
Hvammsvirkjun
Velkomin á vef Hvammsvirkjunar!
Landsvirkjun hefur um árabil unnið að undirbúningi virkjunarinnar sem mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðsey austan við Þjórsárholt.
Í fréttavakt hér fyrir neðan getur þú nálgast öll nýjustu tíðindi sem tengjast verkefninu.
Fréttavakt
Velkomin á vaktina! Hér fyrir neðan getur þú nálgast allar nýjustu fréttir og reglulegar uppfærslur um stöðu mála og framvindu verkefnisins.
Rangárþing ytra gefur út framkvæmdaleyfi
Sveitarstjórn Rangárþings ytra hefur falið skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að gefa út nýtt framkvæmdaleyfi til Landsvirkjunar vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun.

Virkjunarleyfi til bráðabirgða veitt
Í dag veitti Umhverfis-og orkustofnun Landsvirkjun virkjunarleyfi til bráðabirgða vegna undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun. Leyfið tekur til þeirra undirbúningsframkvæmda sem þegar voru hafnar og gildir í sex mánuði frá útgáfu.
Bráðabirgðaúrskurður hefur óveruleg áhrif á undirbúningsframkvæmdir
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sendi í dag frá sér bráðabirgðaúrskurð um stöðvun hluta undirbúningsframkvæmda við Hvammsvirkjun.
Sprengt í Hvammi á laugardag
Sprengt verður í Hvammi á laugardaginn 26. júlí milli kl. 12 og 16.
Á þessu tímabili verður sprengd svokölluð „presplit“ sprenging, sem er kraftmikil og hávær og má búast við að heyrist mun víðar en þær sprengingar sem verið hafa í vikunni.
Sprengingar í dag
Í dag, mánudag, verða sprengingar frá kl. 12-16:30.
Þetta er sprenging af þeirri tegund sem er háværari.
Minni sprengingar á næstunni
Engar sprengingar verða á svæðinu það sem eftir er vikunnar. Minni háttar sprengingar eru fyrirhugaðar virka daga 21.-25. júlí, á tímabilinu frá kl. 8 til 19. Þær heyrast ekki utan svæðis. Hljóð frá sambærilegri sprengingu miðvikudaginn 16. júlí mældist 59 desibel í 360 metra fjarlægð frá sprengistað. Á sama tíma greindist vindgnauð á staðnum 56 desibel.
Við munum láta vita sérstaklega þegar sprengingarnar eru stærri og hávaðasamari. Slíkar sprengingar eru miklu færri en smásprengingarnar, en heyrast að sama skapi lengra.
Sprengingar á næstunni
Vegna jarðvegsvinnu á framkvæmdasvæði Hvammsvirkjunar hefur þurft að sprengja undanfarið. Þær sprengingar munu halda áfram á næstunni, en við reynum að upplýsa um þær eins og kostur er. Sprengingarnar eru misöflugar, en íbúar í nágrenninu ættu ekki að verða mikið varir við þær sem næstar eru á áætlun:
Þriðjudaginn 15. júlí má búast við sprengingum á tímabilinu frá kl. 15:30 til 18.
Miðvikudaginn 16. júlí verða einnig sprengingar á tímabilinu frá kl. 11 til kl. 13.
UPPFÆRT: Engar sprengingar verða þriðjudaginn 15. júlí. Áætlanir fyrir 16. júlí eru óbreyttar.
Bygging Hvammsvirkjunar tefst enn
Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar, þess efnis að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi.

