Mannauðs- og jafnréttisstefna

Við höfum sett okkur metnaðarfulla stefnu í mannauðs- og jafnréttismálum. Þar leitumst við meðal annars við að jafna kynjahlutföll innan hinna ýmsu starfa fyrirtækisins.

Jöfn tækifæri

Mannauðs- og jafnréttisstefna á PDF

Stefna okkar er að gæta fyllsta jafnréttis og að starfsfólk njóti jafnra tækifæra. Við trúum því að í fjölbreytileikanum liggi aukin tækifæri.

Gætt er að jafnrétti hvað varðar ábyrgð og þátttöku starfsfólks í starfshópum, stjórnum og nefndum.

Greidd eru jöfn laun fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.

Mannauðs- og jafnréttisstefna

  • Við ráðum hæft og framsækið starfsfólk

    Við leggjum áherslu á að í hópi starfsfólks fyrirtækisins séu ávallt hæfir og vel menntaðir einstaklingar sem eru tilbúnir að finna nýjar leiðir að settu marki. Við ráðningu starfsfólks er tekið mið af hæfni, menntun og reynslu umsækjenda og horft er til ríkjandi kynjahlutfalls með það að markmiði að jafna hlut kynjanna og styrkja mannauð fyrirtækisins. Á hverju ári ráðum við til okkar hæfileikaríkt ungt fólk til sumarstarfa.

  • Við leggjum áherslu á jafnrétti og tryggjum jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf

    Við tryggjum starfsfólki af öllum kynjum jöfn tækifæri og kjör. Við úrlausnir viðfangsefna leggjum við áherslu á að fram komi sjónarhorn ólíkra hópa. Starfrækt er jafnréttisnefnd innan fyrirtækisins, virk aðgerðaráætlun jafnréttismála og vottað jafnlaunakerfi er til staðar.

  • Við sköpum sveigjanlegt og jákvætt starfsumhverfi

    Við stuðlum að sveigjanleika í starfi og hvetjum starfsfólk til að gæta jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Lögð er áhersla á að samskipti séu opin og heiðarleg þar sem starfsfólk leggur hvort öðru lið við dagleg störf og stuðlar með því að góðum starfsanda. Áhersla er á heilbrigði og hollt líferni og stendur starfsfólki til boða reglulegt heilsufarseftirlit og stuðningur er við eflingu andlegrar og líkamlegrar heilsu. Einelti, fordómar, kynferðisleg og kynbundin áreitni líðst ekki innan fyrirtækisins.

  • Við öflum okkur þekkingar og þróumst í starfi

    Við leggjum áherslu á að þróa stöðugt hæfni og hæfileika starfsfólks og hvetjum það til að leita sífellt leiða til að þróa sig í starfi. Því til stuðnings bjóðum við upp á markvissa fræðslu og þjálfun, sem tryggir þá þekkingu og færni sem nauðsynleg er til að ná árangri í starfi. Leitast er við að skapa vinnuaðstöðu sem stuðlar að góðu upplýsingaflæði og þekkingaryfirfærslu.

  • Við viljum framsækna stjórnun

    Við leggjum áherslu á að hjá fyrirtækinu starfi fjölbreyttur og öflugur hópur stjórnenda og er lögð rík áhersla á að stjórnendur hafi skýra framtíðarsýn fyrir starfsemina í takt við stefnu og markmið fyrirtækisins. Reglubundin samtöl eru á milli stjórnenda og starfsfólks þar sem rætt er um frammistöðu, væntingar og þróun í starfi.

  • Við tökum vel á móti nýju fólki og kveðjum starfsfólk með virðingu

    Nýtt starfsfólk fær markvissa starfsþjálfun frá fyrsta degi. Vandað ferli við móttöku þess byggir á samstarfi stjórnenda, starfsmannasviðs og starfsfóstra sem fá sérstaka þjálfun sem slíkir. Við leitumst við að hagsmunir starfsfólks og Landsvirkjunar fari saman við starfslok.