Krefjandi viðhaldsverkefni í Vatnsfellsskurði

28.06.2024Fyrirtækið

Krefjandi viðhaldsverkefni í Vatnsfellsskurði

Framkvæmdir við viðhaldsverkefni í Vatnsfellsskurði hófust í apríl. Verið er að laga rof sem myndast hefur í skurðfláum og í skurðbotni. Viðgerðin felst í því að gera skurðbarmana meira aflíðandi og draga þannig úr líkum á hruni ofan í skurðinn ásamt því að steypa í rofholur botni skurðarins.

Nú í vikunni var svo lokað fyrir vatnsrennsli og vinna hófst ofan í skurðinum sjálfum. Annars vegar er ætlunin að steypa ofan í holur sem hafa myndast rétt neðan við lokuvirkið og hins vegar að hreinsa efni sem safnast hefur upp í skurðbotni.

Hrun úr skurðbörmum í nágrenni lokuvirkisins gæti leitt til skemmda á því ef ekkert yrði að gert. Samhliða þessu verkefni verður í júlí unnið að viðhaldi og endurbótum á lokum og lokubúnaði í lokuvirkinu sjálfu. Lokuvirkið fæðir að stórum hluta sjö virkjanir í Þjórsá og því afar mikilvægt að tryggja öruggan rekstur þess.

Verklok ráðgerð í lok júlí

Verkefnið var undirbúið í vetur ásamt mörgum öðrum viðhaldsverkefnum á mannvirkjum Landsvirkjunar. Það sem gerir þetta verkefni sérstaklega krefjandi er þröngar aðstæður í djúpum skurði langt frá byggð og stuttur verktími. Steypt verður í holurnar í skurðbotni í nokkrum áföngum en verklok eru ráðgerð í júlílok.

Þrátt fyrir að lokað verði fyrir rennsli í rúman mánuð er ekki gert ráð fyrir að grípa þurfi til aukinna skerðinga á afhendingu orku til viðskiptavina nema til komi sérstakar og ófyrirséðar aðstæður í vinnslukerfinu.

Suðurverk annast verkið og er áætlaður kostnaður 258 milljónir króna.