Styrkir til rannsókna á náttúru, orku og umhverfi

07.03.2022Orka

Úthlutað hefur verið úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar í fimmtánda sinn. Að þessu sinni voru veittir 35 verkefnastyrkir til orkumála og til rannsókna á náttúru og umhverfi; þar með taldar rannsóknir til notkunar vistvænna orkugjafa í samgöngum og iðnaði. Alls bárust að þessu sinni 49 umsóknir um rannsóknarverkefni með samanlögðum óskum um 156 milljónir kr. til verkefna á árinu 2022 en til ráðstöfunar voru 59 milljónir.

Tilgangur Orkurannsóknasjóðs er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsmenn til að velja sér viðfangsefni á þessu sviði, gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir aðstoði við að ná fram framtíðarsýn fyrirtækisins, sem er sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku.

Stóraukinn áhugi

Þegar sjóðurinn hóf störf fyrir 15 árum olli það áhyggjum hve fáir lögðu stund á framhaldsnám og rannsóknir við háskóla sem tengjast öflun og dreifingu endurnýjanlegrar orku og rannsóknum á náttúru og umhverfi sem þeim tengjast. Á þessu hefur orðið jákvæð breyting og það er verulegt ánægjuefni að sjá hversu margir af okkar hæfustu háskólanemum fara inn á þessa braut. Áhuginn hefur stóraukist og það er gríðarlega mikilvægt.

Að meðtöldum styrkveitingum þessa árs hefur sjóðurinn veitt 334 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknarverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í heild hafa styrkir sjóðsins á þessum árum numið 848 mkr. Við hjá Landsvirkjun erum afar stolt af þessu framlagi sjóðsins til rannsóknamála og þeim mörgu frábæru verkefnum sem hafa hlotið brautargengi í krafti þessara styrkveitinga í gegnum árin.

Stjórn Orkurannsóknasjóðs skipa Óli Grétar Sveinsson, forstöðumaður yfir þróun vatnsafls hjá Landsvirkjun, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, Ragnheiður Ólafsdóttir um­hverfis­stjóri Landsvirkjunar, Halldór Svavarsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild við Háskólann í Reykjavík, Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri, og formaður stjórnar er Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur og fyrrum jarðeðlisfræðingur á ÍSOR.

Vetnisgas, veður og mælingar með flygildi

Við afhendingu styrkjanna kynntu þrír styrkþegar verkefni sín. Það voru þau Anna Lilja Sigurðardóttir, sem fjallaði um nýtingu raforku til framleiðslu á vetnisgasi með rafgreiningu og vökvagerð þess með ofurkælingu, Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurvaktinni ehf., sem flutti erindi um nýju ERA-5 endurgreininguna - öflugt verkfæri til skilnings á sveiflum í veðurfari og hringrásarvísum á N-Atlantshafi og loks Pétur R. Pétursson hjá Neskortes ehf, sem sagði frá mælingu koltvísýrings með flygildi.

Sjá allar úthlutanir úr Orkurannsóknasjóði 2022