Landsvirkjun hlýtur Loftslags­viðurkenningu Festu og Reykjavíkur­borgar

19.11.2021Umhverfi

Orka úr endurnýjanlegri auðlind með lágu kolefnisspori

Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri sviðs Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, tók við Loftslagsviðurkenningunni úr hendi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Aðrir fulltrúar Landsvirkjunar voru Hörður Arnarson, forstjóri og Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður Loftslags og umhverfis.
Jóna Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri sviðs Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun, tók við Loftslagsviðurkenningunni úr hendi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Aðrir fulltrúar Landsvirkjunar voru Hörður Arnarson, forstjóri og Jóhanna Hlín Auðunsdóttir, forstöðumaður Loftslags og umhverfis.

Landsvirkjun hlýtur Loftslagsviðurkenningu Reykjavíkurborgar og Festu í ár. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Líf Magneudóttir formaður dómnefndar afhentu viðurkenninguna á árlegum Loftslagsfundi Festu og Reykjavíkurborgar sem haldinn var í Hörpu í dag. Þetta er í fimmta sinn sem Loftslagsviðurkenningin er afhent og er hún veitt aðilum sem hafa sýnt fram á árangur með aðgerðum eða nýjum lausnum sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sérstaka hvatningarviðurkenningu hlýtur verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður sem er samstarfsverkefni Ráðgjafarmiðstöðvar Landbúnaðarins, Landgræðslunnar, Skógræktarinnar, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur meðal annars fram að Landsvirkjun stefni að kolefnishlutleysi árið 2025 og fyrirtækið hefur um árabil birt loftslagsbókhald staðfest af ytra aðila. Þá hafi fyrirtækið fengið háa einkunn hjá alþjóðlega aðilanum Carbon Disclosure Project - CDP eða A- og haldið úti rauntíma mælaborði á aðgerðir í loftslagsmálum. Einnig að fyrirtækið hafi átt viðamikið samstarf varðandi nýsköpun og afurð fyrirtækisins sé orka úr endurnýjanlegri auðlind með lágu kolefnisspori. Einnig kemur fram að Landsvirkjun hefur dregið úr beinni losun (umfang 1) um 3.171 tonn CO2 ígilda á milli áranna 2019 og 2020 eða 8%.

Samþætting aðgerða þurfi að vera í anda neyðarviðbragða og kapphlaups

Loftslagsfundurinn í ár var haldinn í samstarfi við Loftslagsráð og var markmið hans að kafa ofan í þær breytingar sem framundan eru og tengjast loftslagsmálum, fyrirhugaðar lagabreytingar og hvernig fyrirtæki þurfa að bregðast við þannig að árangur náist í að draga úr losun. Það kom fram í erindi Halldórs Þorgeirssonar formanns Loftslagsráðs að samþætting aðgerða þurfi að vera í anda neyðarviðbragða og kapphlaups. Auk Halldórs tóku til máls, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra, Tómas N. Möller formaður Festu, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, Egill Ö. Hermannsson varaformaður Ungra Umhverfissinna og Dr. Anna Hulda Ólafsdóttir yfirmaður skrifstofu um loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni en hún sagði meðal annars í sínu erindi að „aðlögun felur í sér stefnumótun og aðgerðir sem auka hæfni samfélaga til að takast á við bæði neikvæð og jákvæð áhrif loftslagsbreytinga."

Í kjölfar erinda voru haldnar pallborðsumræður þar sem rætt var meðal annars um mikilvægi þess að koma á virkum markaði um kolefnisjöfnun á Íslandi. Fyrr um morguninn bættust ellefu fyrirtæki við þau 157 sem höfðu áður skrifað undir Loftslagsyfirlýsingu Festu og Reykjavíkurborgar og skuldbinda sig þannig að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri:

