Grænu skrefin okkar

03.04.2024Umhverfi

Græn skref staðfest á öllum starfssvæðum Landsvirkjunar.

Öll fimm skrefin á öllum starfssvæðum

Starfsstöðvar okkar á Mývatnssvæði, Sogssvæði, Þjórsársvæði og í Fljótsdal stóðust endurúttekt Grænna skrefa nú í marsmánuði 2024, en Landsvirkjun hefur verið þátttakandi í verkefninu síðan 2015 og er með öll fimm skrefin á öllum starfssvæðum.

Grænu skrefin eru fimm og hvert skref inniheldur 20-40 aðgerðir til að innleiða grænan rekstur. Aðgerðunum í hverju skrefi er skipt í sjö flokka sem ná yfir helstu umhverfisþætti í skrifstofurekstri. Til að standast úttekt þarf að uppfylla a.m.k. 90% aðgerða í hverju skrefi.

Fyrsta úttekt Grænna skrefa í Fljótsdalsstöð var gerð árið 2021 og hefur síðan þá verið unnið stöðugt að því að bæta umhverfisstarfið. Í endurúttektinni núna var ýmsum þáttum í starfseminni hrósað, m.a. endurnýtingu hluta og meðhöndlun úrgangs.

Umhverfismálum hrósað sérstaklega

Starfsemin á Mývatnssvæði hlaut viðurkenningu fyrir fimm Græn skref í desember árið 2020. Í endurúttektinni núna var starfi í umhverfismálum hrósað og lýst yfir ánægju með ýmsar aðgerðir sem gengu lengra en verkefnið gerði kröfur um.

Sogs- og Þjórsársvæði stóðust endurúttektina eftir samfellda vinnu síðustu ára og töluverðan undirbúning vikurnar og mánuðina á undan. Var ýmsum þáttum umhverfisstarfs starfsstöðvanna hrósað í úttektinni.

Draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og efla umhverfisvitund

Markmið Grænna skrefa, sem eru á vegum Umhverfisstofnunar, er að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum þátttakenda og efla umhverfisvitund starfsfólks.

Þátttakendum í Grænum skrefum gefst tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðingastofnunarinnar.