Landsvirkjun

Ungt fólk í fjölbreyttum störfum

  

Við auglýsum eftir metnaðarfullum háskóla- og tækninemum í fjölbreytt sumarstörf í höfuðstöðvunum okkar í Reykjavík og aflstöðvum víða um land. Einnig ráðum við ungmenni á aldrinum 16 til 20 ára til starfa í sumarhópa sem starfræktir eru um allt land.

Sumarstörf fyrir háskóla- og tækninema

Sem þekkingarfyrirtæki í fremstu röð gefum við metnaðarfullum háskóla- og tækninemum tækifæri til að taka virkan þátt í starfseminni. Þátttaka í raunhæfum verkefnum á sérsviði nemenda gerir þeim kleift að afla sér reynslu sem nýtist í námi og gefur mikilvæga innsýn inn í verkefni og áskoranir framtíðarinnar.

Dagleg verkefni eru afar fjölbreytt. Þó að verkfræðingar séu fjölmennir á starfsstöðvum okkar þá gerum við ýmislegt annað en að hanna mannvirki og reikna út magn steypu. Sinna þarf viðhaldi á vélum og stjórntækjum aflstöðva, rannsaka auðlindina með ferðum upp á jökla og út í ár, halda fundi með hagsmunaðilum, gera fjárhagsáætlanir og móta stefnu fyrirtækisins, svo fátt eitt sé nefnt.

„Ég vann eitt sumar á orkusviði þar sem ég þurfti að takast á við fjölbreytt og skemmtileg verkefni, m.a. að gera upp 100 ára gamla túrbínu fyrir sýningu. Ég var aðallega í Blönduvirkjun en kom líka við í Laxárvirkjun og Kröfluvirkjun. Landsvirkjun býður upp á mjög gott umhverfi til þess að læra og allir boðnir og búnir til þess að hjálpa og leiðbeina auk þess sem andrúmsloftið er vinalegt og gott.”

Aldís Eir Hansen
Vélfræðinemi á Blöndusvæði
Orkusvið

Við störfum eftir sex sviðum og á hverju þeirra eru í boði spennandi sumarstörf. Við hvetjum umsækjendur að kynna sér starfsemi hvers sviðs áður en umsókn er lögð inn. Þannig aukast líkurnar á því að þú fáir starf sem tengist þínu áhugasviði.

  

Þróunarsvið

Þegar nýr virkjunarkostur er tekinn til skoðunar þarf að rannsaka fjölmarga þætti. Þróunarsvið sér meðal annars um tilhögun framkvæmda, hönnun mannvirkja og að rannsaka áhrif á lífríki, gróðurfar, ástand jökla, ár og jarðhitageyma á svæðinu. Eftir að aflstöðvarnar taka til starfa halda rannsóknir áfram sem gefa skýra mynd af ástandi orkuauðlindarinnar yfir lengri tíma.

Orkusvið

Á hverjum degi er pantað ákveðið magn af raforku sem þarf að koma til skila í réttu magni, á réttri spennu og með réttum riðum. Orkusviðið ber ábyrgð á að afhenda á öruggan hátt þá raforku frá aflstöðvunum sem samningar kveða á um og stilla upp hversu mikið rafmagn skal vinna í hverri stöð á hverri klukkustund. Hér á sér stað nákvæm samvinna á milli aflstöðva og höfuðstöðva.

Skrifstofa forstjóra

Hér starfa lögfræðingar, verkfræðingar, sálfræðingar, hönnuðir og stjórnmálafræðingar að sameiginlegum málefnum fyrirtækisins á borð við stefnumótun, starfsmannamál, samskiptamál og samfélagslega ábyrgð. Skrifstofa forstjóra heldur utan um fræðslu og þjálfun starfsfólks og stjórnenda og hér er upplýsinga- og kynningarefni unnið með starfsfólki annarra sviða áður en því er miðlað til fjölmiðla og hagsmunaaðila.

Markaðs- og viðskiptaþróunarsvið

Raforka er óáþreifanleg vara, sem felur í sér ákveðnar áskoranir í sölustarfinu. Þar sem ekki er hægt að flytja út rafmagn þarf að flytja viðskiptavinina til Íslands. Hér eru ný viðskiptatækifæri greind, séð um samningagerð og eftirfylgni þeirra og Landsvirkjun og Ísland kynnt fyrir fjölbreyttum iðngreinum sem vilja nýta sér endurnýjanlega orku í starfsemi sinni.

Framkvæmdasvið

Að stýra byggingu virkjunar frá hönnun að fullbúinni aflstöð er nákvæmt og flókið ferli. Þá skiptir öllu máli að allar áætlanir og útreikningar á mannafla, námatöku, steypumagni og fleiru séu réttir. Framkvæmdasvið vaktar kostnað, gæði og framvindu verksins og tryggir að því sé skilað á réttan hátt, á réttum tíma og í samræmi við áætlanir og þarfir fyrirtækisins.

Fjármálasvið

Landsvirkjun er orkufyrirtæki í eigu íslensku þjóðarinnar og því skiptir miklu máli að reksturinn sé arðbær. Fjármálasvið vinnur með öllum sviðum fyrirtækisins að því að hámarka hagkvæmni í rekstri svo hægt sé að greiða niður skuldir og skapa arð af starfseminni. Fjármál og reikningshald fyrirtækisins auk framkvæmdar og eftirlits með útboðum heyrir líka undir sviðið.

