Samningarnir við Norðurál

02.03.2021Viðskipti

Landsvirkjun og Norðurál hafa gert milli sín samkomulag um að aflétta trúnaði af rafmagnssamningum milli fyrirtækjanna tveggja.

Landsvirkjun og Norðurál hafa gert milli sín samkomulag um að aflétta trúnaði af rafmagnssamningum milli fyrirtækjanna tveggja. Það er von okkar að birtingin styðji við og auki opinbera og opna umræðu um orkumál á Íslandi.

Norðurál er þriðji stærsti viðskiptavinur Landsvirkjunar, en fyrirtækin hafa átt í farsælu samstarfi í meira en 20 ár. Landsvirkjun selur Norðuráli um þriðjung af þeirri raforku sem álverið notar og er ekki stærsti orkubirgir þess.

Langtíma rafmagnssamningar Landsvirkjunar og Norðuráls eru tveir og hafa þeir lengst af verið tengdir álverði.

Álverðstengingar án verðgólfs í rafmagnsamningum eru arfleifð liðins tíma og ákvörðun um tengingarnar byggði á spám um álverð sem ekki raungerðust. Rafmagnssamningar með slíkar tengingar hafa ekki staðist væntingar Landsvirkjunar og raforkuverð þeirra hefur verið undir kostnaðarverði Landsvirkjunar.

Kostnaðarverð, fast verð og kaupábyrgð

Raforkuverð í samningum Landsvirkjunar þarf að meðaltali að vera yfir kostnaðarverði fyrirtækisins af vinnslu orkunnar. Sala undir því jafngildir eftirgjöf á þeim verðmætum sem þjóðin hefur treyst Landsvirkjun fyrir og er óheimil samkvæmt reglum um ríkisaðstoð, auk þess sem slík sala undir kostnaðarverði getur varðað við samkeppnislög. Það er vegna þess – og til að draga úr verðáhættu – sem Landsvirkjun kýs helst að selja raforku á föstu verði (raforkuverði tengdu neysluverðsvísitölu) sem er tryggt að sé hærra en kostnaðarverð. Einnig er mikilvægt að kaupendur leggi fram trausta ábyrgð sem Landsvirkjun getur nýtt ef ekki er staðið við umsamin orkukaup.

Framtíð rafmagnssamninga við álver

Í eldri samningum við álver var raforkuverð tengt álverði að öllu leyti og ekkert verðgólf til að draga úr áhættu Landsvirkjunar. Við undirritun þeirra voru væntingar um hagstæða þróun álmarkaða. Raunin hefur verið önnur og undanfarna áratugi hefur álverð lækkað og spár gera ekki ráð fyrir álverð nái fyrri hæðum. Virði eldri samninga við álver hefur því verið minna fyrir Landsvirkjun en búist var við og þörf á nýrri nálgun í slíkum samningum.

Sjá nánar