„Loftslagsmálin þurfa á öllum að halda. Það vekur mér bjartsýni að sjá hvað Loftslagsyfirlýsing Reykjavíkurborgar og Festu frá 2015 hefur leitt af sér mikinn árangur og áhuga í íslensku atvinnulífi. Enn eru fleiri leiðandi fyrirtæki að bætast við, setja sér markmið og skrá árangurinn. Loftslagsmálin verða ekki leyst öðruvísi en með breiðu samstarfi allra í samfélaginu og raunar heiminum öllum en þar er atvinnulífið og borgirnar sérstaklega mikilvægur hlekkur, þar verður mestur útblásturinn til og þaðan koma lausnirnar líka. Reykjavík vill vera leiðandi og í virku samstarfi við atvinnulífið í loftslagsmálum. Við viljum draga til borgarinnar nýja fjárfestingu og ný verkefni í grænum lausnum. Ég hef einnig stungið upp á því nýlega að við komum okkur upp kerfi sem býr til samkeppni milli fyrirtækja í átt að kolefnishlutleysi. Nokkurs konar gull, silfur, brons kerfi þar sem gullið væri að kolefnishlutleysi væri náð, silfur væri fyrir fyrirtæki sem hefðu sett sér áætlun um kolefnishlutleysi og bronsið væri fyrir þá sem hefðu sett sér önnur markmið, en markmið þó.“

Hrund Gunnsteinsdóttir framkvæmdastjóri Festu:

„Viðskiptamódel, lög, reglur og upplýsingagjöf tengd rekstri, forgangsröðun fjárfesta, neytenda, starfsmanna og lánveitenda er að breytast gríðarlega hratt út af loftslagsbreytingum og tækniþróun. Loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna fyrr í mánuðinum skerpti mjög á stöðunni, aðgerðum og tækifærum sem við þurfum að grípa til ef við ætlum að vera samkeppnishæf og vera hluti af spennandi tækifærum. Hlutverk Festu er að styðja við og hraða vegferð okkar að því að sjálfbærni sé grunn strategía í rekstri. Það er viðskiptamódelið sem kallað er eftir."

Jóna Bjarnadóttir framkvæmdastjóri sviðs Samfélags og umhverfis hjá Landsvirkjun:

„Við erum afar stolt af þessari viðurkenningu á stefnu okkar og störfum undanfarin ár, þar sem allt starfsfólk hefur lagst á eitt svo við getum verið leiðandi í loftslagsmálum. Við munum sannarlega halda áfram á sömu braut og þessi viðurkenning er okkur hvatning til þess.“ Sagði Jóna við afhendingu Loftslagsviðurkenningarinnar í dag.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar:

„Við tökum loftslagsbreytingum alvarlega og það endurspeglast í allri okkar starfsemi. Endurnýjanlega orkuvinnslan okkar veitir okkur mikið forskot og Landsvirkjun mun áfram leggja sitt af mörkum til að við náum þeim árangri í loftslagsmálum sem stefnt er að. Íslendingar geta orðið fyrsta þjóð í heimi til að losa sig við jarðefnaeldsneyti og við getum klárað full orkuskipti á næstu árum. Orkumálin eru loftslagsmál.“

Í umsögn dómnefndar um Loftslagsvænan landbúnað segir:

„Verkefnið miðar að því, með fræðslu, að hvetja bændur til markvissra loftslagsaðgerða og nýsköpunar. Í dag eru 40 bændur þátttakendur í verkefninu og er stutt með beinum hætti við þeirra eigin markmiðasetningu í loftslagsmálum með fræðslu og ráðgjöf. Búrekstrargögn eru sett inn í kolefnisreiknivél þar sem kolefnisígildi búsins eru reiknuð út. Lögð er áhersla á að samþætta rekstrarlegan ávinning og loftslagsávinning þátttakenda.“

Ómetanleg hvatning fyrir bændur

„Loftslagsvænn landbúnaður þakkar kærlega fyrir þessa mikilsverðu viðurkenningu. Hún er ómetanleg hvatning fyrir bændur til að vera virkir þátttakendur í loftslags vegferðinni og eflir okkur sem stöndum á bak við verkefnið að halda ótrauð áfram. Styrkur verkefnisins felst í öflugu samstarfi þriggja fagaðila og tveggja ráðuneyta sem er eitt af lykilatriðum þess að vel takist til við að finna lausnir á því hvernig bændur geti unnið að loftslagsmálum á jákvæðan hátt,“ segir Berglind Ósk Alfreðsdóttir, verkefnastjóri Loftslagsvæns landbúnaðar.

Í dómnefnd Loftslagsviðurkenningar Festu og Reykjavíkurborgar sátu Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs (fulltrúi Reykjavíkurborgar), Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marel (fulltrúi Festu) og Lára Jóhannsdóttir, prófessor í umhverfis- og auðlindafræðum (fulltrúi Háskóla Íslands).