þjóð að arður auðlindanna sé hvað mestur. Endurnýjanleg orka sem hér er unnin er orðin verðmætari á heimsvísu. Tekjur Landsvirkjunar af sölu upprunaábyrgða voru um 900 milljónir króna árið 2019.

 • Til að koma í veg fyrir tvítalningu endurnýjanlega upprunans er seljendum upprunaábyrgða skylt að breyta upplýsingum um raforkusölu sína þannig að þær endurspegli sölu á græna þættinum. Hingað til hafa stóriðjufyrirtæki á Íslandi ekki keypt upprunaábyrgðir og er þeim því óheimilt að vísa til endurnýjanlega upprunans. Þau verða því að draga samsvarandi magn endurnýjanlegrar orku frá heildaryfirliti um uppruna og úrgang framleiðslu sinnar, sbr. 8. mgr. 15. gr. tilskipunar 2009/28/EB. og taka í staðinn inn upplýsingar um meðalsamsetningu orkugjafa í Evrópu í upplýsingagjöf sinni.
 • Útreikningur á endanlegri raforkusölu eftir orkugjöfum felst í því að fyrir hverja upprunaábyrgð sem seld er úr landi ber að draga samsvarandi magn endurnýjanlegrar raforku frá heildartölu um orkusölu þess almanaksárs. Er því nú gengið út frá því að uppruni orkunnar sé í samræmi við upplýsingar sem Orkustofnun gefur út árlega í staðlaðri yfirlýsingu. Með þessu er verið að skapa hvata til að kaupa skírteinin þar sem upplýsingagjöf til viðskiptavina verður að byggja á upprunaábyrgðunum.

Tilskipun 2009/28/EB og raforkutilskipunin 2009/72/EB eru hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES samningsins). Íslenska ríkinu er skylt samkvæmt þessum tilskipunum EES-samnings að gefa raforkusölum hérlendis kost á að fá útgefnar upprunaábyrgðir og taka þátt í viðskiptum með þær. Þátttaka orkufyrirtækja og orkunotenda í kerfi með upprunaábyrgðir er þó valfrjáls. Neytandinn gerir í auknum mæli kröfur á fyrirtæki um að sýna ábyrgð í umhverfismálum. Þátttaka í kerfinu tryggir íslenskum raforkukaupendum aðgang að markaði með græna vöru og þjónustu. Kerfið gerir einnig íslenska raforkuvinnslu samkeppnishæfari með því að gera græna orku hagkvæmari.

Af tilgangi reglna um upprunaábyrgðir að dæma er orkunotendum sem ekki kaupa upprunavottaða orku óheimilt að markaðssetja vörur sínar og þjónustu með tilvísun til endurnýjanleika orkunnar. Að auki telst slík markaðssetning villandi viðskiptahættir í skilningi laga nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.

 • Verð upprunaábyrgða er mismunandi hátt og verðlagningin fer eftir framboði, eftirspurn og öðrum þáttum eins og aldri aflstöðvarinnar, tegund raforkuvinnslunnar og svo framvegis. Verð íslenskra upprunaábyrgða endurspeglar mat markaðarins á raunvirði grænnar orku frá Íslandi hverju sinni.
 • Ísland er lítill hluti af stórum markaði sem er sífellt að stækka og því minnkar hlutur Ísland með hverju árinu. Árið 2018 voru í kringum 600 TWst af upprunaábyrgðum gefnar út og seldar í Evrópu. Heildarsala íslenskra raforkufyrirtækja á upprunaábyrgðum er er um 14 TWst á ári. Samkvæmt ársskýrslu Association of Issuing Bodies (AIB) árið 2018 var því hlutur Íslands á markaðnum 3%. Þátttaka íslenskra raforkuframleiðanda hefur því takmörkuð áhrif á framboð á þessum markaði.
 • https://www.aib-net.org/sites/default/files/assets/news-events/annual-reports/AIB%20Annual%20Report%202018_web20191021.pdf

