Landsvirkjun hóf fyrir 10 árum að vekja athygli á því við stjórnvöld að við setningu raforkulaganna árið 2003 hefði farist fyrir að skýra hver bæri ábyrgð á raforkuöryggi á Íslandi. Stjórnvöld boða loks frumvarp nú á haustþingi til að taka á þessu brýna atriði. Þrátt fyrir að Landsvirkjun beri ekki þessa ábyrgð höfum við, sem orkufyrirtæki þjóðarinnar, tekið að okkur að tryggja raforkuöryggi í landinu í því tómarúmi sem ríkt hefur á þessu tímabili.
Á hverju byggðu þessar áhyggjur okkar? Hvað getur gerst ef ekki er nægt framboð orku fyrir flutningstöp? Annars vegar er hætta á kerfishruni, ef sú staða kemur upp að Landsnet geti ekki aflað nægrar orku í flutningstöpin. Slík staða verður aðeins leyst með neyðarlögum og miklum tilkostnaði fyrir íslenska ríkið. Hins vegar er hætta á því að kostnaður við flutningstöp hækki mikið, sem lendir beint á raforkukaupendum.
Fljótlega kom í ljós að áhyggjur okkar af raforkuöryggi voru ekki óþarfar. Í lok október 2021 kynnti Samkeppniseftirlitið Landsvirkjun það sjónarmið sitt að flutningstöp ætti að skilgreina sem smásölu. Aðeins þrjátíu dögum síðar þurfti Landsvirkjun að tilkynna um skerðingar á afhendingu til viðskiptavina, þegar innrennsli til miðlana brást. Öll tiltæk orka var tryggð heildsölunni, líka sú orka sem hafði verið áætlað að selja í flutningstöpin, enda voru þau nú komin á lægra sölustig.
Þá raungerðist það sem að framan er nefnt; neyðarástand kom upp í raforkukerfinu. Hársbreidd munaði að kerfishrun yrði þegar Landsnet var langt frá því að fá fullnægjandi tilboð fyrir orku í flutningstöpin. Þá varð dagljóst að milliliðir gátu með engu móti talist keppinautar, enda ekki framleiðendur. Það er mjög krefjandi og flókið verkefni að halda jafnvægi í 100% endurnýjanlegu raforkukerfi, þar sem þarf að sjá til þess að framleiðslan uppfylli orkuþörfina hverja einustu sekúndu sólarhringsins.
Erlendis er það mjög skýrt í lögum að raforkuöryggi gengur framar samkeppnislögum. Hérlendis flutu stjórnvöld lengi sofandi að feigðarósi og tryggðu ekki raforkuöryggi. Stjórnendur Landsvirkjunar taka hlutverk sitt mjög alvarlega og þótt ábyrgðin á raforkuöryggi hvíli ekki á fyrirtækinu samkvæmt lögum, þá höfum við það ávallt í huga við allar ákvarðanir sem teknar eru. Í þessu tilfelli, þegar stefndi í kerfishrun, var ákveðið að fara út fyrir viðunandi áhættustig og færa vatnsstöðuna í lónunum lengra niður en viðmiðunarmörk okkar hafa leyft hingað til - svo Íslendingar myndu ekki vakna við að ekki kviknaði á ljósunum.