Landsbyggð kaupir fyrrum höfuðstöðvar Landsvirkjunar

20.08.2025Fyrirtækið

Landsvirkjun hefur gengið frá sölu á fyrrum höfuðstöðvum fyrirtækisins að Háaleitisbraut 68 í Reykjavík. Kaupandinn er fasteigna- og þróunarfélagið Landsbyggð ehf. Kaupverðið er rúmir 1,2 milljarðar kr. Húseignin er 4.555 m² eða um 56% af skráðri stærð alls hússins.

Höfuðstöðvar í hálfa öld

Orkufyrirtæki þjóðarinnar var í tæpa hálfa öld til húsa á Háaleitisbrautinni. Það húsnæði þótti ekki lengur hentugt fyrir starfsemina. Í júní í fyrra samþykkti stjórn fyrirtækisins að selja húsið, en Landsvirkjun hafði þá komið sér fyrir í húsnæði við Katrínartún þar sem hún mun hafa aðsetur þar til nýjar höfuðstöðvar verða tilbúnar. Þær er áformað að reisa austast á Bústaðavegi í Reykjavík, þar sem Landsvirkjun keypti lóðir í febrúar sl.

Húsið að Háaleitisbraut 68 var auglýst til sölu í apríl sl. og bárust sex tilboð. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku banka hafði umsjón með söluferlinu.

Landsbyggð er fasteigna- og þróunarfélag sem sérhæfir sig í uppbyggingar- og umbreytingarverkefnum um allt land og hefur meðal annars staðið að uppbyggingunni í miðbæ Selfoss í gegnum dótturfélagið Sigtún þróunarfélag ehf. Í júlí sl. keypti Landsbyggð gömlu höfuðstöðvar Landsbankans við Austurstræti 11 í Reykjavík, eitt af þekktari kennileitum miðborgarinnar, og vinnur nú að áætlunum um nýtingu þess.

Húsið nýtt á fjölbreyttan hátt

Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni hjá Landsvirkjun:

„Við hjá Landsvirkjun fögnum því að gömlu höfuðstöðvarnar okkar séu komnar í hendur nýrra eigenda sem hafa mikla reynslu af uppbyggingar- og umbreytingaverkefnum. Það fór vel um okkur áratugum saman á þessum einstaka útsýnisstað í miðri borginni með góðum grönnum. Við einbeitum okkur núna að því að undirbúa byggingu nýrra höfuðstöðva. Það mál er komið á rekspöl þótt endanlegar ákvarðanir um uppbyggingu liggi ekki fyrir.“

Guðjón Auðunsson, stjórnarformaður Landsbyggðar ehf.:

„Við sjáum fram á að nýta þetta hús á fjölbreyttan og metnaðarfullan hátt. Staðsetningin er frábær, miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu og nálægt helstu samgönguæðum. Við teljum að húsið geti orðið fyrsta flokks atvinnuhúsnæði þar sem fara saman skrifstofu-, þjónustu- og verslunarrými.“