Bráðabirgðaúrskurður hefur óveruleg áhrif á undirbúnings- framkvæmdir
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendi í dag frá sér bráðabirgðaúrskurð um stöðvun hluta undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun. Úrskurðurinn kemur í kjölfar dóms Hæstaréttar fyrr í mánuðinum, þar sem virkjunarleyfi framkvæmdarinnar var ógilt vegna mistaka eða handvammar við lagasetningu árið 2011.
Aðeins einn verktaki er að störfum við undirbúningsframkvæmdir Hvammsvirkjunar. Landsvirkjun óskaði eftir áframhaldandi heimild fyrir þeim, þar sem framkvæmdirnar hafa ekki áhrif á vatnshlot eða árfarveg.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar kemur ekki á óvart í ljósi dóms Hæstaréttar en Landsvirkjun telur mjög jákvætt að meðalhófs hafi verið gætt af hennar hálfu. Þannig tekur úrskurður nefndarinnar ekki til uppsetningar vinnubúða og halda þær því ótruflað áfram. Jafnframt segir nefndin að heimilt sé að ljúka við frágang efsta burðarlags á vegum og plönum á framkvæmdasvæðinu. Stöðvun framkvæmda hefur því eingöngu áhrif á undirbúningsframkvæmdir í frárennslisskurði en efni úr frárennslisskurði hefur verið nýtt til vegagerðar.