Rándýr leki fyrir (næstum) alla

27.12.2023Raforkuöryggi

Grein eftir Hörð Arnarson, forstjóra.

Rándýr leki fyrir (næstum) alla

Við Íslendingar höfum byggt upp öflugt orkukerfi sem er einstakt í heiminum, með sína 100% endurnýjanlegu orku. Lykillinn að því hefur verið að geta keppt á alþjóðlegum orkumarkaði og laðað þannig hingað til lands öflug framleiðslufyrirtæki í orkufrekum iðnaði. Það skilar sér nú í umtalsverðum arðgreiðslum Landsvirkjunar, orkufyrirtækis þjóðarinnar, í sameiginlega sjóði.

Almenningur hefur notið góðs af þessari uppbyggingu á marga vegu, en ekki síst með lágu og stöðugu orkuverði til heimila og smærri fyrirtækja. Þau nota um fimmtung þeirrar raforku sem framleidd er í landinu. Vöxturinn er 1-2% á ári, svo það ætti að vera nokkuð fyrirsjáanlegt hversu mikla orku þurfi að hafa til reiðu til að tryggja raforkuöryggi 99,9% allra raforkunotenda á landinu. Því miður eru blikur á lofti hvað það varðar.

Hvernig lekur á milli markaða?

Landsvirkjun bar lengi vel ábyrgð á raforkuöryggi almennings. Það fyrirkomulag var afnumið fyrir tuttugu árum þegar evrópskar raforkutilskipanir voru innleiddar á Íslandi. Forsvarsmenn fyrirtækisins hafa undanfarið reynt að vekja athygli stjórnvalda og stofnana á yfirvofandi hættu á svokölluðum leka á milli markaða, sem fylgifisks þess að raforkuöryggi er ekki bundið í lög.

Það sem er átt við með því er að nú þegar ekki er til nein aukaorka í kerfinu, er hætta á því að stórnotendur orku (sem eru skilgreindir sem öll fyrirtæki sem nota meira en 10 MW), hvort sem er ný eða gömul fyrirtæki, sæki orku inn á smásölumarkaðinn. Það er að segja í þessi 20% raforkuframleiðslunnar sem heimili og smærri fyrirtæki nota. Ef ekkert verður að gert getur sú raforka sem ætluð er heimilum og smærri fyrirtækjum þurrkast upp. Þegar hún er ekki lengur til staðar getur það leitt til algers kerfishruns.

Leyfi til að forgangsraða

Öll orkuvinnslufyrirtæki landsins, stór og smá, selja inn á þennan heildsölumarkað fyrir heimili og smærri fyrirtæki. Þar hefur Landsvirkjun lagt til um helming orkunnar. Önnur framleiðsla fyrirtækisins er bundin í langtímasamningum, svo það er ekki mögulegt að auka framboðið inn á heildsölumarkaðinn til muna með skömmum fyrirvara. Það ætti enda ekki að vera þörf á því, miðað við eðlilegan vöxt samfélagsins.

Við tilkynntum Orkustofnun í október síðastliðnum að pantanir á orku fyrir heildsölumarkaðinn (þ.e. fyrir heimili og smærri fyrirtæki) á næsta ári hefðu verið 25% meiri en sem nemur almennum vexti í samfélaginu. Það eitt staðfestir málflutning okkar um að orkan sem þangað fer og er ætluð heimilum og smærri fyrirtækjum, hlýtur að einhverju leyti að vera á leið eitthvert annað.

Það er þess vegna aðkallandi að lögfesta forgangsröðun í þágu heimila og smærri fyrirtækja og um leið hvaða stjórnvald eða stofnun beri ábyrgð á því að tryggja að orkan rati til þessa forgangshóps.

Pólitísk ákvörðun

Það er auðvitað hægt að fara þá leið að láta bara kylfu ráða kasti og sameina þessa tvo markaði. Þá keppa allir um sömu orkuna. En það erstór, pólitísk ákvörðun að opna á þann möguleika að verð á raforku til almennings hækki margfalt. Hún verður því að vera tekin aðyfirlögðu ráði en ekki með ómeðvituðu aðgerðaleysi.