Upprunaábyrgðir tengjast ekki upplýsingagjöf íslenska ríkisins samkvæmt þjóðréttarlegum skuldbindingum og hafa engin áhrif á þær skuldbindingar, s.s. losunarbókhald skv. loftlagssamningum og Kýótó-bókuninni eða bókhald um hlutfall endurnýjanlegrar orku af heildarorkunotkun skv. tilskipun 2009/28/EB sbr. EES-samninginn. Íslenska ríkinu ber því að byggja á upplýsingum um raunframleiðslu íslenskrar orku við upplýsingagjöf til alþjóðlegra stofnana og í yfirlýsingum sínum

Upprunaábyrgðir snúast um loftlagsmál. Kerfi með upprunaábyrgðir snýr eingöngu að raforkukaupandanum og upplýsingagjöf hans. Kerfið breytir engu um raforkuframleiðsluna. Á Íslandi er eingöngu unnin raforku úr endurnýjanlegum orkugjöfum og þátttaka í þessu kerfi breytir engu þar um. Ísland er áfram land endurnýjanlegrar orku. Það er þessi staðreynd sem gerir það að verkum að íslensk raforkufyrirtæki geta á annað borð fengið greitt sérstaklega fyrir græna þáttinn. Markmið upprunaábyrgða er jákvætt, þ.e. að stuðla að aukinni hlutdeild endurnýjanlegrar orku í Evrópu og því er þátttaka íslenskra orkufyrirtækja í kerfinu þátttaka í sameiginlegri aðgerð EES-ríkja til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa. Frá árinu 2017 hefur öll sala á orku frá Landsvirkjun til heildsöluviðskiptavina, sem selja áfram til heimila og fyrirtækja, verið vottuð með upprunaábyrgðum. Þetta þýðir að smærri raforkunotendur á Íslandi, þar með talin fyrirtæki í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu, geta sagst nota vottaða græna raforku í allri sinni upplýsingagjöf. Í þessu felast mikil verðmæti fyrir íslensk fyrirtæki og veitir þetta þeim aðgang að alþjóðlegum markaði með græna vöru og þjónustu. Allir almennir notendur, heimili og fyrirtæki geta nálgast þessa vottun hjá sínum raforkusala án endurgjalds.

Upprunaábyrgðir eru ekki innifaldar í gildandi langtímasamningum við stórnotendur nema um það hafi verið samið sérstaklega. Sumir samningar eiga því einungis við um sölu á raforkunni sjálfri en ekki græna upprunanum. Upprunaábyrgðir eru ekki sjálfkrafa innifaldar í orkukaupum og því þarf að semja sérstaklega um það.

Loftslagsvitund neytenda í Evrópu hefur aukist hröðum skrefum síðustu ár og það sama má segja um eftirspurn eftir vörum og þjónustu sem byggist á notkun endurnýjanlegrar orku. Frá árinu 2016 hafa allir samningar við sölufyrirtæki rafmagns á Íslandi verið vottaðir með upprunaábyrgðum. Það er sérstaklega mikilvægt fyrir fyrirtæki í landinu að nýta sér þetta í sínu markaðsstarfi. Vottunina er hægt að nálgast hjá viðkomandi raforkusala.

