Losun áfram með því lægsta sem þekkist

02.03.2024Umhverfi

Loftslagsbókhald Landsvirkjunar fyrir árið 2023 er komið út.

Losun áfram með því lægsta sem þekkist

Kynntu þér loftslagsbókhald Landsvirkjunar 2023

Heildarlosun Landsvirkjunar á orkueiningu á síðasta ári nam 3,3 grömmum CO2-ígilda á hverja kWst. Hún hækkaði um 7% á milli ára en er sem fyrr undir 4 grömmum CO2-ígilda, sem er skilgreint losunarþak í loftslags- og umhverfisstefnu okkar. Rétt er að geta þess að Evrópusambandið skilgreinir raforkuvinnslu með vatnsafli og jarðvarma sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum ef losun á hverja orkueiningu er undir 100 grömmum.

Losun er mismunandi eftir því hvort um raforkuvinnslu með jarðvarma eða vatnsafli er að ræða. Losun orkuvinnslu með jarðvarma var 29 gCO2-ígildi á hverja orkueiningu árið 2023 og hækkaði um 5% á milli ára sem skýrist m.a. af auknum blástursprófunum á borholum. Sú losun er þó aðeins tæpur þriðjungur af fyrrnefndu viðmiði ESB.

Losun raforkuvinnslu með vatnsafli var aðeins 0,6 grömm CO2-ígilda á hverja orkueiningu og hækkaði þó um 9% á milli ára vegna fleiri íslausra daga á lónum en árið áður.

Kolefnisspor (losun að frádreginni bindingu) á hverja orkueiningu var 0,9 grömm CO2-ígilda á hverja orkueiningu og hækkaði um 22% á milli ára. Fyrir utan hækkun bæði frá jarðvarma og vatnsafli skýrist þessi tala m.a. af því að nú er talin fram losun vegna framleiðslu stáls og sements sem fyrirtækið notar í framkvæmdum.

Losun vegna bruna jarðefnaeldsneytis lækkaði um 11% milli ára. Við vinnum markvisst að því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreinorku á bifreiðum og tækjum í okkar eigu og miðar vel að því setta marki að hætta að kaupa jarðefnaeldsneyti árið 2030.

Við gefum árlega út loftslagsbókhald þar sem við birtum tölulegar upplýsingar um losun vegna starfsemi fyrirtækisins. Það er unnið út frá aðferðafræði Greenhouse Gas Protocol (GHGP), alþjóðlegum fyrirtækjastaðli fyrir upplýsingagjöf um losun gróðurhúsalofttegunda.

Endurskoðunarfyrirtækið Bureau Veritas hefur rýnt og staðfest loftslagsbókhaldið okkar frá árinu 2018. Þannig tryggjum við að niðurstöður okkar séu í samræmi við þá losun sem starfsemi fyrirtækisins veldur.

Forðuð losun

Raforkan okkar hefur einkar lítið kolefnisspor og notkun hennar kemur í veg fyrir notkun raforku með stærra kolefnisspori. Forðuð losun, eða sú losun sem starfsemi okkar kemur í veg fyrir, er hluti af loftslagsframlagi okkar. Árið 2023 var forðuð losun vegna orkuvinnslu Landsvirkjunar metin um 2,6 milljón tonn CO2-ígilda.

Orkufyrirtæki þjóðarinnar hefur náð þeim árangri að vera með eitt lægsta kolefnisspor allra orkufyrirtækja og telst leiðandi á heimsvísu í loftslagsmálum.