Búrfellslundur

Búrfellslundur er staðsettur austan við Sultartangastöð. Aðliggjandi fjallagarðar skapa mjög góð skilyrði fyrir vindorku. Við hönnun Búrfellslundar verður leitast til að lágmarka sjónræn áhrif frá fjölsóttum svæðum. Með Búrfellslundi verða innviðir sem þegar eru til staðar nýttir, svo sem vegir og háspennulínur.

Um virkjunar­kostinn

Í nokkur ár höfum við haft það til athugunar að reisa vindlund á hraun- og sandsléttunni austan Þjórsár og á Hafinu þar sem við rekum nú þegar tvær vindmyllur í rannsóknarskyni.

Vindlundurinn hefur fengið nafnið Búrfellslundur og er hann fyrirhugaður á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, stærsta vinnslusvæði okkar með sjö vatnsaflsstöðvar í rekstri. Staðarvalið dregur úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar enda eru háspennulínur, vegir og önnur mannvirki þegar til staðar á svæðinu.

Síðustu tvo áratugi höfum við rannsakað veðurfar og stundað vindmælingar á svæðinu. Niðurstöður þeirra rannsókna sýna að afar hagstætt er að reka vindlund á þessu svæði.

Endurhönnun í samræmi við athugasemdir

Búrfellslundur hefur nú verið endurhannaður í samræmi við athugasemdir og ábendingar sem bárust við eldri útfærslu í umhverfismati og 3. áfanga Rammaáætlunar.

Við endurhönnunina var lögð áhersla á að lágmarka sjónræn áhrif Búrfellslundar og hefur ný útfærsla í för með sér talsvert minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi ferðamannastöðum. Afmarkað hefur verið nýtt og minna svæði fyrir vindlundinn sem er staðsett enn nær núverandi orkumannvirkjum en áður. Umrætt svæði er innan þess rannsóknarsvæðis sem rannsakað var í mati á umhverfisáhrifum en staðsetning vindmylla er þó önnur. Með endurhönnuninni hefur umfang Búrfellslundar verið minnkað í afli úr 200 MW í 120 MW. Ennfremur hefur fjöldi vindmylla verið minnkaður úr 67 í allt að 30.

Endurhannaður Búrfellslundur er ekki sýnilegur frá Stöng eða Gjánni og með því að staðsetja vindmyllurnar norðan við Sprengisandsleið (F26) og Landveg skerðist ekki útsýni að Heklu. Ný tillaga er ekki sýnileg frá bílastæðinu við Háafoss eins og áður var og er lítt sjáanleg frá gatnamótum Landvegar og Landmannaleiðar.

Endurhönnun Búrfellslundar er nú til umfjöllunar í 4. áfanga Rammaáætlunar en eldri útfærsla var flokkuð í biðflokk 3. áfanga.

Mat á umhverfisáhrifum lauk í desember 2016.

 • Afl hverrar vindmyllu

  4 x0MW
 • Fjöldi (allt að)

  0
 • Stærð svæðis

  0km2
 • Uppsett afl (allt að)

  0MW
 • P50 orkugeta

  0GWst/ári

Staða verkefnis

Mat á umhverfisáhrifum Búrfellslundar lauk í desember 2016 og var unnið af Mannviti fyrir Landsvirkjun. Í matsskýrslu er fjallað um möguleg umhverfisáhrif allt að 200 MW vindlundar sem felur í sér uppbyggingu 58-67 vindmylla sem yrðu að hámarki 150 m háar. Fjallað er um staðsetningu vindlundar og kosti þeirrar staðsetningar með tilliti til innviða og vindafars. Rætt er um tengsl framkvæmdanna við skipulag og vernd á svæðinu þ.m.t. Landsskipulag og aðal- og deiliskipulagsáætlanir.

Þeir umhverfisþættir sem voru til skoðunar voru: Ásýnd, landslag, hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fuglar, samfélag (sveitarfélög, nærsamfélag og ferðaþjónustu og ferðamenn) og fornleifar. Áhrif á hljóðvist, jarðmyndanir, gróður, fugla og fornleifar voru metin óveruleg. Áhrif á íbúa, ferðaþjónustu og ferðamenn voru metin nokkuð neikvæð en nokkuð jákvæð á sveitarfélög. Áhrif á landslag og ásýnd fengu einkunnina engin áhrif til verulega neikvæð áhrif. Áhrif vegna ásýndar eru mismunandi eftir fjarlægð, staðsetningar og legu í landslagi.

