Sektað fyrir of lágt raforkuverð

18.08.2025Fyrirtækið

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í dag að Landsvirkjun hafi selt Landsneti rafmagn á of lágu verði á árunum 2017 til 2021.

Sektað fyrir of lágt raforkuverð

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í dag að Landsvirkjun hafi selt Landsneti rafmagn á of lágu verði á árunum 2017 til 2021. Forsaga málsins er sú að til fjölda ára keypti Landsnet rafmagn í sérstökum útboðum. Um er að ræða rafmagn sem er Landsneti nauðsynlegt til að bæta upp fyrir orku sem tapast í flutningskerfinu, svokölluð flutningstöp. Landsnet annast rekstur flutningskerfisins og innheimtir kostnað af rekstri þess, þar á meðal vegna flutningstapa, frá notendum, þ.e. stórnotendum, heimilum, stofnunum og fyrirtækjum.

Raforkuöryggi og samfélagsleg ábyrgð raforkuframleiðenda

Kaup Landsnets á rafmagni til að bæta fyrir flutningstöp eru forsenda þess að tryggja megi örugga afhendingu rafmagns til almennra nota fyrir heimili og fyrirtæki. Kaupin eru af þeim sökum afar mikilvægur þáttur í því að tryggja orkuöryggi í landinu. Landsvirkjun hélt til fjölda ára eftir raforku í kerfum sínum sem var ætlað að tryggja nægt framboð til Landsnets. Engar slíkar skyldur hvíla á raforkuframleiðendum að lögum enn sem komið er, þrátt fyrir augljósa þörf fyrir reglusetningu um þetta efni.

Nýjar markaðsskilgreiningar

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sem birt var í dag var í fyrsta sinn tekin afstaða til þess hvernig skilgreina bæri markað vegna kaupa Landsnets á rafmagni til flutningstapa. Afstaða Samkeppniseftirlitsins er sú að um sjálfstæðan markað sé að ræða á smásölustigi. Af þeirri skilgreiningu leiði að Landvirkjun hafi verið skylt að haga verðlagningu í útboðum Landsnets með þeim hætti að sölufyrirtækjum, s.s. N1, sem keyptu raforku af Landsvirkjun í heildsölu væri gert mögulegt að bjóða lægra en Landsvirkjun í umræddum útboðum. Nánar tiltekið að samkeppnislögin standi vörð um milliliði sem hvergi er að finna fordæmi fyrir hvorki á Íslandi né í Evrópu.

Ákvörðunin kemur á óvart og verður kærð

Landsvirkjun er ósammála niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins og þeirri markaðsskilgreiningu sem byggt er á enda sé ljóst að Landsnet er, samkvæmt fyrirkomulagi raforkuviðskipta á Íslandi, kaupandi raforku á efra sölustigi en ekki endanotandi. Var það endanlega staðfest í síðasta mánuði þegar Landsnet keypti alla þá orku sem tapaðist í flutningskerfinu beint í gegnum heildsölumarkað í stað sérstakra útboða eins og áður hafði verið.

Þá eru það Landsvirkjun mikil vonbrigði að Samkeppniseftirlitið hafi séð ástæðu til að beita refsikenndum viðurlögum í málinu enda er ákvörðun eftirlitsins réttarskýrandi um nýtt samkeppnislegt álitaefni. Þá hefur þátttöku Landsvirkjunar í útboðum Landsnets fyrst og síðast verið ætlað að uppfylla samfélagslegar skyldur Landsvirkjunar og tryggja raforkuöryggi á Íslandi.

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins verður skotið til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.

Nánari upplýsingar veitir Þóra Arnórsdóttir, thora.arnorsdottir@landsvirkjun.is, s. 869 7838