Leki við inntaksmannvirki Vatnsfellsstöðvar

03.08.2025Orka

Vinnsla stöðvuð

Vinnsla hefur verið stöðvuð í Vatnsfellsstöð eftir að vart varð við leka nálægt inntaksmannvirkjum stöðvarinnar í gær. Ákveðið var að tæma inntakslónið svo hægt sé að greina nánar ástæður lekans. Inntakslónið er lítið og gert ráð fyrir að tæmingu þess ljúki á morgun, mánudag.

Engin áhrif á framboð raforku núna

Gott innrennsli hefur verið á öllum vatnasvæðum Landsvirkjunar síðustu daga og vikur. Blöndulón er fullt og stærstu miðlunarlón Landsvirkjunar, Hálslón og Þórisvatn, eru við það að fyllast. Stöðvun Vatnsfellsstöðvar mun því ekki hafa áhrif á framboð raforku úr vinnslukerfi Landsvirkjunar til skamms tíma. Möguleg áhrif til lengri tíma verða ekki ljós fyrr en lónið er tómt og ástæður lekans hafa verið greindar.