Tillögur að afmörkun Búrfellslundar mótuðust í gegnum matsferlið með það að markmiði að koma til móts við ábendingar og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Drög að vöktunaráætlun fyrir Búrfellslund er birt í skýrslunni og er þar gert ráð fyrir vöktun á nokkrum umhverfisþáttum bæði á framkvæmda- og rekstrartíma
Álit Skipulagsstofnunar á mati á umhverfisáhrifum Búrfellslundar má nálgast hér.

Unnin var sérstök rafræn matsskýrsla vegna Búrfellslundar. Rafræna matsskýrslan vann til tveggja verðlauna á Digital Communication Awards. Rafræna matskýrslan sýnir eldri útfærslu Búrfellslundar en ekki þá nýju. Staðsetning og uppröðun vindmylla hefur breyst með endurhönnuninni.

Endurhönnun

 • Búrfellslundur hefur nú verið endurhannaður í samræmi við athugasemdir og ábendingar sem bárust við eldri útfærslu í umhverfismati og 3. áfanga Rammaáætlunar.
 • Afmarkað hefur verið nýtt og minna svæði fyrir vindlundinn sem er staðsett enn nær núverandi orkumannvirkjum en áður. Umrætt svæði er innan þess rannsóknarsvæðis sem rannsakað var í mati á umhverfisáhrifum en staðsetning vindmylla er þó önnur. Með endurhönnuninni hefur umfang Búrfellslundar verið minnkað í afli úr 200 MW í 120 MW. Ennfremur hefur fjöldi vindmylla minnkað úr 67 í allt að 30. Reiknað er áfram með að hámarkshæð þegar spaðar eru í efstu stöðu sé alltaf lægri en 150 m.
 • Mikil áhersla hefur verið lögð á að lágmarka sjónræn áhrif Búrfellslundar. Með endurhönnuninni hefur dregist verulega úr ásýndaráhrifum miðað við fyrri tillögu. Ný tillaga hefur í för með sér talsvert minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi áfangastöðum.
 • Tekið var tillit til fyrirhugaðrar friðlýsinga Þjórsárdals. Endurhannaður Búrfellslundur er ekki sýnilegur frá Stöng eða Gjánni og með því að staðsetja vindmyllurnar norðan við Sprengisandsleið (F26) og Landveg skerðist ekki útsýni að Heklu.
 • Ný tillaga er ekki sýnileg frá bílastæðinu við Háafoss eins og áður var og er lítt sjáanleg frá gatnamótum Landvegar og Landmannaleiðar. Það er mat reynslumikla landslagsarkitekta að svæðið er vel til þess fallið að hýsa vindmyllugarð. Fjallgarðar til austurs og vesturs, draga úr sjónrænum áhrifum vindlundarins til þeirra átta.
 • Sjónræn áhrif vindmylla eru bein, neikvæð en afturkræf þar sem unnt er að taka vindmyllur niður eftir að líftíma þeirra er lokið.
 • Fyrirhugað er að byggja vindlundinn upp í nokkrum áföngum, með því fæst reynsla af rekstri og mögulegum áhrifum vindmylla á svæðinu.

Rammaáætlun

Grundvöllur að ákvörðun um byggingu Búrfellslundar er að hún sé í orkunýtingarflokki rammaáætlunar, að Orkustofnun veiti virkjanaleyfi og að viðkomandi sveitarfélög veiti framkvæmdaleyfi.

4. áfangi – endurhönnun/ný útfærsla

Orkustofnun kallaði eftir nýjum virkjunarhugmyndum vegna 4. áfanga Rammaáætlunar í október 2019. Endurhönnun Búrfellslundar var skilað inn til Orkustofnunar í febrúar 2020 og er nú til umfjöllunar í 4. áfanga Rammaáætlunar.

3. áfangi – eldri útfærsla

Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar afhenti umhverfis- og auðlindaráðherra þann 26. ágúst 2016 lokaskýrslu um verndar og orkunýtingaráætlun en Búrfellslundur var flokkaður í biðflokk.

Helstu rök fyrir flokkun í biðflokk voru:

 • Lágar einkunnir faghóps 1 og háar einkunnir faghóps 2.
 • Mikil neikvæð áhrif á mörg ferðasvæði.

Búrfellslundur hefur verið endurhannaður í samræmi við athugasemdir og ábendingar sem bárust við fyrri tillögu í umhverfismati og 3. áfanga Rammaáætlunar.

Búrfellslundur - ný útfærsla