Orkuauðlindir tryggja bjarta framtíð

29.12.2020Fyrirtækið

Við höfum alla burði að verða meðal fyrstu ríkja, jafnvel fyrst ríkja, til að losa okkur alveg við jarðefnaeldsneyti. Ísland getur leitt þessa þróun og Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, er reiðubúin til að gegna leiðtogahlutverki í slíkri byltingu.

Við viljum flest hætta að nota olíu, kol og gas af því að við vitum með vissu hvaða skaða notkunin veldur. Við erum að renna út á tíma og þurfum öll að leggjast á eitt til að tryggja orkuskipti þar sem sjálfbær orka úr endurnýjanlegum auðlindum tekur að fullu við sem orka framtíðarinnar. Nú blasir við vegferð að fullkomnu orkusjálfstæði Íslands sem bætir lífskjör okkar og komandi kynslóða. Við höfum alla burði að verða meðal fyrstu ríkja, jafnvel fyrst ríkja, til að losa okkur alveg við jarðefnaeldsneyti. Ísland getur leitt þessa þróun og Landsvirkjun, orkufyrirtæki þjóðarinnar, er reiðubúin til að gegna leiðtogahlutverki í slíkri byltingu.

Við Íslendingar erum alls ekki á byrjunarreit, fjarri því. Yfir 80% af frumorkunotkun Íslands eru sjálfbær og við sjáum fjölmörg tækifæri til að gera betur. Það vill reyndar oft brenna við, þegar bent er á endurnýjanlega, umhverfisvæna raforkuvinnsluna, að menn láta eins og það skipti litlu því sú orka sé nýtt í mengandi starfsemi. Álverin eru þá gjarnan nefnd til sögunnar, en staðreyndin er sú, að þau eru með hvað lægsta kolefnisfótspor álfyrirtækja í heiminum. Ef Ísland hættir að framleiða ál og sú framleiðsla færist til Kína, þar sem raforka er að mestu unnin með kolum, mun losun í heiminum aukast um 10 milljón tonn af koltvísýringi árlega. Það er meira en tvöföld núverandi heildarlosun Íslands.

En þetta var útúrdúr. Við stöndum frammi fyrir miklu stærra verkefni en nemur orkusölu til einstakra viðskiptavina. Við þurfum að breyta allri orkunotkun okkar. Burt með bensín á fólksbíla, burt með flugvélabensín, dísilolíu á rútur, flutningabíla og vinnutæki og burt með svartolíuna á skipaflotann. Við viljum það, getum það og gerum það ef við fylgjum hugrakkri markmiðasetningu eftir með skipulagi og markvissri framkvæmd.

Arðurinn rennur til þjóðarinnar

Landsvirkjun er í eigu íslensku þjóðarinnar og hefur verið treyst fyrir því mikla verkefni að gæta orkuauðlinda hennar. Þær auðlindir nýtum við með sjálfbærni og hagkvæmni að leiðarljósi, um leið og við öxlum þá ábyrgð að skila þjóðinni sem mestum verðmætum. Ábyrg og hagkvæm nýting þessara einstöku auðlinda tryggir þjóðinni ekki aðeins hreina orku heldur einnig beinharða fjármuni til að standa undir kostnaði við menntakerfið, heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið – það sem gerir okkur að samfélagi.

Og nú geta þessar auðlindir, vatnsaflið, jarðvarminn og vindorkan tryggt okkur bjarta og hreina framtíð. Okkur eru hreinlega allar leiðir færar. Rafvæðing bílaflotans er þegar hafin. Við erum farin að huga að vetnisframleiðslu, með það í huga að vetnið nýtist sem eldsneyti á flota fólks- og vöruflutningabifreiða. Við ætlum okkur að finna leiðir til orkuskipta fiskveiðiflotans, jafnt rafvæðingu báta sem vetnis- eða rafeldsneytisvæðingu stærri skipa. Við ætlum okkur líka að kanna möguleika á rafhlöðu- og koltrefjaframleiðslu og höfum undirbúið stóra vindgarða, þar sem vindmyllur framleiða hreina raforku.

Þótt margar leiðir blasi við þá vitum við að fjölmargir vegir hafa enn ekki verið dregnir á kortið. Þess vegna höfum við stutt við ýmis konar nýsköpunarverkefni og gerum áfram. Þar má nefna verkefnið Eim á Norðurlandi sem hefur kortlagt orkuauðlindir á Norð-Austurlandi með sérstaka áherslu á sjálfbæra nýtingu þeirra og nýsköpun til eflingar byggðar og mannlífs.

Á Suðurlandi, stærsta orkuvinnslusvæði Landsvirkjunar, miðar Orkídea að uppbyggingu orkutengdra tækifæra, til dæmis við matvælaframleiðslu og líftækni, sprotastarfsemi og að undirbúa svæði fyrir orkutengda nýsköpun. Í báðum tilvikum starfar Landsvirkjun með heimafólki og hagaðilum.

Á Vestfjörðum er enn eitt samstarfsverkefnið sem horfir til nýsköpunar í orkuskiptum og samgöngum, á landi og sjó.

Enn eru nýsköpunarverkefni: MýSilica verður fyrsta fyrirtækið sem vinnur steinefnaríkt hráefni úr jarðhitavatni frá orkuvinnslu við Bjarnarflag við Mývatn og MýSköpun leitar leiða til að þróa, framleiða og markaðssetja verðmætar neytendavörur úr þörungum við Mývatn. Landsvirkjun hefur á liðnum árum einnig stutt við fyrirtæki á borð við Laki Power, Keynatura, DT Equipment og Admonia.

Útflutningur orku er raunhæfur möguleiki. Landsvirkjun og hafnaryfirvöld í Rotterdam eru að skoða hvort útflutningur á grænu vetni frá Íslandi gæti verið góður kostur. Þar væri Landsvirkjun ekki eingöngu að tryggja þjóðinni arð af orkuauðlindum sínum, heldur einnig hátæknistörf og afleidda þekkingar- og verðmætasköpun slíkrar starfsemi hérlendis, auk þess að aðstoða íbúa meginlands Evrópu við nauðsynleg orkuskipti. Markaður fyrir vetni verður gríðarstór áður en langt um líður. Áður hefur verið fjallað um möguleikann á lagningu sæstrengs, sem er önnur leið til að selja hreina orku til annarra landa. Við getum dustað rykið af honum ef og þegar okkur sýnist það þjóna heildarhagsmunum þjóðarinnar.

Ástandið í loftslagsmálum er grafalvarlegt, um það verður ekki deilt. Við búum hins vegar svo vel hér á landi að geta ekki aðeins verið sjálfbær með græna orku, heldur einnig lagt mikið af mörkum til heimsins alls í baráttunni við loftslagsbreytingar. Við eigum ekki að skorast undan því gríðarmikla verkefni heldur taka því fagnandi. Orkufyrirtæki þjóðarinnar mun gera sitt, okkur öllum til hagsbóta.

Höfundur er forstjóri Landsvirkjunar