 • Geri raforkukaupandi tilkall til græna þáttarins án upprunaábyrgða er um tvítalningu að ræða. Slík tvítalning er í andstöðu við markmið og ákvæði löggjafar ESB um upprunaábyrgðir.
 • Öllum fyrirtækjum á Íslandi sem stunda mengandi atvinnurekstur ber samt skylda samkvæmt íslenskum lögum að veita yfirvöldum upplýsingar um áhrif starfsemi sinnar á umhverfið. Þar má til dæmis nefna grænt bókhald skv. reglugerð nr. 851/2002 um grænt bókhald, skýrslugjöf rekstraraðila og flugrekenda sem heyra undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir skv. reglugerð nr. 27/2013 um vöktun og skýrslugjöf í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og útstreymisbókhald skv. reglugerð nr. 990/2008 um útstreymisbókhald. Við innleiðingu reglna um upprunaábyrgðir og birtingu upplýsinga um uppruna raforku voru hvorki gerðar breytingar á ofangreindum reglugerðum né vísað í þær. Þar sem um er að ræða lögbundna upplýsingagjöf til stjórnvalda en ekki upplýsingagjöf sem veitt er viðskiptavinum í tenglum við sölu á vörum og þjónustu. Það hefur þó borið á að fyrirtæki nefni í grænu bókhaldi að notuð sé orka af endurnýjanlegum uppruna og tilgreini sérstaklega að umhverfisáhrif vegna framleiðslu orkunnar séu minni en ef orka úr jarðefnaeldsneyti væri nýtt til rekstrar sem að fyrirtækin eiga ekki tilkall til nema með því að framvísa upprunaábyrgðum. Þátttaka á markaðnum með upprunaábyrgðir er valfrjáls og markmiðið er að markaðsöflin og þar með neytendur þrýsti á fyrirtækin til að breyta rétt. Það eru engin viðurlög við því að brjóta gegn þessum reglum en fyrirtækin hætta á neikvæða umfjöllun í sinn garð og geta mögulega tapað viðskiptatækifærum.

Landsvirkjun getur áfram veitt almennar upplýsingar um vinnsluaðferðir raforkuframleiðslunnar við markaðssetningu sína, þar sem öll raforkan sem er framleidd kemur úr vatnsafli, vindi og jarðvarma. Yfirlýsing er varðar sölu raforkunnar þarf að taka mið af því hvort hún sé upprunavottuð eða ekki. Allir kaupendur raforku úr framleiðslu Landsvirkjunar geta fengið raforkukaup sín vottuð með upprunaábyrgðum gegn gjaldi.

Íbúar Evrópu hafa misgóðan aðgang að endurnýjanlegri orku í nágrenni sínu. Kerfið býður þeim að taka þátt í uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu óháð staðsetningu raforkunotandans. Kerfinu er ætlað að gera öllum kleift að taka þátt í þessari nauðsynlegu uppbyggingu sem alþjóðasamfélagið vill að eigi sér stað, þar með talið á Íslandi. Þeim sem vilja taka ábyrgð í umhverfismálum gefst kostur á að taka þátt óháð staðsetningu. Með þessu móti er skapað sem hæst markaðsvirði fyrir græna þáttinn. Valið er sett í hendur neytenda og kröfur neytenda eru í auknum mæli að færast yfir í það að kaupa vörur sem hafa verið framleiddar með sjálfbærum hætti. Með upprunaábyrgð er verið að gera öllum í Evrópu kleift að sitja við sama borð hvað varðar stuðning við endurnýjanlega raforku.

Uppruni raforkunnar felur í sér óáþreifanleg verðmæti sem geta gengið kaupum og sölu óháð raforkunni sjálfri. Því er verið að aðskilja græna þátt raforkunnar frá notkun raforkunnar, með það að markmiði að gera græna raforkuvinnslu verðmætari og samkeppnishæfari við mengandi kosti, óháð staðsetningu. Endurnýjanleg orkufyrirtæki fá því aukinn fjárhagslegan hvata til framleiðslu á endurnýjanlegri orku.

