Glötum ekki góðum árangri

21.04.2023Orkuskipti

Grein eftir Hauk Ásberg Hilmarsson, sérfræðing á sviði Sölu og þjónustu hjá Landsvirkjun, um mikilvægi þess að ljúka orkuskiptum hjá fiskmjölsverksmiðjum.

Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur á sviði Sölu og þjónustu
Haukur Ásberg Hilmarsson, sérfræðingur á sviði Sölu og þjónustu

Mikilvægt að auka raforkuvinnslu

Allt bendir til þess að sett verði met í innflutningi olíu til Íslands árið 2023 með tilheyrandi aukningu í losun. Staðan undanfarna mánuði hefur neytt fiskmjölsverksmiðjur til þess að stíga skref aftur á bak í orkuskiptum og skipta út raforku fyrir olíu.

Mikilvægt er að auka raforkuvinnslu svo þess gerist ekki aftur þörf og árangur undanfarinna áratuga tapist ekki. Fiskmjölsverksmiðjur og Landsvirkjun hafa skrifað mikilvægan hluta af orkuskiptasögu Íslands og því starfi þarf að halda áfram.

Fyrsti rafskautaketillinn var tekinn í notkun árið 1990. Á tíunda áratug síðustu aldar fóru margar verksmiðjur af stað í rafvæðingu og nýttu græna raforku í stað innfluttrar olíu í auknum mæli. Flestar verksmiðjur geta nú nýtt raforku í starfsemi sinni en nokkrar búa enn við að geta einungis notað olíu, fyrst og fremst vegna takmarkana í flutningskerfinu.

Ótrygg orka sniðin að óvissunni

Starfsemi fiskmjölsverksmiðja er breytileg milli ára. Aflaheimildir, veðurfar og göngumynstur fiskistofna eru dæmi um óvissuna í rekstri þeirra. Þessi óvissa veldur því að notkunin er í eðli sínu sveiflukennd, toppar eru háir og heildarorkumagn sem verksmiðjur þurfa er breytilegt. Á hinni hliðinni er einnig óvissa í raforkukerfinu frá ári til árs vegna vatnsstöðu, veðurfars og fleiri þátta.

Því var fundin lausn sem gagnast báðum aðilum og samfélaginu sem heild. Landsvirkjun og verksmiðjur sömdu um ótrygga orku, verksmiðjur geta notað mismikla orku á milli ára og afhending til verksmiðja er skert ef staða vinnslukerfisins er ekki nægilega góð, gegn lægra verði. Fyrirkomulag viðskiptanna er hagfellt fyrir alla aðila, verksmiðjurnar nýta orku sem mögulega hefði farið til spillis og Landsvirkjun nýtir auðlindir með betri hætti. Öll vinna.

Fiskmjölsverksmiðjur eru í dag reknar líkt og tengiltvinnbíll þar sem raforkan er ávallt fyrsta val, en ef hennar nýtur ekki við er hægt að nýta jarðefnaeldsneyti. Flest ár hefur verið til nægt rafmagn og hefur þetta fyrirkomulag sögulega reynst vel fyrir raforkukerfið, fiskmjölsverksmiðjur og samfélagið allt.

Niðurstaðan hefur verið minni notkun jarðefnaeldsneytis og betri nýting íslenskra auðlinda.

350 þúsund tonn af olíu sparast

Notkun fiskmjölsverksmiðja á raforku í stað jarðefnaeldsneytis síðastliðin 20 ár hefur gert það að verkum að flytja hefur þurft inn rúmlega 350 þúsund tonnum minna af olíu en ella samkvæmt tölum Orkustofnunar. Áhrifin eru jákvæð á losunarbókhald og viðskiptajöfnuð Íslands. Ef ekki hefði verið farið í orkuskipti á tíunda áratugnum hefði notkun á yfir 350 þúsund tonnum af olíu hefði leitt til viðbótar losunar yfir milljón tonna af CO2 síðastliðin 20 ár.

Miðað við olíuverð hvers árs er áætlað andvirði þeirrar olíu sem ekki var flutt inn rúmlega 36 milljarðar kr. á núverandi verðlagi. Fiskmjölsverksmiðjur hafa í staðinn greitt innlendum raforkufyrirtækjum fyrir raforku.

Hægt er að setja orkuskipti fiskmjölsverksmiðja í samhengi við önnur orkuskipti sem standa flestum nær, það er rafvæðing fólksbíla. Ef miðað er við gögn frá Samgöngustofu má áætla að árin 2017-2022 hafi rafbílavæðing dregið úr notkun jarðefnaeldsneytis sem nemur tæplega 50 þúsund tonnum af olíu sem er gríðarlega góður og mikilvægur árangur. Á sama tímabili drógu orkuskipti fiskmjölsverksmiðja úr olíunotkun sem nemur um 110 þúsund tonnum.

Áfram veginn

Mikilvægt er að halda áfram orkuskiptum ef ná skal kolefnishlutleysi Íslands og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Blikur eru á lofti í dag, draga hefur þurft úr afhendingu á raforku til verksmiðja árin 2022 og 2023, annars vegar vegna slakrar orkustöðu og hins vegar aflstöðu.

Núverandi raforkukerfi er komið að þolmörkum og því hefur þurft að skerða afhendingu á ótryggri orku til að tryggja afhendingu til annarra notenda. Hefur þetta leitt til aukinnar notkunar jarðefnaeldsneytis í stað raforku síðustu ár. Nokkrar leiðir eru í boði til að halda áfram með þá orkuskiptavegferð sem hafin hefur verið og skilað hefur svo góðum árangri.

Ein leiðin er að verksmiðjur kaupi forgangsorku í auknum mæli en það gæti lágmarkað notkun á jarðefnaeldsneyti í stað raforku. Einnig er nauðsynlegt að styrkja flutningskerfið til að þær verksmiðjur sem enn hafa ekki aðgang að raforku geti farið í orkuskipti. Auka þarf orkuvinnslu og aflgetu til að skerðingar á ótryggri orku verði tilfallandi vegna aðstæðna sem koma einstaka sinnum upp, líkt og upphaflega var ætlað, en verði ekki viðvarandi. Ásamt þessu er nauðsynlegt að huga að nýjum lausnum líkt og rafeldsneyti sem geta aðstoðað við áframhaldandi samdrátt í notkun jarðefnaeldsneytis.

Saga fiskmjölsverksmiðja er gott dæmi um vel heppnuð orkuskipti. Nauðsynlegt er þó að halda áfram veginn og klára orkuskiptin. Vonlaust er að árangur náist í orkuskiptum ef taka á tvö skref aftur á bak til að taka eitt skref áfram.