Íbúafundur í Rangárþingi ytra

07.04.2022Hvammsvirkjun

Þétt var setið í samkomusalnum á Laugum í Holtum þegar sveitarfélagið Rangárþing ytra hélt þar kynningarfund um Hvammsvirkjun. Fulltrúar Landsvirkjunar mættu á fundinn og héldu erindi fyrir heimafólk.

Ágúst Sigurðsson sveitarstjóri stýrði fundinum.

Kristín Linda Árnadóttir aðstoðarforstjóri sagði að orkan frá Hvammsvirkjun rynni ekki að mestu til eins stórs verkefnis, eins og oft hefði verið raunin þegar Landsvirkjun réðist í virkjanaframkvæmdir. Hvammsvirkjun væri orkuvinnsla framtíðar, en mikil eftirspurn væri eftir meiri grænni raforku.

Ásbjörg Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs, rakti nánar hvers vegna Hvammsvirkjun væri núna áformuð. Vissulega væri mikil eftirspurn eftir raforku og horft væri til orkufyrirtækis þjóðarinnar að svara þeirri eftirspurn. Hún nefndi þrjár stoðir orkuvinnslu, vatnsafl, jarðvarma og sagði Landsvirkjun horfa til ýmissa kosta, bæði að virkja, stækka aflstöðvar sem þegar væru fyrir hendi og huga að beislun vindorku. Hvammsvirkjun væri einn af nýju vatnsaflskostunum. Staðsetning hennar á suðvesturhorninu heppileg, þar væri eftirspurnin mest og ekki þyrfti að reisa nýjar flutningslínur því þær eru þegar til staðar.

Ásbjörg sagði undirbúning Hvammsvirkjunar hafa staðið lengi og hönnun hennar væri lokið, virkjanaleyfi væri í vinnslu hjá Orkustofnun og styttist í að sótt væri um framkvæmdaleyfi.

Valur Knútsson, forstöðumaður framkvæmda, rakti hvar stíflumannvirki verða í Þjórsá. Hann sýndi allmargar myndir af svæðinu núna og tölvugerðar myndir af því hvernig svæðið verður eftir að virkjað verður. Þá sýndi hann hvernig fiskistiga og seiðafleytu verður komið fyrir við stífluna og rakti þá vegagerð og brúarsmíði, sem nauðsynleg er. Stöðvarhús Hvammsvirkjunar verður sunnan Þjórsár.

Valur fór yfir hvert meðalrennsli árinnar verður neðan stíflu, sem og hvert lágmarksrennslið verður. Hann fór yfir umhverfisleg og samfélagsleg áhrif virkjunarinnar og sagði Landsvirkjun leggja mikla áherslu á góð samskipti við hagaðila. Finna þyrfti leiðir til að lágmarka neikvæð áhrif á byggingartíma virkjunarinnar, t.d. á ferðaþjónustuna. Reynt væri eftir fremsta megni að lágmarka neikvæð, sjónræn áhrif af framkvæmdunum. Hægt væri að hefja undirbúningsframkvæmdir í lok september, ef allar leyfisveitingar ganga eftir. Bygging Hvammsvirkjunar sjálfrar gæti svo hafist á næsta ári, verði það endanleg niðurstaða að ráðast í framkvæmdina.

Georg Þór Pálsson, stöðvarstjóri, fór yfir starfsemi Landsvirkjunar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en Hvammsvirkjun yrði 8. aflstöðin á því svæði. Hann fór yfir fastan starfsmannafjölda og sumarráðningar og tók fram að oft fjölgaði mjög í hópnum þegar innlendir og erlendir ráðgjafar og verktakar sinntu stærri viðhaldsverkefnum, en öll stærri verkefni eru boðin út.

Mikil landgræðsla og skógrækt hefur verið stunduð á starfssvæðum Landsvirkjunar allt frá upphafi og mun halda áfram. Þá hafa verið stundaðar rannsóknir á lífríki ánna á svæðinu áratugum saman.

Eftir framsöguerindi urðu ágætar umræður, þar sem Landsvirkjunarfólk svaraði spurningum fundarmanna um ýmis málefni sem tengjast virkjunarframkvæmdum.