Við vinnum að því auka raforkuvinnslu sem samræmist markmiði heims um að halda hlýnun innan við 1,5°C og auka þannig framlag okkar til loftslagsmála. Auk þess vinnum við markvisst að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá okkar starfsemi.
Stærsti losunarþáttur í okkar starfsemi er losun frá jarðvarmastöðvum. Við höfum sett okkur markmið um að losun jarðvarmastöðva á orkueiningu verði 80% lægri árið 2030 en árið 2008. Árið 2050 verður losun frá jarðvarmastöðvum að mestu horfin.
Við vitum að orkuskipti leika lykilhlutverk í baráttunni gegn hlýnun jarðar og því ætlum við að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti á bifreiðar, vararaflstöðvar og önnur tæki árið 2030. Við höfum unnið hörðum höndum að rafvæðingu bílaflota okkar og höfum sett upp hraðhleðslustöðvar á öllum orkuvinnslusvæðum. Í þeim tilfellum sem rafvæðing er ekki kostur höfum við notað vetnismeðhöndlaða lífolíu en losun vegna hennar er mun minni en vegna hefðbundinnar dísilolíu.
Bygging nýrra virkjana hefur óhjákvæmilega í för með sér aukna losun gróðurhúsalofttegunda á meðan framkvæmdum stendur. Vistferilsgreiningar okkar hafa sýnt að sú losun er að mestu leyti vegna notkunar jarðefnaeldsneytis á framkvæmdatíma og vegna framleiðslu stáls og steypu sem notuð er í mannvirki. Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um samdrátt í losun vegna þessara þriggja þátta. Við grípum til aðgerða bæði á hönnunar- og framkvæmdastigi verkefna og notum innra kolefnisverð sem fjárhagslegan hvata til verktaka okkar að draga úr losun.