Þolmörk jarðar

Hvað eru þolmörk jarðar?

Þolmörkum jarðar (e. planetary boundaries) má í raun líkja við lífsmörk manneskju, þar sem búið er að skilgreina hvað telst vera eðlilegt og heilbrigt ástand. Sama á við um jörðina, hún hefur ákveðin líffræðileg þolmörk sem skiptast upp í níu samverkandi kerfi sem gera jörðina okkar byggilega. Síðastliðin tíu þúsund ár hafa þessi lykilkerfi, svo sem loftslag og vistkerfi, viðhaldið veðurfræðilegu og vistfræðilegu jafnvægi á jörðinni.

Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að með ágangi og athöfnum hefur mannkynið farið yfir sex af níu þolmörkum jarðar. Aðeins lykilkerfin ósoneyðing, súrnun sjávar og loftmengun teljast enn innan þolmarka. Sir David Attenborough hefur talað um þolmörk jarðar sem „mögulega mikilvægustu vísindalegu uppgötvun okkar tíma“.

ATH ÞETTA ER PLACEHOLDER Níu þolmörk jarðar. Við höfum farið yfir sex. Heimild: Azote fyrir Stockholm Resilience Centre, byggt á greiningu í Richardson et al 2023. Sævar Helgi Bragason íslenskaði.
ATH ÞETTA ER PLACEHOLDER Níu þolmörk jarðar. Við höfum farið yfir sex. Heimild: Azote fyrir Stockholm Resilience Centre, byggt á greiningu í Richardson et al 2023. Sævar Helgi Bragason íslenskaði.

Ljóst þykir að afleiðingar þess að vera komin út fyrir öruggt athafnasvæði mannkyns, t.d. hvað varðar styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, hefur keðjuverkandi og í mörgum tilfellum óafturkræfar afleiðingar. Það ógnar fæðuöryggi, leiðir til aukinna öfga í veðurfari og veldur hnignun náttúrulegra kolefnisgeymsla eins og skóga og votlendis.

Takmörkum hlýnun við 1,5°C

Loftslag er eitt af þeim kerfum sem eru komin yfir þolmörk jarðar og enginn fer varhluta af áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og náttúru um allan heim.

Ísland er aðili að Parísarsamningnum, loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, sem kveður á um að ríki heims haldi hlýnun jarðar innan við 2°C frá iðnbyltingu og að leitast skuli við að takmarka hana við 1,5°C.

Þessi markmið byggja á vísindalegum niðurstöðum og taka mið af þeim alvarlegu afleiðingum sem minnsta hlýnun, hver auka komma, getur haft á lífsgæði mannkyns og vistkerfi jarðar.

Hlýnun umfram 1,5°C eykur hættuna á frekara tjóni og óafturkræfum breytingum eins og bráðnun jökla, súrnun sjávar, tapi á líffræðilegum fjölbreytileika og hnignun vistkerfa. Alþjóðasamfélagið hefur sammælst um að þessi mörk séu lykilmælikvarði í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og að atvinnulíf, samfélög og stjórnvöld þurfi að grípa tafarlaust til markvissra aðgerða til að takmarka hlýnun.

Verðum að hætta að nota jarðefnaeldsneyti

Bruni jarðefnaeldsneytis veldur nú um 75% af allri losun gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum. Ein af áskorunum samtímans er því að aftengja hagkerfin jarðefnaeldsneyti.

Samkvæmt milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, IPCC, þurfa þjóðir heims að draga úr losun um 43% fyrir árið 2030 (miðað við 2019) svo mögulegt reynist að takmarka hlýnun við 1,5°C og koma þannig í veg fyrir verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Með vaxandi orkuþörf í heiminum leikur aukin umhverfislega sjálfbær orkuvinnsla úr endurnýjanlegum auðlindum á borð við raforkuframleiðslu lykilhlutverk. Í þeim efnum er þó mikilvægt að vanda vel til verka og huga að áhrifum á náttúru, samhliða ávinningi til samfélagsins.

Sterk og fjölbreytt vistkerfi og náttúruleg kolefnisbinding er nauðsynleg

Samkvæmt IPCC hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum nú þegar leitt til þess að náttúruváratburðum hefur fjölgað og þannig hafa þær valdið umtalsverðu tjóni og óafturkræfu tapi á lífríki. Þá hafa þær bitnað á samsetningu vistkerfa, virkni þeirra, seiglu og aðlögunarhæfni innan þeirra.

Fari hlýnun jarðar nær eða fram úr 1,5°C mun loftslagstengdum náttúruváratburðum fjölga, með tilheyrandi áhættu fyrir náttúru og mannkyn. Til að stuðla að viðnámsþrótti samfélags og náttúru er því ekki nóg að draga úr losun – einnig þarf að grípa til aðlögunaraðgerða og standa vörð um vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni.