Sjálfbær heimur

Sjálfbærni er samofin tilgangi okkar, stefnu og daglegum störfum þvert á starfsemi Landsvirkjunar. Við stuðlum að sjálfbærum heimi með umhverfislega sjálfbærri orkuvinnslu.

Stuðlum að sjálfbærum heimi

Umhverfisstarf okkar snýst um að þekkja og draga úr neikvæðum áhrifum okkar á náttúru og samfélag. Það snýst ekki síður um að leggja okkar af mörkum til hnattrænna umhverfismála og framlags til samfélagsins, að stuðla að betra samfélagi í dag sem og fyrir komandi kynslóðir.

Hér fjöllum við um þá heildstæðu nálgun sem liggur til grundvallar umhverfis- og loftslagsstefnu okkar og hjálpar okkur að setja metnaðarfull markmið sem styðja við bættan árangur og ávinning starfseminnar.

1,5°C

Loftslag er eitt af þeim kerfum sem eru komin yfir þolmörk jarðar og enginn fer varhluta af áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og náttúru um allan heim.

Ísland er aðili að Parísarsamningnum, loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um að ríki heims haldi hlýnun jarðar innan við 2°C frá iðnbyltingu og að leitast skuli við að takmarka hana við 1,5°C.

Samfélagslosun

Samfélagslosun er sú losun sem er á beinni ábyrgð stjórnvalda og íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að minnka í samningum við aðrar þjóðir. Losun almennings og flestra fyrirtækja annarra en stóriðju, flugs og millilandasiglinga falla undir samfélagslosun.

Þetta er t.d. öll losun frá vegasamgöngum, fiskiskipum, jarðvarmastöðvum og losun vegna landbúnaðar og úrgangs.

Líffræðileg fjölbreytni

Við getum ekki lifað í og af náttúrunni án líffræðilegrar fjölbreytni og heilbrigðra vistkerfa og því er mikilvægt að standa vörð um og sporna gegn hnignun hennar samhliða nýtingu náttúruauðlinda.

Tap á líffræðilegri fjölbreytni er ein mest aðkallandi áskorun samtímans og hún er samofin brýnum viðfangsefnum á borð við loftslagsbreytingar og hnignun landgæða.