Öflugri brunavarnir með stuðningi Landsvirkjunar og Landsnets

04.07.2025Fyrirtækið, Samfélag

Landsvirkjun og Landsnet hafa veitt Brunavörnum Þingeyjarsveitar styrk til kaupa á One-7 slökkvikerfi í tvær bifreiðar í eigu slökkviliðsins.

Á myndinni eru: Arnór Benónýsson sveitarstjórnarmaður, Gerður Sigtryggsdóttir oddviti, Vordís Eiríksdóttir forstöðumaður hjá Landsvirkjun og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri
Á myndinni eru: Arnór Benónýsson sveitarstjórnarmaður, Gerður Sigtryggsdóttir oddviti, Vordís Eiríksdóttir forstöðumaður hjá Landsvirkjun og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri

Farsælt samstarf um árabil

Landsvirkjun og Landsnet hafa veitt Brunavörnum Þingeyjarsveitar styrk til kaupa á One-7 slökkvikerfi í tvær bifreiðar í eigu slökkviliðsins. Slökkvikerfið sjöfaldar slökkvimátt þess vatns sem er notað auk þess sem það dregur verulega úr mengun vegna slökkvistarfa frá því sem áður var. Efni One-7 slökkvifroðunnar eru lífniðurbrjótanleg (e. biodegradable) sem er sérstaklega mikilvægur eiginleiki til að draga úr álagi á viðkvæm vistkerfi sem eru á svæðinu og í nágrenni orkuvinnslusvæða Landsvirkjunar.

Landsvirkjun og Landsnet hafa um árabil átt farsælt samstarf við Brunavarnir Þingeyjarsveitar enda bæði fyrirtækin með mikla starfsemi í sveitarfélaginu. Dæmi um slíkt samstarf er þjálfun og æfingar í virkjunum Landsvirkjunar og tengivirkjun Landsnets sem stuðla að auknu öryggi og betri viðbrögðum við hugsanlegum eldsvoðum. Með reglulegum æfingum og markvissri þjálfun er tryggt að slökkviliðið sé vel undirbúið fyrir hvers konar aðstæður. Með tilkomu nýja kerfisins er stuðlað að sérstaklega hröðu og skilvirku slökkvistarfi með lágmarks umhverfisáhrifum, bæði í tengslum við starfsemi fyrirtækjanna tveggja og einnig nærsamfélagsins alls.

Landsvirkjun leggur nú fram 15 milljónir kr. og Landsnet 3 milljónir. Samanlagt verð slökkvikerfisins er um 20-25 milljónir króna og sveitarfélagið greiðir það sem út af stendur.

Aukið öryggi fyrir samfélagið

„Við erum afar ánægð með þetta samstarf við Brunavarnir Þingeyjarsveitar. Með sameiginlegu átaki tryggjum við betri brunavarnir og aukum öryggi bæði fyrir starfsfólk okkar og samfélagið í heild. Stuðningurinn við kaupin á One-7 kerfinu undirstrikar einnig stuðning okkar við umhverfisvernd,“ segir Vordís Eiríksdóttir, forstöðumaður reksturs jarðvarma hjá Landsvirkjun.

„Við lítum á samstarfið við Brunavarnir Þingeyjarsveitar með afar jákvæðum augum. Það stuðlar að auknu öryggi, sem er gríðarlega mikilvægt. Samstarfið snýr einnig að fræðslu og þjálfun – sem eykur bæði persónulegt öryggi í umgengni við háspennu og styrkir rekstraröryggi, sérstaklega nú þegar svo öflugur og umhverfisvænn búnaður eins og One-7 er kominn til sögunnar,“ segir Halldór Halldórsson, öryggisstjóri Landsnets.

„Brunavarnir í Þingeyjarsveit stóreflast með þessum samningi og við höfum tekið stórt skref í átt að öruggara og sjálfbærara samfélagi,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir sveitarstjóri. „Við fögnum því að eiga hauka í horni hjá þeim öflugu fyrirtækjum sem starfa í sveitarfélaginu og eru reiðubúin að leggja sitt af mörkum til nærsamfélags síns.”

Skráning á póstlista

Skráðu þig á póstlista Landsvirkjunar. Við sendum reglulega út tölvupósta um viðburði og orkumál auk nýjustu frétta af fyrirtækinu.

Aðrar fréttir