Sótt um virkjunarleyfi vegna Búrfellslundar

03.11.2022Orka

Landsvirkjun hefur sótt um virkjunarleyfi til Orkustofnunar vegna fyrirhugaðs Búrfellslundar. Uppsett afl lundarins er 120 MW og mun hann nýta mannvirki og aðra innviði sem fyrir eru á stærsta orkuvinnslusvæði fyrirtækisins, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.

Landsvirkjun hefur haft til rannsóknar frá árinu 2012 hagkvæmni þess að reisa vindlund norðan Búrfells. Uppsett afl er 120 MW og er fyrirhugað virkjunarsvæði innan stærsta orkuvinnslusvæðis fyrirtækisins, Þjórsár- og Tungnaársvæðis. Reynsla af rekstri tveggja rannsóknavindmylla á Hafinu norðan við Búrfell síðasta áratug hefur leitt í ljós að staðsetningin er óvenjuhagstæð fyrir raforkuvinnslu úr vindafli.

Áhersla á að lágmarka sjónræn áhrif

Búrfellslundur var færður í nýtingarflokk rammaáætlunar í júní 2022, þegar Alþingi samþykkti með þingsályktun um uppfærða flokkun virkjunarkosta. Við afgreiðsluna var vísað í nýja útfærslu lundarins, þar sem umfangið var minnkað úr 200 MW í 120 MW frá fyrri áformum sem sett höfðu verið fram árið 2016.

Ný útfærsla Búrfellslundar er í samræmi við athugasemdir og ábendingar sem bárust við þróun verkefnisins við eldri útfærslu. Lögð er áhersla á að lágmarka sjónræn áhrif lundarins og hefur ný útfærsla að mati Landsvirkjunar í för með sér minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi ferðamannastöðum.

Nánar um Búrfellslund