Verndun vatns og stjórn vatnamála
Vatn er takmörkuð auðlind og jafnframt ein mikilvægasta auðlind okkar. Mikilvægt er að vel takist til við innleiðingu laga og reglna sem um þessa auðlind gilda. Við hjá Landsvirkjun höfum þar lagt hönd á plóg og kappkostum hér eftir sem hingað til að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til orkufyrirtækis þjóðarinnar.
Vatnatilskipun Evrópu var lögfest hér á landi árið 2011 með lögum um stjórn vatnamála en tilskipunin tók gildi í Evrópu árið 2000. Tilskipuninni er ætlað að tryggja verndun vatns og gæði þess og nær til alls vatns þ.e. bæði þess sem rennur á yfirborði og neðan jarðar (yfirborðsvatns og grunnvatns).
Þrátt fyrir að lögin hafi tekið gildið á Íslandi árið 2011 hefur framkvæmd þeirra gengið hægt. Fyrsta vatnaáætlun stjórnvalda leit fyrst dagsins ljós vorið 2022, ellefu árum eftir að lögin tóku gildi. Vatnaáætlun er áætlun stjórnvalda til 6 ára í senn og fjallar um ástand vatns og forgangsröðun aðgerða til að bæta ástand þess ef þörf er á. Þá fylgja vatnáætlun aðgerðaráætlun og vöktunaráætlun, þ.e. hvernig stjórnvöld hyggjast tryggja bætt vatnsgæði og vakta árangurinn.
Þó að Umhverfis- og orkustofnun fari með stjórnsýslu vatnamála er það á ábyrgð þeirra sem nýta vatnsauðlinda að ganga vel um hana, koma í veg fyrir að ástand vatns hnigni og bæta úr hafi svo farið. Grunneining sem unnið er með í stjórn vatnamála er svokallað „vatnshlot“ (e. water body). Slík grunneining getur til dæmis verið stöðuvatn eða tiltekinn hluti ár. Búið er að skilgreina vatnhlot fyrir allt Ísland og eru þau rúmlega 2.700 hér á landi, í strandsjó, árósum, ám og stöðuvötnum og svo í grunnvatni.
Flest vatnshlot hér á landi eru náttúruleg en ef þeim hefur verið breytt verulega vegna framkvæmda flokkast þau sem mikið breytt eða manngerð.