Líffræðileg fjölbreytni

Hvað er líffræðileg fjölbreytni?

Hugtakið líffræðileg fjölbreytni vísar til fjölbreytileika alls lífs á jörðinni, hvort heldur innan tegunda (erfðafræðilegur breytileiki), milli þeirra (tegundabreytileiki) eða milli vistkerfa. Þannig er líffræðileg fjölbreytni ekki eingöngu fjöldi tegunda, heldur líka breytileiki innan tegundarinnar, tegundasamsetning innan vistkerfa og samsetning vistkerfa í landslagsheildum.

Líffræðileg fjölbreytni er nauðsynleg til að viðhalda heilbrigði vistkerfa og virkni þeirra og er þar með undirstaða margvíslegrar vistkerfaþjónustu sem mannkynið reiðir sig á.

Þessi þjónusta náttúrunnar er í raun forsenda lífsgæða okkar og veitir okkur aðgang að fæðu, vatni, hreinu lofti, eldsneyti og byggingarefni. Þjónustan getur líka falist í frævun nytjaplantna, flóðavörnum og náttúruupplifun.

Hnignun líffræðilegs fjölbreytileika

Við getum ekki lifað í og af náttúrunni án líffræðilegrar fjölbreytni og heilbrigðra vistkerfa og því er mikilvægt að standa vörð um og sporna gegn hnignun hennar samhliða nýtingu náttúruauðlinda.

Tap á líffræðilegri fjölbreytni er ein mest aðkallandi áskorun samtímans og hún er samofin brýnum viðfangsefnum á borð við loftslagsbreytingar og hnignun landgæða.

Talið er að 75% af landsvæðum jarðar séu verulega breytt vegna umsvifa mannkyns. Einnig er talað um 70% fækkun villtra hryggdýra á síðustu fimm áratugum og að um þriðjungur allra skordýra geti verið í útrýmingarhættu.

Helstu ógnir líffræðilegrar fjölbreytni í heiminum eru:

  • búsvæðaeyðing (t.d. framræsla á votlendi og skógarhögg)
  • mengun (t.d. eiturefni, næringarefni og plast)
  • loftslagsbreytingar
  • útbreiðsla framandi tegunda og sjúkdóma
  • ofnýting náttúruauðlinda

Hnignun hennar á heimsvísu er eitt af stærstu vandamálum samtímans og getur leitt til þess að vistkerfi nái ekki að viðhalda virkni sinni. Mikilvægt er að sporna við þessum breytingum og viðhalda fjölbreytninni þar sem mannkynið er háð vistkerfunum og þjónustu þeirra í sínu daglega lífi en fjölbreytni lífríkisins er forsenda heilbrigðra vistkerfa.

Samningur Sameinuðu þjóðanna

Þjóðir heims hafa sameinast um að varðveita líffræðilega fjölbreytni jarðar en 196 ríki hafa gerst aðilar að samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem var samþykktur árið 1992 í Rio de Janeiro. Ísland er aðili að samningnum og með honum hafa stjórnvöld undirgengist að vernda líffræðilega fjölbreytni, stuðla að sjálfbærri nýtingu og tryggja ráðstöfunarrétt ríkja yfir erfðaefni sínu og skiptingu hagnaðar af nýtingu þess. Meðal annars er lögð áhersla á að vakta lífríkið og endurbyggja röskuð vistkerfi.

Árið 2022 samþykktu aðildarríkin stefnu í þágu líffræðilegrar fjölbreytni til ársins 2050, svokallað Kunming-Montreal samkomulag (Global Biodiversity Framework). Meginsýn stefnunnar er heimur þar sem við mannfólkið lifum í sátt við náttúruna.

Í samkomulaginu eru sett fram 23 markmið sem á að vera búið að ná árið 2030 og felast m.a. í að vernda svæði sem teljast viðkvæm eða mikilvæg fyrir líffræðilega fjölbreytni, endurheimta röskuð vistkerfi, hefta landnám ágengra tegunda og nýta auðlindir á sjálfbæran hátt. Markmiðin falla undir fjögur yfirmarkmið þar sem áhersla er lögð á:

  1. Heilleika og starfsemi allra vistkerfa.
  2. Að líffræðileg fjölbreytni sé nýtt með sjálfbærum hætti.
  3. Að ávinningi af nýtingu erfðaauðlinda sé skipt jafnt.
  4. Að fullnægjandi úrræði til framkvæmda séu til staðar.

Fjölbreytni er mikilvæg á Íslandi sem og annars staðar

Erfitt getur reynst að meta líffræðilega fjölbreytni út frá öllum þáttunum sem vísað er til og því oft litið til fjölda tegunda þegar meta á stöðuna á ákveðnu svæði. Slík nálgun gefur vísbendingar um fjölbreytni á svæðinu en getur þó verið vandkvæðum bundin, þar sem hætt er við því að svæði með fáum tegundum njóti minni verndunar en svæði sem eru rík af tegundum.

Vistkerfi Íslands eru fremur fátæk af tegundum, sem skýrist m.a. af legu landsins og þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að landið var hulið jöklum. Aðstæður sem þessar geta leitt til þess að fjölbreytni innan tegunda sé mikil. Vægi slíkra vistkerfa er þó ekki síður mikið, þar sem þau hafa aðlagast aðstæðum sem standa undir virkni vistkerfa og þjónustu þeirra.

Áherslur Landsvirkjunar

Í loftslags- og umhverfisstefnu Landsvirkjunar kemur fram að fyrirtækið standi vörð um líffræðilega fjölbreytni með vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Til að framfylgja þessari stefnu eru við undirbúning framkvæmda greind möguleg áhrif þeirra á umhverfi og hugað að því hvernig hægt sé að draga úr þeim. Markvisst er unnið að rannsóknum á líffræðilegri fjölbreytni á áhrifasvæðum fyrirtækisins, hvort heldur á landi eða í vatni, með það markmið að þekkja hver áhrif fyrirtækisins á lífríkið eru og að lágmarka þau. Unnið er samkvæmt áherslum íslenskra stjórnvalda og alþjóðlegra viðmiða.

Í umhverfisstarfi Landsvirkjunar er m.a. horft til eftirfarandi markmiða Kunming-Montreal samkomulagsins:

  • Skipulag og stýringar taki mið af líffræðilegri fjölbreytni
  • Líffræðileg fjölbreytni sé hluti af ákvarðanatöku
  • Fyrirtæki vakti og upplýsi um áhrif á náttúru
  • Vistkerfi séu endurheimt
  • Dregið sé úr dreifingu framandi tegunda
  • Dregið sé úr áhættu vegna mengunar
  • Áhrif loftslagsbreytinga séu lágmörkuð
  • Virkni og þjónusta vistkerfa séu tryggð
  • Neysla sé sjálfbær og sóun minni
  • Unnið sé að því að efla þekkingu