Ærin verkefni í orkumálum

20.09.2023Raforkuöryggi

Grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra, um orkuskipti og langtímasýn.

Ærin verkefni í orkumálum

Landsvirkjun hefur lengi varað við því ástandi sem nú er uppi, þegar raforkukerfið er fullselt og ekki er fyrirsjáanlegt að hægt verði að mæta eftirspurn eftir rafmagni fyrir eðlilegan vöxt atvinnulífsins og margboðuð orkuskipti. Þar höfum við sérstaklega áhyggjur af árunum 2025-26, áður en næstu virkjanir koma í rekstur.

Á árunum 2010-2020 reisti Landsvirkjun þrjár af þeim 10 virkjunum sem fyrirtækið hefur byggt: Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og Búrfellsvirkjun II. Samanlagt uppsett afl þessara virkjana er 285 MW, með orkuvinnslugetu upp á meira en tvær terawattstundir árlega. Með þeim jókst orkuvinnslugetan um tæp 20%. Ekki er því hægt að segja að fyrirtækið hafi slegið slöku við í uppbyggingu raforkukerfisins á öðrum áratug aldarinnar, öðru nær. Í grófum dráttum hélt orkuvinnslugetan í við eftirspurn.

Eftirspurnin vex nú hins vegar hröðum skrefum. Hjá heimilum og smærri fyrirtækjum nemur sú aukning um 5-10 MW á ári. Þá eru mikil og orkufrek uppbyggingaráform hjá áhugaverðum viðskiptavinum í matvælavinnslu og gagnaverum, svo dæmi séu tekin. Og enn eru orkuskiptin, það stóra og mikilvæga verkefni, ótalin.

Þungt og fjárfrekt leyfisveitingaferli

Við hjá Landsvirkjun höfum á síðustu árum lagt mikla áherslu á að undirbúa næstu virkjanir. Við eigum nokkra kosti í orkunýtingarflokki rammaáætlunar og höfum hafið vinnu við umfangsmikið leyfisveitingaferli í þeim öllum.

Nú stefnum við á að hefja framkvæmdir við fjögur verkefni, Hvammsvirkjun, stækkun Þeistareykjavirkjunar, stækkun Sigölduvirkjunar og Búrfellslund. Gallað leyfisveitingaferli hefur seinkað framkvæmdum við Hvammsvirkjun og vegna deilna sveitarfélaga við ríkið um tekjuskiptingu hefur ekki verið hægt að hefjast handa við Búrfellslund.

Við vinnum líka að undirbúningi annarra virkjanakosta í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Til marks um umfang slíkrar þróunarvinnu nema fjárfestingar Landsvirkjunar þegar á annan tug milljarða króna, þó enn hafi ekki verið sótt um virkjanaleyfi sem er lokahnykkur á löngu ferli virkjanaframkvæmda.

Þunglamalegt leyfisveitingakerfi okkar er ekkert lögmál. Nú þegar þjóðir heims leitast við að sporna gegn loftslagsvánni og hraða uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu er illt til þess að hugsa að manngerð tregða í kerfinu valdi því að við missum það forskot sem við höfum svo lengi búið að á Íslandi.

Hér er alls ekki verið að fara fram á að slakað verði á þeim kröfum sem gerðar eru til orkufyrirtækja um viðunandi rannsóknir og undirbúningsvinnu fyrir virkjunarkosti. Við höfum þekkingu og reynslu til að vinna það jafn vel hér eftir eins og hingað til. En kerfið þarf að bæta, á því leikur enginn vafi.

Mikilvægt er að orkufyrirtæki hafi nógu marga virkjanakosti í orkunýtingarflokki rammaáætlunar til að mæta raforkuþörf næstu 15 ára. Miðað við raforkuspá Landsnets ætti það ekki að vera óleysanlegt verkefni.

Metnaðarfull markmið í loftslagsmálum

Íslendingar hafa sett sér metnaðarfull markmið í loflagsmálum. Annars vegar með þátttöku í Parísarsamkomulaginu sem lýtur að því m.a. að draga úr losun frá samgöngum á landi og frá fiskveiðum. Hins vegar eru okkar eigin markmið um að hætta að nota jarðefnaeldsneyti almennt. Mögulegur hraði í orkuskiptum ræðst af miklu fleiru en aðgengi að endurnýjanlegri raforku, næstu 10-15 árin ræðst hann af mögulegri tækni, vilja orkunotenda til orkuskipta og stuðningi stjórnvalda.

