Hvað eru þolmörk jarðar?
Þolmörkum jarðar (e. planetary boundaries) má í raun líkja við lífsmörk manneskju, þar sem búið er að skilgreina hvað telst vera eðlilegt og heilbrigt ástand. Sama á við um jörðina, hún hefur ákveðin líffræðileg þolmörk sem skiptast upp í níu samverkandi kerfi sem gera jörðina okkar byggilega. Síðastliðin tíu þúsund ár hafa þessi lykilkerfi, svo sem loftslag og vistkerfi, viðhaldið veðurfræðilegu og vistfræðilegu jafnvægi á jörðinni.
Nú stöndum við hins vegar frammi fyrir því að með ágangi og athöfnum hefur mannkynið farið yfir sex af níu þolmörkum jarðar. Aðeins lykilkerfin ósoneyðing, súrnun sjávar og loftmengun teljast enn innan þolmarka. Sir David Attenborough hefur talað um þolmörk jarðar sem „mögulega mikilvægustu vísindalegu uppgötvun okkar tíma“.

Ljóst þykir að afleiðingar þess að vera komin út fyrir öruggt athafnasvæði mannkyns, t.d. hvað varðar styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu, hefur keðjuverkandi og í mörgum tilfellum óafturkræfar afleiðingar. Það ógnar fæðuöryggi, leiðir til aukinna öfga í veðurfari og veldur hnignun náttúrulegra kolefnisgeymsla eins og skóga og votlendis.