Hafðu samband við okkur

Ef þú finnur ekki svar við þeim spurningum sem á þér brenna þá getur þú sent okkur póst á upprunabyrgdir@landsvirkjun.is 

Alþjóðlegar umhverfisvottanir

Á mörkuðum erlendis sem hérlendis eru fyrirtæki í auknum mæli að setja sér og móta umhverfisstefnu. Þannig aukast stöðugt kröfur framleiðenda af ýmsu tagi um að aðilar sem þeir eru í viðskiptum við styðji við umhverfismál á borð við endurnýjanlega orkuvinnslu og noti til þess alþjóðlega viðurkennda staðla. Færst hefur í vöxt að upprunaábyrgðir séu notaðar sem staðfesting á stuðningi við endurnýjanlega orkugjafa.Evrópusambandið styðst í auknum mæli við upprunaábyrgðir sem hæfniskröfu fyrir þátttöku í opinberum útboðsferlum innan sambandsins og geta fyrirtæki á Íslandi uppfyllt slíkar hæfniskröfur þar sem Ísland tekur þátt í upprunaábyrgðarkerfinu.

Umhverfismerki geta veitt fyrirtækjum sem kaupa upprunaábyrgðir aðgang að nýjum mörkuðum og aukið verðmæti söluvara því margir neytendur eru tilbúnir að greiða hærra verð fyrir vörur sem bera alþjóðlega viðurkennd og virk umhverfismerki.

Fyrir nánari upplýsingar er hægt að senda fyrirspurn

Kerfið á Íslandi

Með innleiðingu upprunaábyrgða á Íslandi 2011 varð landið aðili að viðskiptakerfi Evrópu með upprunaábyrgðir og opnaði það raforkunotendum á Íslandi möguleika að fá raforkukaup sín vottuð samkvæmt alþjóðlegum staðli og þar með einnig stuðning sinn við endurnýjanlega raforkuvinnslu. Þessi innleiðing hafði þær afleiðingar í för með sér að raforkunotkun á Íslandi sem ekki er vottuð með upprunaábyrgðum tekur tillit til reiknaðrar heildarsamsetningar raforkuvinnslu í Evrópu. Þess vegna geta verið á rafmagnsreikningum sumra raforkunotenda á Íslandi orkugjafar sem ekki eru tengdir inn á raforkukerfi Íslands.

Hlutverk aðila í viðskiptakerfi með upprunaábyrgðir er skilgreint með skýrum hætti í raforkulögum nr. 30/2008 og með reglugerð nr. 757/2012, í samræmi við tilskipun Evrópusambandsins 2009/28/EB. 

Landsnet hefur það hlutverk að annast útgáfu upprunaábyrgða á raforku sem framleidd er með endurnýjanlegum orkugjöfum og hefur eftirlit með því að fjöldi upprunaábyrgða sem gefinn er út komi heim og saman við magn orku sem unnið hefur verið.

Orkustofnun staðfestir að upprunaábyrgðir sem gefnar eru út fyrir vinnslu á Íslandi séu í samræmi við ákvæði laga og reglugerða á Íslandi. Orkustofnun hefur eftirlitshlutverk með viðskiptakerfinu á Íslandi og ber ábyrgð á því að reikna almenna yfirlýsingu fyrir Ísland hvert ár, þ.e. samsetningu vottaðrar og óvottaðrar raforkunotkunar á Íslandi með tilliti til samsetningu á raforkuvinnslu í Evrópu. Stofnunin birtir niðurstöðurnar fyrir hvert ár á heimasíðu sinni.

Orkusalar selja upprunaábyrgðir og hafa upplýsingaskyldu gagnvart viðskiptavinum sínum hvað vottun raforkusölu varðar. Raforkusölum sem ekki hafa látið upprunaábyrgðir fylgja með raforku til viðskiptavina sinna er skylt að birta viðskiptavinum almenna yfirlýsingu Orkustofnunar sem staðfestir reiknaða samsetningu raforkusölu á Íslandi. Hins vegar skulu raforkusalar sem sjálfir nota upprunaábyrgðir fyrir raforkunotkun viðskiptavina sinna upplýsa um uppruna í sértækum yfirlýsingum til viðskiptavina sinna. Raforkunotendur sem sjálfir nota upprunaábyrgðir fá hvorki almenna né sértæka yfirlýsingu senda og fá í staðinn staðfestingu á endurnýjanlegri raforkusölu á raforkureikningi sínum.