Staðan í vatnsbúskapnum

06.07.2022Orka

Eftir krefjandi vetur í vinnslukerfi Landsvirkjunar hefur staða vatnsbúskapar batnað umtalsvert.

Snjósöfnun vetrar var vel yfir meðallagi og tók snjóbráð vorsins snemma við sér og skilaði sér vel í miðlunarlón. Blöndulón og Þórisvatn náðu lægstu stöðu seinni hluta mars og hófst söfnun fljótlega í kjölfarið og hefur haldist stöðug síðan. Hálslón náði lægstu stöðu um miðjan maí og hefur söfnun verið rólegri þar en í öðrum miðlunum Landsvirkjunar enda spilar jökulbráð þar stærri þátt í innrennsli ársins.

Nú seinni hluta júnímánaðar hefur hægst á söfnun þar til að jökulbráð tekur við sér með hækkandi hitastigi á hálendinu. Góðar líkur eru á að Blöndulón og Hálslón fyllist í ágúst en rétt undir helmingslíkur á að Þórisvatn fari á yfirfall fyrir sumarlok.

Hægt er að fylgjast með vatnshæð miðlunarlóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar: www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/voktun