„Ég fékk það verkefni í sumarstarfi mínu að taka alþjóðlegan staðal sem notaður er til að merkja alla hluti innan fyrirtækisins og koma honum á rafrænt form. Ég fékk nokkuð frjálsar hendur með verkefnið og notfærði mér það að tengja saman það sem ég lærði í náminu við verkefni á vinnumarkaði. Hjá Landsvirkjun fékk ég alla þá aðstoð og frjálsræði sem þurfti til að komast vel inn í hlutina. Ég starfa enn hjá Landsvirkjun og er mjög ánægður með starf mitt og því sem ég hef skilað af mér til fyrirtækisins.”

Rúnar Kristjánsson
sérfræðingur, eignastýring
Orkusvið

„Mitt helsta verkefni í sumarstarfi mínu sneri að því að skoða leiðir til að draga úr umhverfisáhrifum Kröflustöðvar og gera tilraunir til að undirbúa mögulegar breytingar á stöðinni með því markmiði. Í dag starfa ég í því verkefni á þróunarsviði ásamt því að sinna öðrum fjölbreyttum verkefnum tengdum jarðvarmavirkjunum Landsvirkjunar.”

Freyja Björk Dagbjartsdóttir
Sérfræðingur á þróunarsviði
Jarðvarmi

Áður en þú hefur umsóknarferlið skaltu hafa ferilskrána þína tilbúna. Þér gefst einnig kostur á að senda kynningarbréf og mynd með umsókninni. 

Umsóknarferlinu lýkur 28. febrúar. Öllum umsóknum er svarað þegar ráðningum í sumarstörf er lokið.

Umsókn fyrir háskóla-, iðn- og tækninema

 • Verkstjórn í sumarvinnu unglinga á höfuðborgarsvæðinu og við aflstöðvar á landsbyggðinni.
 • Upplýsingasöfnun og skýrslugerð vegna þróunarverkefna.
 • Teymisvinna við viðhald og rekstur aflstöðva - hentar vélfræði- og rafvirkjanemum.
 • Afleysingar í móttöku og við húsvörslu á höfðuðborgarsvæðinu.
 • Afleysingar í mötuneytum fyrirtækisins í Reykjavík, Búrfelli og Blöndu.
 • Móttöku gesta í gestastofum á aflstöðvum Landsvirkjunar, í Ljósafossstöð og í Kröflustöð.
 • Móttöku gesta og umsjón með Þjóðveldisbæ í Þjórsárdal.
 • Afleysingar í fjárstýringu og reikningshaldi.
 • Afleysingar og aðstoð við sérhæfð skrifstofustörf t.d. á starfsmannasviði og á lögfræðisviði.
 • Verkfræðistörf tengd rannsóknum og þróun orkukosta.
 • Verkfræðistörf tengd viðhaldi og rekstri aflstöðva.

Sumarhópar fyrir 16-20 ára

Ár hvert ráðum við um það bil 150 ungmenni til starfa í sumarhópunum okkar. Þeir eru starfræktir í Reykjavík og við sex aflstöðvar fyrirtækisins víða um land.

Hóparnir hafa meðal annars það hlutverk að sinna viðhaldsstörfum eins og grasslætti, lagningu göngustíga og málningarvinnu í nágrenni aflstöðvanna.

Í verkefninu „Margar hendur vinna létt verk“ hafa sumarhóparnir einnig unnið að landgræðslu, hirðingu útivistar- og ferðamannasvæða og margvíslegum samfélagsverkefnum. Verkefnið er samstarfsverkefni Landsvirkjunar og félagasamtaka, sveitarfélaga og stofnana.

„Síðustu þrjú sumur starfaði ég sem verkstjóri yfir sumarvinnu ungmenna í Fljótsdalsstöð. Það er mjög fjölbreytt starf að vera verkstjóri og engir tveir dagar eru eins. Við vorum tvær sem sáum um að stýra hópi ungmenna sem vann að ýmsum verkefnum við Fljótsdalsstöð, uppi á hálendi og í sveitunum í kring. Það er krefjandi að sjá um slíkan hóp og skipuleggja verkefni en á sama tíma mjög lærdómsríkt og skemmtilegt.”

Sigurlaug Helgadóttir
Verkstjóri í Fljótsdalsstöð

Umsóknarferlinu lýkur 28. febrúar. Öllum umsóknum er svarað þegar ráðningum í sumarstörf er lokið.

Umsóknareyðublað fyrir 16-20 ára

 • Blanda – Starfsmenn koma sér sjálfir á staðinn á mánudagsmorgnum og gista á staðnum.
 • Þjórsársvæði – Rútuferðir daglega úr Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
 • Fljótsdalur – Daglegar rútuferðir frá Egilsstöðum
 • Laxá – Starfsmenn koma sér sjálfir á staðinn.
 • Krafla - Starfsmenn koma sér sjálfir á staðinn.
 • Reykjavík – Rútuferðir úr Mjóddinni daglega.
 • Sog – Rútuferðir frá Reykjavík og Selfossi daglega.

Fyrir nánari upplýsingar er hægt að senda tölvupóst á starfsmannasvid (hjá) landsvirkjun.is