38 styrkþegar deila 67 milljónum

10.02.2023Samfélag

Úthlutað hefur verið úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar. Í þessari 16. úthlutun sjóðsins runnu tæpar 67 milljónir króna til 38 styrkhafa. Umsækjendur eru nemendur í framhaldsnámi á háskólastigi með skilgreind rannsóknarverkefni. Styrkveitingar, að meðtöldum styrkjum þessa árs, eru alls 372 frá upphafi og nema samtals 915 milljónum kr.

Ánægðir styrkþegar við afhendingu styrkja úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar
Ánægðir styrkþegar við afhendingu styrkja úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar

Verðum öll að leggja okkar af mörkum

Tilgangur Orkurannsóknasjóðs er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsfólk til að velja sér viðfangsefni á þeim sviðum, gera fjárframlög orkufyrirtækis þjóðarinnar til rannsókna bæði skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem styrktar eru aðstoði við að ná fram framtíðarsýn okkar, sem er sjálfbær heimur knúinn endurnýjanlegri orku.

Í ávarpi við afhendingu styrkjanna sagði Kristin Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, að græn framtíð væri undir okkur öllum komin.

„Við verðum öll að leggja eitthvað til málanna í baráttunni gegn hlýnun jarðar því loftslagsváin, ein stærsta áskorun okkar tíma, virðir ekki landamæri. Og við vitum að heimurinn þarf á nýsköpun að halda til að takast á við þetta gríðarstóra vandamál. Þessi nauðsynlega nýsköpun sprettur ekki fram af sjálfu sér. Hún verður meðal annars til með góðu samstarfi atvinnulífsins og háskólasamfélagsins. Þetta samstarf skiptir lykilmáli í vegferð okkar að grænni framtíð. Við hjá Landsvirkjun viljum leggja okkar að mörkum til að auka þekkingu og menntun á þeim sviðum sem við vitum að munu skipta öllu máli í þeirri vegferð að koma á grænu og loftslagsvænu samfélagi, knúnu endurnýjanlegri orku.“

Eldstöð, jökull og skordýr

Sjá allar úthlutanir úr Orkurannsóknasjóði 2023

Alls bárust að þessu sinni 78 umsóknir um rannsóknarverkefni með samanlögðum óskum um 256 m.kr. til verkefna á árinu 2023 en til ráðstöfunar voru 67 m.kr. Ljóst er því, að margar vel hæfar umsóknir gátu ekki fengið styrk að þessu sinni.

Við afhendingu styrkjanna kynntu þrír styrkþegar verkefni sín. Bryndís Brandsdóttir sagði frá eldstöðinni Bárðarbungu, Ívar Örn Benediktsson frá hörfun ísaldarjökulsins á Austurlandi og Ragnheiður Þórarinsdóttir fjallaði um skordýrarækt á Íslandi.

Stjórn Orkurannsóknasjóðs skipa þau Óli Grétar Blöndal Sveinsson forstöðumaður yfir þróun vatnsafls hjá Landsvirkjun, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands, Ragnheiður Ólafsdóttir um­hverfis­stjóri Landsvirkjunar, Halldór Svavarsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild við Háskólann í Reykjavík, Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri og formaður stjórnar Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur og fyrrum jarðeðlisfræðingur á ÍSOR.