Unnið hefur verið að nýju mati á áhrifum Hvammsvirkjunar á tvo umhverfisþætti af tólf í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015.
Í úrskurði Skipulagsstofnunar, sem umhverfisráðherra staðfesti 2004, kom fram að virkjunin myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif að uppfylltum sjö skilyrðum. Frá árinu 2004 hefur Landsvirkjun unnið að því að uppfylla skilyrðin, sem m.a. snúa að áframhaldandi rannsóknum á lífríki Þjórsár, áhættumati og að fyrirbyggja rof.
Þar sem framkvæmdir við virkjun höfðu ekki hafist 10 árum eftir úrskurðinn þurfti Skipulagsstofnun að ákveða hvort endurtaka ætti mat á umhverfisáhrifum að hluta eða í heild, og var niðurstaðan að meta þyrfti aftur áhrif á tvo þætti;
- Útivist og ferðaþjónustu
- Landslag og ásýnd lands.
Mat frá 2004 á áhrifum á hina tíu þættina er í fullu gildi. Ástæður þess að endurmeta þurfti þessa tvo þætti er þróun sem orðið hefur á síðasta áratug í myndvinnslu og landslagsgreiningu, sem gerir okkur kleift að skoða betur og greina sjónræn áhrif virkjunar, auk þess sem ferðaþjónustan er stærri atvinnugrein en spár gerðu ráð fyrir árið 2004. Nýtt mat byggir á viðamiklum viðhorfskönnunum, tölvugerðum myndum sem sýna breytta ásýnd með virkjun og á landslagsgreiningu.
Matsskýrsla ásamt áliti Skipulagsstofnunnar um mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar liggur nú fyrir. Skýrsluna og álitið er að finna á slóðinni hvammur.landsvirkjun.is