Rekstrartekjur ná fyrri styrk

20.08.2021Fjármál

Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar

Lesa nánar

Helstu atriði árshlutareiknings

  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 99,3 milljónum USD (12,2 ma.kr.), en var 73,2 milljónir USD á sama tímabili árið áður og hækkar því um 35,7%. 1
  • Hagnaður tímabilsins var 55,1 milljón USD (6,8 ma.kr.) en var 43,6 milljónir USD á sama tímabili árið áður.
  • Rekstrartekjur námu 262,0 milljónum USD (32,2 ma.kr.) og hækka um 34,9 milljónir USD (15,4%) frá sama tímabili árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 84,7 milljónir USD (10,4 ma.kr.) frá áramótum og voru í lok júní 1.591,1 milljón USD (195,7 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 163,5 milljónum USD (20,1 ma.kr.), sem er 26,1% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstrarumhverfi fyrirtækisins hélt áfram að batna á öðrum fjórðungi ársins. Hagur viðskiptavina hélt áfram að vænkast, en þeir hafa jafnt og þétt aukið raforkunotkun sína og keyra flestir á fullum afköstum, auk þess sem spurn eftir framleiðslu þeirra hefur náð fyrri styrk og er í mörgum tilvikum meiri en hún var í upphafi faraldursins. PCC Bakki Silicon endurræsti verksmiðju sína, gerðir voru raforkusamningar við Verne Global og Advania Data Centres og í júlí var gerður nýr samningur við Norðurál, sem gerir fyrirtækinu m.a. mögulegt að auka verðmæti framleiðslu sinnar. Meðalverð á Nord Pool raforkumarkaðinum var um 50 Bandaríkjadalir á megavattstund, og hafði fjórfaldast frá síðasta ári. Samkeppnisstaða Landsvirkjunar hefur því styrkst. Meðalverð raforku Landsvirkjunar til stórnotenda var á sama tíma rúmir 28 dalir á megavattstund og hefur ekki áður verið hærra.

Afkoma fyrri árshelmings ber þessa bata greinileg merki. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem við lítum til við mat á rekstri fyrirtækisins, hækkaði um tæplega 36% frá sama tímabili árið 2020. Þá lækkuðu nettó skuldir um 10,4 milljarða króna á fyrri helmingi ársins. Þetta eru ánægjulegar niðurstöður, ekki síst í ljósi þeirrar stöðu og óvissu sem var uppi á síðasta ári vegna kórónuveirufaraldursins, en lánshæfiseinkunn okkar hjá S&P var hækkuð um einn flokk í júní, með vísan til sterkrar fjárhagsstöðu og frammistöðu starfsmanna við að takast á við þær áskoranir sem fylgt hafa faraldrinum.

Spurn eftir endurnýjanlegri orku fer nú ört vaxandi, samhliða aukinni áherslu á loftslagsmál, enda snúast loftslagsmálin fyrst og fremst um að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir endurnýjanlega orku samhliða áherslu á orkusparnað. Nú eru það í síauknum mæli neytendur og fyrirtæki sem drífa áfram þróunina, en áður voru það fyrst og fremst stjórnvöld og alþjóðasamtök. Þetta mun skapa mikil tækifæri fyrir Íslendinga til að skapa enn frekari efnahagsleg verðmæti og störf, auk þess að vera verðmætt framlag til loftslagsmála.“

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 123.

Fréttatilkynning