58 milljónir til rannsókna í orku- og umhverfis­málum

08.05.2020Umhverfi

Landsvirkjun úthlutaði 58 milljónum króna úr Orkurannsóknasjóði fyrirtækisins í ár til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála. Þetta var í þrettánda sinn sem úthlutað var úr sjóðnum, en alls hefur hann veitt styrki að upphæð 728 milljónir króna.

Landsvirkjun úthlutaði 58 milljónum króna úr Orkurannsóknasjóði fyrirtækisins í ár til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála. Þetta var í þrettánda sinn sem úthlutað var úr sjóðnum, en alls hefur hann veitt styrki að upphæð 728 milljónir króna.

Að þessu sinni var veittur 31 verkefnastyrkur til orkumála og til rannsókna á náttúru og umhverfi, þar með taldar rannsóknir til notkunar vistvænna orkugjafa í samgöngum og iðnaði. Af þessum 31 styrk var um þriðjungur framhaldsstyrkir.

Alls bárust 78 umsóknir um rannsóknaverkefni með samanlögðum óskum um 216 milljónir króna til verkefna á árinu 2020. Umsóknir um styrki voru þannig nærri fjórum sinnum hærri en ráðstöfunarféð og er því ljóst að margar góðar umsóknir fengu ekki styrk að þessu sinni.

728 milljónir á þrettán árum

Tilgangur Orkurannsóknasjóðs er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála, hvetja námsmenn til að velja sér viðfangsefni á þessu sviði, gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samrýmist umhverfisstefnu fyrirtækisins.

Á þrettán starfsárum sjóðsins hefur hann veitt styrki að upphæð 728 milljónir króna. Sjóðurinn hefur samtals veitt 449 styrki til nemenda og rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknaverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í ár var flóra verkefna mjög fjölbreytt og því til sönnunar eru hér nefnd nokkur dæmi: Áburðargjöf í skógrækt, Samfélag og umhverfisbreytingar á sögulegum tíma á Norðurlandi, Forðafræðilíkön fyrir jarðhitakerfi, Endurheimt vistkerfis, Rof jarðstíflu og hönnun flóðvara, Orku- og umhverfisvæn álframleiðsla, Ný túlkun á jarðskorpuhreyfingum við Heklu, Viðbrögð túndruvistkerfa við beitarfriðun, Landmótun og virkni fornra ísstrauma á Norðausturlandi, Áhrif ryks og sóts á íslenskan snjó og jökulís og Endurnýting rafhlöðu úr rafbílum. Í fyrri úthlutunum hafa verkefnin ekki síður verið fjölbreytt.

„Þegar sjóðurinn hóf störf fyrir 13 árum olli það áhyggjum hve fáir lögðu stund á framhaldsnám og rannsóknir við háskóla á sviði orku- og virkjunarmála og rannsóknum á náttúru og umhverfi sem þeim tengjast. Þar hefur orðið jákvæð breyting og það er verulegt ánægjuefni hve margir af hæfustu háskólanemum leggja nú stund á þessi fræði,“ sagði Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, við úthlutun styrkjanna.

Stjórn Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar er skipuð til tveggja ára í senn, að höfðu samráði við háskólasamfélagið.

Hana skipa:

  • Ragna Karlsdóttir, verkfræðingur og fyrrum jarðeðlisfræðingur á ÍSOR sem er formaður stjórnar
  • Óli Grétar Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs hjá Landsvirkjun
  • Ólafur Pétur Pálsson, prófessor í véla- og iðnaðarverkfræði við Háskóla Íslands
  • Ragnheiður Ólafsdóttir, um­hverfis­stjóri Landsvirkjunar
  • Halldór Svavarsson, prófessor við tækni- og verkfræðideild við Háskólann í Reykjavík
  • Brynhildur Bjarnadóttir, dósent við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri