Góð staða miðlunarlóna

03.07.2023Orka

Hagfellt tíðarfar

Tíðarfar í vor og fyrri hluta sumars hefur verið mjög hagfellt á vatnasviðum Landsvirkjunar. Leysingar hófust snemma, strax í byrjun apríl, og innrennsli í miðlunarlón hefur verið vel yfir meðallagi.

Á Þjórsársvæði hefur Hágöngulón þegar fyllst og góðar líkur á að Þórisvatn nái viðunandi stöðu þó ekki sé víst að það fyllist. Tíðin á Austurlandi hefur verið einstaklega góð og jökulbráð er þegar hafin á Brúarjökli inn í Hálslón. Ef tíðarfarið breytist ekki má gera ráð fyrir að Hálslón fyllist um miðjan júlí.

Eftir að leysingum lauk í apríl á vatnasviði Blöndulóns hefur lónið staðið í stað en síðustu tvær vikur hefur innrennsli aukist samfara jökulbráð af Hofsjökli.

Eftirspurn eftir raforku reynir á aflgetu

Ef öll lón fyllast í haust þá er ólíklegt að grípa þurfi til orkuskerðinga næsta vetur vegna slæmrar stöðu miðlunarlóna.

Hins vegar er mikil eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun og reynslan frá síðasta vetri sýnir að suma daga getur eftirspurn farið yfir aflgetu kerfisins.

Við slíkar aðstæður þarf að grípa til aflskerðinga á sveigjanlegum raforkusamningum til að vernda afhendingu á raforku til almennings. Það er ekki ólíklegt að það gerist einnig á komandi vetri.