Fyrirhyggjan tryggir lágt og stöðugt verð
Raforkuverð til heimila og almennra fyrirtækja er lágt og stöðugt. Lykillinn að því er samningar sem gilda langt fram í tímann. Þeir skapa fyrirsjáanleika í verði til almennings og draga úr áhrifum af skammtíma verðsveiflum. Raforkuverð í viðskiptum skammt fram í tímann endurspegla svo stöðuna í raforkukerfinu hverju sinni, segja til um jafnvægi framboðs og eftirspurnar. Skammtímaviðskipti hafa til þessa verið mjög lítill hluti samanborið við langtímaviðskiptin.
Landsvirkjun selur raforku á almenna markaðnum til sölufyrirtækja sem selja hana áfram með álagningu til heimila og fyrirtækja, annarra en stórnotenda. Þau sölufyrirtæki sem nú starfa eru Atlantsorka, Fallorka, HS Orka, N1 Rafmagn, Orka heimilanna, Orka náttúrunnar, Orkubú Vestfjarða, Orkusalan og Straumlind. Landsvirkjun er með um 50% markaðshlutdeild á almennum markaði. Sölufyrirtæki sem eru með litla eða enga raforkuframleiðslu kaupa nánast alla sína orku af okkur.
Orka náttúrunnar er dótturfélag Orkuveitunnar sem m.a. var stofnuð til þess að sjá almenningi fyrir raforku og heitu vatni og framleiðir um 18% allrar raforku í landinu. HS Orka framleiðir um 8%. Þessi tvö fyrirtæki selja raforkuframleiðslu sína beint til almennings og stórnotenda, auk þess að kaupa raforku af Landsvirkjun sem ætluð er almenna markaðnum.