Á aðalfundi Landsvirkjunar sem haldinn var í dag, 30. apríl, skipaði fjármála- og efnahagsráðherra í stjórn fyrirtækisins, í samræmi við lög sem um það gilda.
Aðalmenn í stjórn Landsvirkjunar eru Jón Björn Hákonarson, Jens Garðar Helgason, Álfheiður Ingadóttir, Soffía Björk Guðmundsdóttir og Gunnar Tryggvason.
Varamenn í stjórn Landsvirkjunar eru Guðveig Eyglóardóttir, Halldór Karl Högnason, Ragnar Óskarsson, Sigurjón Þórðarson og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.
Aðalfundurinn staðfesti skýrslu fráfarandi stjórnar og reikning fyrir liðið reikningsár. Jafnframt var samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 30 milljarðar króna fyrir árið 2023.
Arðgreiðslur Landsvirkjunar eru ákveðnar á grundvelli arðgreiðslustefnu fyrirtækisins.
Deloitte ehf. var kosið endurskoðunarfyrirtæki Landsvirkjunar. Heimir Haraldsson, endurskoðandi, var kjörinn utanaðkomandi nefndarmaður í endurskoðunarnefnd fyrirtækisins.
Á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund var Jón Björn Hákonarson kjörinn stjórnarformaður og Jens Garðar Helgason varaformaður.
Fráfarandi stjórnarformaður, Jónas Þór Guðmundsson, hefur gegnt stöðunni síðastliðinn áratug, næstlengst allra í sögu fyrirtækisins. Hann var skipaður í stjórn á aðalfundi félagsins árið 2014 og kjörinn formaður stjórnar í kjölfarið. Mikil umskipti hafa orðið í rekstri fyrirtækisins á þessum tíma. Fjárhagsstaðan hefur aldrei verið betri, skuldir aldrei lægri og eiginfjárhlutfall er hærra en nokkru sinni fyrr. Á sama tíma hafa þrjár nýjar virkjanir verið gangsettar. Í dag er Landsvirkjun með næsthæstu lánshæfiseinkunn orkufyrirtækja Norðurlandanna (A-) hjá S&P. Jónasi Þór eru þökkuð góð störf í þágu Landsvirkjunar.
Jón Björn Hákonarson, sem áður var varaformaður stjórnar og tekur nú við af Jónasi, var einnig fyrst skipaður í stjórn fyrirtækisins árið 2014. Hann hefur gegnt stöðu varaformanns stjórnar í fimm ár á þessu tímabili.