Í ágætri raforkuspá Landsnets er gert ráð fyrir að orkunotkun aukist um 6 terawattstundir fram til 2035. Það er vissulega mikil aukning en þó minni en margir hafa talið. Ræðst það af þeirri staðreynd að orkuskipti í millilandaflugi og siglingum eru skammt á veg komin og gerast að líkindum að mestu eftir 2035.

Landsnet gerir ráð fyrir kraftmiklum orkuskiptum í samgöngum á landi sem er mjög mikilvægt til að uppfylla skuldbindingar Íslands. Til þess að þetta gangi eftir þarf að vera mikill vilji til orkuskipta en sá vilji mun ekki myndast nema ríkir efnahagshvatar séu til staðar. Þrátt fyrir oft hástemmdar yfirlýsingar eru ákvarðanir í rekstri fyrirtækja fyrst og fremst teknar út frá hagkvæmnisjónarmiðum. Það þarf að gera notkun grænnar orku að ódýrasta kostinum. Því miður er notkun kola og olíu enn hagkvæm og þjóðir heims niðurgreiða þá orkuvinnslu með yfir 600 milljörðum dollara á ári hverju. Grænu lausnirnar eru því oft mun dýrari en þær gráu, bæði hvað varðar fjárfestingar og rekstur.

Stjórnvöld þurfa því að breyta leikreglunum ef við ætlum að ná árangri. Við þurfum að auka skattlagningu á fjárfestingum í tækjum sem nýta jarðefnaeldsneyti og skattleggja það eldsneyti enn frekar. Og við þurfum í upphafi að styrkja fyrirtæki til að fjárfesta í vinnslu á grænum orkugjöfum og hygla þeim sem kaupa tæki sem nýta græna orkugjafa. Mikilvægt er að skapa skýra sýn á hagrænan langtímaávinning fyrirtækjanna af orkuskiptunum.

Umræðan á Íslandi er því miður oft mjög grunn. Talað er um undanþágur frá ETS kerfinu í flugi og millilandasiglingum og stjórnmálamenn sem tala fyrir ETS lausnum sakaðir um að vinna gegn hagsmunum Íslands. Kerfi um upprunaábyrgðir, þar sem samfélagslega ábyrgir raforkunotendur ákveða á eigin forsendum að greiða aukalega til að styðja við uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu, verður skotspónn upplýsingaóreiðu og útúrsnúninga.

Bein rafvæðing og rafeldsneyti

Miðað við núverandi tækni er ljóst að orkuskiptin verða blanda af beinni rafvæðingu og nýtingu á rafeldsneyti og lífeldsneyti. Notkun á grænu rafeldsneyti er nánast engin í dag en mörg verkefni í undirbúningi.

Stjórnvöld þurfa að hafa skýra langtímasýn. Allar nágrannaþjóðir okkar hafa mótað sér vegvísa um orkuskipti og rafeldsneyti miðað við stöðu tækninnar og eigin skuldbindingar. Vegvísarnir gegna mikilvægu hlutverki til upplýstrar umræðu og eru grunnur að forgangsröðun orkuskiptaverkefna.

Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki:

  • Þau þurfa að taka afstöðu til hvort eigi að reyna að loka stóriðju til að mæta orkuþörf næstu 15 ára.
  • Þau þurfa að tryggja nægjanlega marga kosti til þess að mæta orkuþörf næstu 15 ára í orkunýtingarflokki rammaáætlunar.
  • Þau þurfa að tryggja skilvirka leyfisveitingarferla stofnana og sveitarfélaga.
  • Þau þurfa að hafa skýra og raunhæfa tíma- og kostnaðaráætlun fyrir orkuskipti í samgöngum á landi, sjó og í flugi.
  • Þau þurfa að móta orkuskipta- og rafeldsneytisvegvísi fyrir Ísland og uppfæra hann reglulega eftir því sem tækninni fleygir fram.
  • Þau þurfa að skapa skýra efnahagslega hvata fyrir fyrirtæki til að hefja kraftmikil orkuskipti sem fyrst.

Ef okkur tekst þetta munu orkufyrirtækin hafa alla burði til að mæta þeirri eftirspurn sem orkunotendurnir kalla eftir vegna orkuskipta og framþróunar atvinnulífsins og Ísland uppfylla skuldbindingar sínar í loftslagsmálum.