Tímabundin lokun reiðleiðar um norðanvert Skarðsfjall
Vegna framkvæmda hefur reiðleið um norðanverðan hluta Skarðsfjalls verið lokað. Lokunin er nauðsynleg vegna jarðvinnu og mannvirkjagerðar á framkvæmdasvæði virkjunarinnar og er ætlað að tryggja öryggi bæði vegfarenda og starfsfólks á svæðinu.
Reiðleiðin, sem um árabil hefur verið nýtt af hestamönnum og öðrum ferðalöngum, liggur nú í gegnum svæði þar sem framkvæmdir eru í fullum gangi. Af öryggisástæðum er því óhjákvæmilegt að loka leiðinni tímabundið á meðan á framkvæmdum stendur.
Á meðan lokunin varir er umferð ríðandi fólks úr suðri beint um land Hvamms 3 og þaðan með Hvammsvegi að Landvegi. Hjáleiðin er merkt og aðgengileg og hentar hestum og reiðfólki. Ferðafólki er eindregið bent á að fylgja leiðbeiningum og virða allar merkingar og öryggisskilti á svæðinu.
Sérstök ábending er hér með gefin til þeirra sem koma úr norðri um Skarfanes, að viðkomandi reiðleið inn á Skarðsfjall er nú lokuð. Því gæti verið nauðsynlegt að velja aðra leið, enda ekki fært áfram inn í virkjanasvæðið frá þeirri stefnu á meðan lokunin er í gildi.
Í nánu samstarfi við hagaðila
Lokunin verður í gildi á meðan framkvæmdir á tilgreindu svæði standa yfir. Landsvirkjun mun upplýsa um opnun leiðarinnar með góðum fyrirvara, þegar aðstæður leyfa og öryggi er tryggt. Unnið er í nánu samstarfi við sveitarfélög, landeigendur og hestamannafélög í nágrenninu með það að markmiði að lágmarka röskun á hefðbundinni umferð og útivist.
Landsvirkjun biðst forláts á þeim óþægindum sem lokunin kann að valda og þakkar sýndan skilning og gott samstarf við alla hlutaðeigandi.
Stólpi reisir vinnubúðir við Hvamm
Landsvirkjun og Stólpi hafa skrifað undir samning um gerð vinnubúða við Hvammsvirkjun.
Verkið felur í sér smíði á færanlegum vinnubúðaeiningum og undirstöðum, flutningi, uppsetningu og frágangi á einingum og undirstöðum, ásamt lagningu og tengingu lagna frá vinnubúðaeiningunum að tengipunktum veitustofna á svæðinu.
Í þessum áfanga verða reistar svefneiningar fyrir 32 manns, aðstaða fyrir heilsugæslu, mötuneyti, skrifstofu og heilsurækt. Vinnubúðirnar verða í landi Hvamms 3 við Hvammsveg í Rangárþingi ytra. Unnið hefur verið að undirbúningi við innviði á svæðinu undanfarið.
Sprengingar vegna jarðvegsvinnu
Vegna jarðvegsvinnu við undirbúning Hvammsvirkjunar má reikna með að verktakar þurfi á næstunni að sprengja berg á svæðinu. Búast má við að einhverjar sprengingar verði flesta daga í sumar, á bilinu frá kl. 8 á morgnana til kl. 19 á daginn. Sprengingar um helgar verða takmarkaðar eins og unnt er.
Framkvæmdaleyfi sveitarfélaga nær til undirbúningsverkefna af þessu tagi. Ekki verður hafist handa við neina vinnu í árfarveginum fyrr en niðurstaða fæst í dómsmáli um virkjunarleyfi.
Við biðjumst velvirðingar á því ónæði sem þessar óhjákvæmilegu sprengingar geta valdið og munum kappkosta að láta íbúa í nágrenni framkvæmdanna vita af þeim fyrirfram, eftir því sem kostur er.
Fjallað um útboðsmál á mbl.is
Morgunblaðið rakti stöðu útboðsmála vegna Hvammsvirkjunar í frétt í blaðinu sl. laugardag og vísaði þar til upplýsinga frá Ólöfu Rós Káradóttur, yfirverkefnastjóra virkjunarinnar.
Umfjöllun um kynningarfundi vegna útboðs
Vísir.is fjallaði nýverið um fundina tvo sem við héldum á Suðurlandi í síðustu viku til að kynna fyrirhugað útboð vegna gistingar á svæðinu.

