ESA hefur rannsókn

30.04.2025Fyrirtækið

ESA hefur rannsókn

Landsvirkjun barst erindi frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í júní 2024 þar sem óskað var eftir gögnum og upplýsingum um hugsanlega raforkusölu Landsvirkjunar til nýrra viðskiptavina. Þeirri fyrirspurn var svarað í ágúst sama ár.

ESA hefur í dag ákveðið að hefja formlega rannsókn á því hvort Landsvirkjun hafi brotið gegn samkeppnisreglum EES með því að neita að afhenda raforku til fyrirtækja sem leitast eftir því að framleiða vetni og/eða rafeldsneyti á Íslandi.

Ákvörðun ESA felur í sér upphaf ítarlegrar rannsóknar, en ekki niðurstöðu um samkeppnishamlandi háttsemi viðkomandi fyrirtækis. Þá gefur ákvörðunin enga vísbendingu um endanlega niðurstöðu rannsóknarinnar né felst í henni nokkurs konar afstaða um tilvist brots á samkeppnislögum.

Ákvörðun kemur á óvart

Ákvörðun ESA kemur á óvart. Ástæða þess að ekki hefur verið unnt að selja raforku til vetnis- eða rafeldsneytisverkefna er sú að staðan í kerfinu hefur verið mjög þröng og Landsvirkjun hefur þurft að skerða bæði afl og orku til núverandi viðskiptavina á undanförnum árum. Að sama skapi hafa tafir í leyfisveitingaferli nýrra virkjana komið í veg fyrir að unnt sé að styðja við mörg ný verkefni.

Landsvirkjun hefur þurft að tilkynna fjölmörgum aðilum með mjög áhugaverð verkefni að ekki sé unnt á þessu stigi að verða við beiðni um orkukaup af þessum ástæðum. Við útilokum ekki að það verði mögulegt í framtíðinni og mun það m.a. ráðast af uppbyggingu nýrra virkjana. Það kemur því verulega á óvart ef nálgun okkar felur í sér brot á EES-samningi þegar hvorki er til orka eða afl í kerfinu og því ekki hægt að verða við flestum beiðnum um sölu.

Við munum leggja okkur fram um að upplýsa öll þau atriði sem ESA telur þarfnast skýringa og teljum að rannsóknin muni ekki leiða neitt óeðlilegt í ljós.