Lónið fær Svansvottun

30.06.2022Fyrirtækið
F.v. Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Ingvar Sigurðsson matreiðslumeistari, Íris Lind Magnúsdóttir, starfsmaður Lónsins og Ragna Hjördís Ágústsdóttir starfsmaður Lónsins
F.v. Elva Rakel Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Svansins, Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar, Ingvar Sigurðsson matreiðslumeistari, Íris Lind Magnúsdóttir, starfsmaður Lónsins og Ragna Hjördís Ágústsdóttir starfsmaður Lónsins

Lónið, mötuneyti Landsvirkjunar á Háaleitisbraut 68, hefur nú hlotið Svansvottun. Vottunin er ein af fjölmörgum aðgerðum fyrirtækisins á sviði umhverfismála og virkri þátttöku í sjálfbærri þróun samfélagsins. Starfsfólk Lónsins hefur um árabil unnið markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum í starfsemi mötuneytisins. Það hefur verið gert með stórum og smáum aðgerðum sem hafa lækkað kolefnisspor máltíða, dregið úr matarsóun og tekið úr umferð allan einnota borðbúnað og umbúðir.

Mötuneyti Landsvirkjunar á starfsstöðvum um allt land hafa lagt sig fram um að bjóða upp á heilsusamlegan mat og á sama tíma lágmarka umhverfisáhrif sinnar þjónustu. Svansvottun Lónsins er staðfesting á metnaðarfullri stefnu og ekki síst sterkri umhverfisvitund og dugnaði starfsfólks fyrirtækisins.

Vottunarferlið hefur enn fremur gefið tækifæri til úrbóta í Lóninu, enda eru kröfur Svansins fyrir mötuneyti ítarlegar og ná til flestra þátta starfseminnar. Þar má helst nefna:

  • Stóraukin innkaup á lífrænum vörum fyrir daglega notkun
  • Við almenn þrif er notast eingöngu við umhverfisvottuð efni
  • Matarsóun er mæld reglulega og tækifæri til úrbóta greind
  • Fyrirkomulag þvotta á vefnaðarvöru bætt

Ingvar Sigurðsson, matreiðslumeistari: „Svansvottunin er flott viðurkenning á því frábæra starfi sem starfsfólk Lónsins hefur unnið undanfarin misseri. Við hjá Landsvirkjun leggjum auðvitað mikinn metnað í að vera í fararbroddi þegar kemur að umhverfismálum. Vinna sem þessi er áþreifanleg leið, bæði til betri umgengi við náttúruna og sem stuðningur við stefnu Landsvirkjunar“.

Umhverfismerkið Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna. Svansvottaður veitingarekstur uppfyllir strangar umhverfis- og gæðakröfur þar sem m.a. er lögð rík áhersla á vistvæn innkaup, umhverfisvottaðar efnavörur, sjálfbær matvæli, bætta úrgangsmeðhöndlun og sparneytni í orku- og vatnsnotkun.

Heimasíða Svansins