Loftslagsmál

Kolefnis­sporið okkar dregst saman

Skoða loftslagsbókhald

Kolefnisspor okkar fyrir árið 2020 var um 16,5 þúsund tonn CO2-ígilda. Árið 2019 var þessi tala tæp 22 þúsund tonn. Kolefnissporið hefur því dregist saman um 25% milli ára. Lækkunin skýrist bæði af samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda en einnig aukinni bindingu í jarðvegi og gróðri.

Losun gróðurhúsalofttegunda dregst saman

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi Landsvirkjunar var um 49,5 þúsund tonn CO2-ígilda árið 2020. Mest vegur losun frá jarðvarmastöðvum eða tæp 31 þúsund tonn CO2-ígilda. Losun frá lónum var tæp 14 þúsund tonn, þar af 6,4 þúsund tonn vegna losunar lífræns CO2 úr lónum. Heildarlosun okkar dregst saman um 7% milli ára og losun á orkueiningu lækkar úr 3,9 g/kWst árið 2019 í 3,7 g/kWst árið 2020.

Ytri endurskoðun tryggir nákvæmni

Losun okkar hefur verið rýnd og staðfest af alþjóðlega endurskoðunarfyrirtækinu Bureau Veritas samkvæmd staðlinum ISAE 3000 með takmarkaðri vissu (e. limited assurance). Svona tryggjum við eftir fremsta megni að upplýsingar um starfsemi okkar séu nákvæmar og réttar.

Græn framtíð er markmiðið

Í árslok 2019 var aðgerðaáætlun Landsvirkjunar í loftslagsmálum til ársins 2030 samþykkt.

Áætlunin gerir ráð fyrir að fyrirtækið verði kolefnishlutlaust árið 2025. Árið 2030 ætlum við svo að binda umtalsvert meira heldur en starfsemi fyrirtækisins losar. Svona viljum við leggja okkar af mörkum í baráttunni við loftslagsbreytingar, sem eru eitt mest aðkallandi viðfangsefni mannkyns. Árangurinn af aðgerðaáætluninni er nú þegar sýnilegur en kolefnisspor okkar lækkaði um 25% milli ára.

Metnaðarfullt fyrirtæki í fararbroddi

Landsvirkjun er í fararbroddi á sviði umhverfismála og stuðlar að sjálfbærri þróun í samfélaginu. Fyrirtækið leggur áherslu á að þekkja umhverfisáhrif starfsemi sinnar og leitast við að draga úr þeim. Við erum leiðandi í loftslagsmálum, en það staðfestir CDP með einkunninni A- fyrir loftslagsstýringu okkar árið 2020.

Spöruð losun innan sem utan landsteina

Hér má sjá nánari upplýsingar um græna fjármögnun

Spöruð losun gróðurhúsalofttegunda vegna raforkuvinnslu okkar er metin rúmlega 2.7 milljón tonn CO2 ígildi. Með sparaðri losun er átt við þá losun sem ætti sér stað væri orkan frá Landsvirkjun ekki 100% endurnýjanleg. Mat á sparaðri losun nær bæði til losunar innanlands og vegna orku sem fer til stóriðju og er sá hluti reiknaður frá viðmiði ETS kerfisins. Matið er unnið af KPMG og er hluti af upplýsingagjöf okkar vegna grænnar fjármögnunar, talan er rýnd og lánakjör okkar byggja að hluta á því hvernig við stöndum okkur.