Ísland getur orðið fyrirmynd annarra ríkja í orkuskiptum

08.11.2021Orka

Landsvirkjun tekur þátt í COP26 í Glasgow

Orkuskipti eru lykillinn að sjálfbærum heimi, eru meginskilaboð Landsvirkjunar á COP26 loftslagsráðstefnunni, sem fer nú fram í Glasgow. Landsvirkjun tekur þátt í hliðarviðburðum ráðstefnunnar, m.a. í Heimsloftslagsfundinum, „World Climate Summit“, en þar talar Hörður Arnarson forstjóri á málstofunni Leiðir að kolefnislausri raforkuframtíð, „Pathways towards a Zero Carbon Electric Future,“ sem fer fram í dag.

Að mati Harðar er Ísland í dauðafæri til að vera fyrsta ríkið í heiminum sem verður alveg óháð jarðefnaeldsneyti, enda búum við Íslendingar yfir mikilli reynslu og þekkingu á vinnslu endurnýjanlegrar raforku. „Endurnýjanleg orka Landsvirkjunar er nauðsynleg fyrir orkuskipti Íslands og getur stutt við orkuskipti heimsins, meðal annars með útflutningi rafeldsneytis,“ segir Hörður. Hann telur að rafeldsneytisvæðing íslensks samfélags gæti orðið fyrirmynd annarra þjóða.

Auk fyrrnefndra pallborðsumræðna kemur Hörður fram á Sustainable Innovation Forum á miðvikudaginn 10. nóvember, þar sem hann tekur þátt í samtali um orkuskipti Íslands og rafeldsneyti, ásamt umhverfisráðherra Íslands. Íslandsstofa er með bás á Sustainable Innovation Forum. Þá kemur Landsvirkjun að ráðstefnunni með því að skipuleggja viðburð Alþjóða vatnsaflssamtakanna (IHA) í norræna skálanum.

COP er aðildarríkjaþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (Conference of Parties). COP26 er haldið í Glasgow 31. október til 12. nóvember 2021. Til hliðar við sjálft aðildarríkjaþingið eru ýmsar ráðstefnur og viðburðir þar sem m.a. fólk og fyrirtæki úr orkugeiranum koma saman til að ræða sitt hlutverk í baráttunni við loftslagsbreytingar.