Í fréttinni er rætt við Sigurgeir Björn Geirsson, yfirverkefnastjóra Búrfellslundar við Vaðöldu:
„Við höfum hingað til leyst þessa gistingu með því að vera með okkar eigin vinnubúðir og óskað eftir því að verktakar, sem eru að vinna fyrir okkur komi með búðir fyrir sitt starfsfólk en nú er umfangið bara meira og við sjáum tækifæri í því að leita til nærsamfélagsins eftir þjónustu, þar að segja að bjóða upp á gistingu í tengslum við fyrirhugaðar framkvæmdir okkar á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu á næstu árum.“
Auglýst eftir gistikostum
Landsvirkjun þarf að útvega starfsfólki sínu og verktökum gistingu á næstu misserum og árum, í tengslum við miklar framkvæmdir á starfssvæði okkar við Búrfell. Þess vegna auglýsum við nú útboð á gistiþjónustu og boðum til kynningarfunda í Árnesi og Stracta miðvikudaginn 29. janúar.
Hugsanlegar tafir á framkvæmdum
Framkvæmdir við Hvammsvirkjun gætu tafist um ófyrirséðan tíma, í kjölfar þess að Héraðsdómur Reykjavíkur felldi virkjunarleyfi hennar úr gildi. Landsvirkjun hefur ákveðið að áfrýja dóminum og óska eftir að málið fari beint til Hæstaréttar. Þá hefur umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra boðað frumvarp sem greiði fyrir framkvæmdum við Hvammsvirkjun og komi í veg fyrir frekari tafir. Áfram verður skýrt frá stöðunni á þessari síðu eftir því sem málum vindur fram.
Forsendur dóms Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 15. janúar eru að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti Þjórsár og því geti virkjunarleyfið ekki staðið. Við innleiðingu vatnatilskipunar Evrópusambandsins hafi löggjafinn í raun gert Umhverfisstofnun ókleift að veita heimild til breytingar á vatnshloti fyrir byggingu vatnsaflsvirkjana og þar með sé ekki hægt að gefa út virkjunarleyfi.
Hvammsvirkjun verður byggð
Við hjá Landsvirkjun erum sannfærð um að Hvammsvirkjun verður byggð, enda hefur stuðningur við það á Alþingi og í samfélaginu almennt líklega aldrei verið meiri. Við höfum vandað mjög til allra verka á öllum stigum undirbúnings virkjunarinnar, sem er eflaust mest og best rannsakaða verkefni á landinu.
Áætlanir okkar gerðu ráð fyrir að hverflar Hvammsvirkjunar færu að snúast síðla árs 2029 en svo gæti farið að sú dagsetning standist ekki. Seinkun verkefnisins mun hafa mjög neikvæðar afleiðingar fyrir vöxt og viðgang samfélagsins, enda er staðan í raforkukerfinu þegar orðin mjög þröng og þar mun enn herða að á næstu árum.
Landsvirkjun áfrýjar dómi héraðsdóms
Landsvirkjun hefur ákveðið að áfrýja dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. janúar sl. þar sem virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var fellt úr gildi og óska eftir því að málið fari beint til Hæstaréttar.

Héraðsdómur fellir virkjunarleyfi úr gildi
Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar skyldi fellt úr gildi. Dómarinn telur að Umhverfisstofnun hafi skort lagastoð til að heimila breytingu á vatnshloti og því geti virkjunarleyfið ekki staðið.
Rafdreifistöð sett upp
Á dögunum var sett upp rafdreifistöð á vinnubúðasvæðið við Hvamm - í köldu en fallegu veðri.
Hreinn Hjartarson verkefnisstjóri hjá nýframkvæmdum var með drónann á lofti og smellti af:


Fossvélar hefjast handa við Hvammsvirkjun
Landsvirkjun og Fossvélar ehf. á Selfossi hafa samið um framkvæmdir vegna Hvammsvirkjunar. Fossvélar munu m.a. leggja veg að væntanlegu stöðvarhúsi og undirbúa plan undir vinnubúðir. Í þessum verkum felst upphaf eiginlegra virkjunarframkvæmda á svæðinu, en öll leyfi voru í höfn í lok október.

Yfirgripsmikil grein um framkvæmdaverkefni
Það er óhætt að mæla með lestri greinarinnar hér fyrir neðan. Hún birtist í fjölmiðlum í vikunni, en í henni er farið yfir allar framkvæmdir sem framundan eru hjá okkur á Suðurlandi.
Þar kemur meðal annars fram að þegar mest verður að gera í Hvammsvirkjun, Búrfellslundi og Sigöldu verða 650 manns á verkstað!
Ærin verkefni næstu ár
Grein eftir Ásbjörgu Kristinsdóttur, framkvæmdastjóra Framkvæmda hjá Landsvirkjun, um þau viðamiklu verkefni sem framundan eru á Suðurlandi.
