Farsælt samstarf um árabil
Landsvirkjun og Landsnet hafa veitt Brunavörnum Þingeyjarsveitar styrk til kaupa á One-7 slökkvikerfi í tvær bifreiðar í eigu slökkviliðsins. Slökkvikerfið sjöfaldar slökkvimátt þess vatns sem er notað auk þess sem það dregur verulega úr mengun vegna slökkvistarfa frá því sem áður var. Efni One-7 slökkvifroðunnar eru lífniðurbrjótanleg (e. biodegradable) sem er sérstaklega mikilvægur eiginleiki til að draga úr álagi á viðkvæm vistkerfi sem eru á svæðinu og í nágrenni orkuvinnslusvæða Landsvirkjunar.
Landsvirkjun og Landsnet hafa um árabil átt farsælt samstarf við Brunavarnir Þingeyjarsveitar enda bæði fyrirtækin með mikla starfsemi í sveitarfélaginu. Dæmi um slíkt samstarf er þjálfun og æfingar í virkjunum Landsvirkjunar og tengivirkjun Landsnets sem stuðla að auknu öryggi og betri viðbrögðum við hugsanlegum eldsvoðum. Með reglulegum æfingum og markvissri þjálfun er tryggt að slökkviliðið sé vel undirbúið fyrir hvers konar aðstæður. Með tilkomu nýja kerfisins er stuðlað að sérstaklega hröðu og skilvirku slökkvistarfi með lágmarks umhverfisáhrifum, bæði í tengslum við starfsemi fyrirtækjanna tveggja og einnig nærsamfélagsins alls.
Landsvirkjun leggur nú fram 15 milljónir kr. og Landsnet 3 milljónir. Samanlagt verð slökkvikerfisins er um 20-25 milljónir króna og sveitarfélagið greiðir það sem út af stendur.