Undirbúningsvinna heldur áfram
Umsókn Landsvirkjunar byggði á bráðabirgðaheimild sem Umhverfis- og orkustofnun veitti 11. ágúst, í samræmi við ný ákvæði raforkulaga. Ákvörðun sveitarstjórnar byggir einnig á jákvæðum umsögnum fagnefnda sveitarfélagsins, sem funduðu líka um málið. Fyrra framkvæmdaleyfi var fellt úr gildi um leið.
Með leyfinu getur Landsvirkjun haldið áfram undirbúningsvinnu á svæðinu sem einkum felst í gerð aðkomuvegar og annarri vegagerð innan framkvæmdasvæðis og efnisvinnslu fyrir vegagerð, þ.m.t. efnisvinnslu fyrir Búðafossveg, auk raf-, fjar- og hitavatnsveitu vinnubúða- og framkvæmdasvæðis.
Efnisvinnsla felur í sér sprengingar og forskurð á bergi í efsta hluta fyrirhugaðs frárennslisskurðar. Framkvæmdaleyfisumsóknin tekur ekki til framkvæmda sem eru í eða við vatnsfarvegi og munu framkvæmdirnar því hvorki hafa bein eða óbein áhrif á vatnshlot, ástand vatnshlota eða umhverfismarkmið þeirra.
Hvammsvirkjun, 95 MW vatnsaflsvirkjun í neðri hluta Þjórsár, mun framleiða um 740 GWst á ári og styrkja raforkuöryggi landsins. Framkvæmdirnar eru hluti af áætlunum um að mæta aukinni raforkuþörf, styðja orkuskipti og skapa ný tækifæri í atvinnulífinu.